Breiðfirðingafélagið sló alla út í spurningakeppninni
Breiðfirðingafélagið sigraði í Spurningakeppni átthagafélaga, en úrslitakeppnin fór fram í Breiðfirðingabúð í gær. Lið sextán félaga tóku þátt í keppninni, þar af voru níu með rætur á Vestfjarðakjálka eða kringum Breiðafjörð. Félögin sem Breiðfirðingafélagið sló út á leið sinni á sigurbrautinni voru Barðstrendingafélagið, Árnesingafélagið, Skaftfellingafélagið og loks Norðfirðingafélagið í úrslitarimmunni í gærkvöldi.
Á Facebooksíðu Barðstrendingafélagsins (sem var svo óheppið að lenda á móti Breiðfirðingafélaginu í fyrstu umferð) skrifar formaðurinn:
Við í Barðstrendingafélaginu fengum verðlaun fyrir besta klappliðið í keppninni en allan heiður af því á Unnur Helga Jónsdóttir [frá Mýrartungu II í Reykhólasveit], nýr ritstjóri Sumarliða pósts :)
Dýrfirðingafélagið hlaut verðlaun fyrir bestu tilþrifin í leiknum.
Höfundur spurninga og dómari í keppninni allri var Gauti Eiríksson kennari og leiðsögumaður frá Stað á Reykjanesi.
Myndin sem hér fylgir er af vef Breiðfirðingafélagsins. Þriggja manna lið kepptu en fólk skiptist á og alls fimm manns kepptu fyrir Breiðfirðingafélagið. Sitjandi frá vinstri: Karl Hákon Karlsson, Páll Guðmundsson og Grétar Guðmundur Sæmundsson. Fyrir aftan: Urður María Sigurðardóttir og Elís Svavarsson.
► 18.02.2013 Spurningakeppnin: Átthagafélög að vestan í meirihluta
► 12.04.2013 Spurningakeppnin: Breiðfirðingafélagið komið í úrslit (með tenglum)
► 24.04.2013 Úrslit í spurningakeppninni og sveitaball