Breiðfirski gróðuráburðurinn Glæðir 15 ára
Núna í vor eru liðin fimmtán ár síðan Guðjón Dalkvist Gunnarsson á Reykhólum (Dalli) setti á markað lífrænan gróðuráburð undir nafninu Glæðir. Árin þar á undan hafði hann unnið að þróun, tilraunum og rannsóknum í samvinnu við fagmenn í garðyrkju þangað til rétta blandan taldist vera fundin. Glæðir samanstendur af klóþangi úr Breiðafirði, íslensku vatni og kalísóda, sem Dalli sýður saman. „Mestur tíminn fór í að finna réttu hlutföllin,“ segir hann. Þangið hefur löngum verið þekkt fyrir heilnæma eiginleika sína. Í því er fjöldi snefilefna sem nýtist gróðri.
Glæðir hentar jafnt að vori sem hausti, á grasflatir og tré og blóm bæði úti og inni. Vökvinn eins og hann kemur úr brúsunum er blandaður vatni til vökvunar og úðunar. Dalli bendir á að ef þang er soðið eitt og sér gerist lítið sem ekkert, en kalísódinn leysir upp snefilefnin í þanginu sem gagnast gróðrinum. Hann nýtist einnig sjálfur sem áburður enda eru köfnunarefni, fosfór og kalí þau næringarefni sem eru mikilvægust fyrir plöntur.
Fyrstu árin seldist Glæðir lítið en eftir að hann fór að fást í Bónusverslunum hringinn í kringum landið til viðbótar við Blómaval/Húsasmiðjuna fór salan heldur betur að glæðast og segir Dalli að þessi verslunarfyrirtæki hafi í raun haldið sölunni uppi. Þá hefur Byko selt nokkuð af Glæði, sem og gróðrarstöðin Storð. „Þetta gengur betur en ég þorði nokkurn tímann að vona,“ segir hann.
Glæðir fæst í eins og fimm lítra brúsum fyrir smánotendur og hefur salan á þeim stóraukist á síðustu árum. Líka fæst hann í 25 lítra brúsum fyrir stórnotendur.
„Núna er ýmislegt spennandi í sjónmáli,“ segir Dalli. „Matarspíruræktun stefnir á að nota Glæði eingöngu og stór sveitarfélög eru farin að nota hann í vinnuskólum og til annars brúks. Síðast en ekki síst var Glæðir notaður á knattspyrnuvöll í Reykjavík vegna einhverrar óværu og heppnaðist vel. Það gæti verið upphafið að meiru.“