Tenglar

11. maí 2009 |

Brennið þið vitar - myndlist á Bjargtöngum

Bjargtangaviti. Mynd: bb.is.
Bjargtangaviti. Mynd: bb.is.

Listahátíð í Reykjavík 2009 stendur í vor og sumar að óhefðbundnum listsýningum í fjórum vitum hringinn í kringum landið, einni í hverjum landsfjórðungi. Á Vestfjörðum sýnir Curver Thoroddsen í vitanum á Bjargtöngum, vestasta odda Íslands. Sýningin ber heitið SLICELAND - vestustu pizzur Evrópu. Auk Curvers sýnir Ásdís Sif Gunnarsdóttir í Kópaskersvita við Öxarfjörð, Gjörningaklúbburinn í Garðskagavita á Suðurnesjum og Unnar Örn í Dalatangavita á Austfjörðum. Yfirskrift sýninganna í heild er Brennið þið vitar.

 

Sýningarnar verða opnaðar á öllum stöðunum sunnudaginn 17. maí kl. 15. Meðan Listahátíð stendur eða fram til mánaðamóta verða sýningarnar opnar alla daga nema mánudaga kl. 13-18. Frá 1. júní og til 2. ágúst verða þær opnar frá fimmtudegi til sunnudags í viku hverri á sama tíma dagsins.

 

Í tilkynningu segir að listafólkið sem tekur þátt í sýningunni sé af ólíkum meiði þótt sömu kynslóðar sé. Þau eigi það sameiginlegt að hafa hvert á sinn hátt mótað heilsteypt safn verka þar sem leitað er nýstárlegra leiða til að kallast á við nánasta umhverfi, samfélagið og áhorfendur.

 

Heildarheiti sýninganna, Brennið þið vitar, er sótt í ljóð Davíðs Stefánssonar, ort í tilefni Alþingishátíðar árið 1930, þar sem vitum er lýst sem leiðarljósum sjófarenda. Nú er hugmyndin að snúa dæminu við enda lítil þörf á að senda ljósmerki á haf út í bjartri sumarnóttinni. Vitunum er ætlað að beina annars konar leiftri inn í landið og lýsa hverjum landa eftir harðan vetur upplausnar og óvissu. Fólk er hvatt til að ferðast í sumar á milli vita, taka þátt í sérstökum menningarviðburði, heimsækja þessi forvitnilegu mannvirki og njóta einstakrar náttúrufegurðar. Auk þess teygir sýningin anga sína í hina ýmsa miðla og munu berast leiftur frá hverjum vita hér og hvar í allt sumar þar sem listamennirnir verða í sérstöku samstarfi við útvarp, sjónvarp, dagblöð og vefmiðla.

 

Curver Thoroddsen hefur með raunveruleikagjörningum sínum og hjálp fjölmiðla endurspeglað eigin hversdagsheim. Sem dæmi eru eldri verk þar sem hann tók íbúðina sína í gegn, borðaði hamborgara upp á hvern dag og fór í megrun. Veruleikinn eins og hann blasir við flestum okkar fær nýja merkingu þegar hann er yfirfærður á vettvang myndlistar og fjölmiðla.

Þá hefur Curver unnið markvisst með eigin ímynd, eins og sú ákvörðun ber vitni að afnema á fullorðinsárum skírnarnafn sitt og taka þess í stað upp heiti alþjóðlegs plastfyrirtækis, Curver. Hann sýnir á vestasta odda landsins og þar með Evrópu, á barmi klettanna við Bjargtanga í námunda við Látrabjarg.

Curver er fæddur 1976, lærði myndlist í Listaháskólanum og lagði stund á framhaldsnám í New York. Hann hefur verið ötull á vettvangi tónlistar, ekki síst undanfarin ár með hljómsveitinni Ghostigital. Frekari upplýsingar um Curver má finna á www.ghostigital.com.

 

Listahátíð í Reykjavík stendur að sýningunum í samstarfi með Siglingastofnun Íslands, vitavörðum í hverjum vita og menningarfulltrúum þeirra sveitafélaga sem um ræðir. Með sýningarstjórn fara Markús Þór Andrésson og Dorothée Kirch.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30