Tenglar

17. apríl 2013 | vefstjori@reykholar.is

Bréf lögmannsins vegna Ingunnarstaða

Daníel Heiðar Jónsson við tankinn í mjólkurhúsinu á Ingunnarstöðum.
Daníel Heiðar Jónsson við tankinn í mjólkurhúsinu á Ingunnarstöðum.

Eins og hér kom fram í gær lýsti hreppsnefnd Reykhólahrepps í bókun á síðasta fundi yfir áhyggjum vegna stöðu mála á Ingunnarstöðum í Geiradal. Tilefnið var bréf Ólafs Kristinssonar, lögmanns Daníels á Ingunnarstöðum, sem tekið var fyrir á fundinum. Jafnframt fól hreppsnefnd sveitarstjóra að svara erindinu fyrir sína hönd. Bréf lögmannsins til hreppsnefndar fer hér á eftir:

 

Hér með sendi ég erindi fyrir hönd umbjóðanda míns, Daníels H. Jónssonar, bónda á Ingunnarstöðum, vegna þeirrar aðstöðu sem hann er kominn í.

 

Málavextir eru þeir að Daníel hugðist nútímavæða bú sitt í byrjun aldamóta og réðst hann í gagngerðar endurbætur á fjósi sínu á fyrsta tug þessarar aldar, þar sem hann setti upp mjólkurróbot og nútimavæddi bú sitt. Þegar hann er í þessum framkvæmdum þá koma upp veikindi í bústofni Daníels H. Jónssonar þannig að framleiðsla hans fellur niður um lengri tíma sem var slæmt með tilliti til þeirrar fjárfestingar sem hann hafði ráðist í.

 

Frá árinu 2008 reyndi Daníel að semja við bankann um lengingu og breytingu lána sinna en án árangurs. Í fjármálalegu hruni haustið 2008 þá aukast skuldir Daníels þar sem stór hluti þeirra er í erlendum gjaldmiðlum sem stökkbreytast. Í ársbyrjun 2009 er hafist handa við að fá Landsbanka Íslands til að aðstoða við að koma rekstri búsins í gott horf með því að afskrifa hluta af stökkbreyttum skuldum og lengja í lánum.

 

Daníel bauðst frá miðju ári 2009 til að leigja jörðina Ingunnarstaði langtímaleigu frá bankanum, en fram til dagsins í dag hefur bankinn ekki viljað rétta honum neina hjálparhönd og alveg lokað á það að hann leigi jörðina langtímaleigu. Að kröfu Skeljungs þá er bú Daníels Heiðars Jónssonar tekið til gjaldþrotaskipta 13. janúar 2011 og er Pétur Kristinsson hdl. skipaður skiptastjóri búsins.

 

Frá þeim tímapunkti gerist hver undarlegur atburður á eftir öðrum. Daníel yrkir jörðina og enginn kemur og talar við hann, hvorki skiptastjóri né nokkur annar. Í ársbyrjun 2012 tekur Landsbankinn af honum allar beingreiðslur, til að byrja með tekur hann 580.000 í 2 mánuði og síðan tekur hann allar beingreiðslur hans þrátt fyrir að lögin geri ráð fyrir að framleiðandi skuli fá beingreiðslur.

 

Landsbankinn er ekkert á því að semja við hann um leigu til lengri tíma á jörðinni heldur vill hann út af jörðinni og vill fara með jörðina í opið söluferli. Í því ferli selur bankinn kvótann af jörðinni en mat á jörð og kvóta námu um 110.000.000 kr. og þar af var kvótinn um 70.000.000 kr. virði. Það næsta sem gerist er að Daníel sætir í raun valdníðslu af hálfu MAST og er hann sviptur starfsleyfi undir árslok 2012 vegna minniháttar atvika sem hann hefur þegar komið í horf.

 

Nú er svo komið að fyrir héraðsdómi Vestfjarða er rekið útburðarmál á hendur Daníel H. Jónssyni þar sem bera á hann út ásamt bústofni af jörðinni Ingunnarstaðir. Sambýliskona hans hún Soffia á Efri Brunná er öll af vilja gerð að hjálpa honum. Hugmyndin er sú að hún mundi leigja jörðina eða fjósið af Landsbankanum um ákveðinn tíma meðan verið er að leysa vandamál Daníels gagnvart MAST og undirbúning á skaðabótamáli á hendur Landsbankanum.

 

Það væri gott ef hreppurinn gæti stutt við bakið á þessu með því að tala við bankann eða lýsa því yfir að vilja halda jörðinni í byggð og þrýsta þannig á alþingismenn og bankann um að ganga til samninga við Daníel. Allur stuðningur hreppsins í þessu máli í hvaða formi sem er myndi vera himnasending inn í það myrkur sem hvílir yfir Ingunnarstöðum núna. Ljóst er að hagsmunir allra lúta að því að halda jörðinni í byggð.

 

Virðingarfyllst,

Ólafur Kristinsson hdl.

 

Sjá einnig:

23.01.2013 Hefur hellt niður yfir 50 þúsund lítrum af mjólk

16.02.2013 Daníel á Ingunnarstöðum og baráttan við kerfið

19.02.2013 Fulltrúar Bændasamtakanna koma á Ingunnarstaði

21.02.2013 „Jákvæður fundur“ á Ingunnarstöðum

16.04.2013 Hreppsnefnd: Áhyggjur vegna Ingunnarstaða

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31