Börn og foreldrar í ljúfri boðsferð að Hríshóli
Um fyrri helgi bauð heimilisfólkið á Hríshóli í Reykhólasveit krökkunum í leikskólanum Hólabæ á Reykhólum og fjölskyldum þeirra í heimsókn. Meðal annars fengu krakkarnir að kíkja í fjárhúsin og skoða lömbin sem nýkomin voru í heiminn. Guðmundur slökkviliðsstjóri á Grund mætti á slökkvibílnum og krakkarnir og nokkrir foreldrar fengu að fara í sérstæðan bíltúr. Foreldrafélag Hólabæjar bauð upp á grillaðar pylsur og djús. Heimboð og ferðir af þessu tagi gefa lífinu lit. Hvernig ætti annað að vera í mildasta og fegursta héraði heims?
Að sögn þátttakenda var þetta yndisleg samverustund í fallegu veðri. Foreldrafélag Hólabæjar vill þakka Kötlu og Vilberg, Möllu og Þráni á Hríshóli kærlega fyrir að bjóða mannskapnum í heimsókn. Myndirnar voru teknar við þetta tækifæri.