Breytingar á mannfjölda ár frá ári 1998-2012
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands hefur fólki í Reykhólahreppi fækkað um 64 síðustu fjórtán árin, úr 335 í 271 eða um 19,1%. Á sama tíma hefur fólki á Reykhólum fækkað um 15 manns, úr 136 í 121 eða um 11%. Á þessum tíma hefur fólki á Vestfjarðakjálkanum fækkað um 1.601, úr 8.556 í 6.955 eða um 18,7%. Enda þótt fækkunin frá upphafi til loka þessa tíma sé hlutfallslega nánast hin sama í Reykhólahreppi og á Vestfjarðakjálkanum í heild er munurinn sá, að hún hefur verið nokkuð örugg og jöfn ár frá ári á Vestfjarðakjálkanum (nema 2008-2009) en ójöfn í Reykhólahreppi, þar sem naumast er um fækkun að ræða síðasta áratuginn tæpan. Í þorpinu á Reykhólum voru núna í ársbyrjun jafnmargir íbúar og árin 2000, 2001 og 2004 og fyrir einu ári voru þeir jafnmargir og árið 1999. Sjá töflurnar hér fyrir neðan.
Varðandi tölurnar um íbúafjölda á Vestfjarðakjálkanum er þess að geta, að þar er Bæjarhreppur við Hrútafjörð (og allt upp á Holtavörðuheiði) ekki tekinn með. Hann tilheyrði Strandasýslu og á sínum tíma Vestfjarðakjördæmi en sameinaðist Húnaþingi vestra núna um áramótin. Auk þess var hann allur utan Vestfjarðakjálkans (landfræðileg mörk eru úr Gilsfjarðarbotni í Bitrufjarðarbotn). Sjá meðf. kort (smellið á til að stækka). Strandabyggð teygir sig lítillega suður fyrir mörk kjálkans.
Reykhólahreppur Reykhólar Vestfjarðakjálkinn
1998 335 (karlar 177, konur 158) 136 (karlar 75, konur 61) 8.556
1999 307 (karlar 161, konur 146) 128 (karlar 70, konur 58) 8.503
2000 299 (karlar 155, konur 144) 121 (karlar 64, konur 57) 8.219
2001 311 (karlar 157, konur 154) 121 (karlar 61, konur 60) 8.059
2002 300 (karlar 150, konur 150) 122 (karlar 60, konur 62) 7.913
2003 294 (karlar 150, konur 144) 125 (karlar 61, konur 64) 7.821
2004 279 (karlar 142, konur 137) 121 (karlar 60, konur 61) 7.736
2005 262 (karlar 132, konur 130) 114 (karlar 58, konur 56) 7.597
2006 251 (karlar 125, konur 126) 117 (karlar 58, konur 59) 7.446
2007 255 (karlar 134, konur 121) 119 (karlar 63, konur 56) 7.361
2008 267 (karlar 141, konur 126) 129 (karlar 67, konur 62) 7.238
2009 280 (karlar 145, konur 135) 134 (karlar 69, konur 65) 7.287
2010 291 (karlar 148, konur 143) 131 (karlar 67, konur 64) 7.266
2011 278 (karlar 141, konur 137) 128 (karlar 64, konur 64) 7.037
2012 271 (karlar 134, konur 137) 121 (karlar 59, konur 62) 6.955
Aths. vegna misræmis:
Á vef Hagstofunnar (undirvefurinn Mannfjöldi) er hægt að sækja á einum stað fólksfjölda í Reykhólahreppi (Sveitarfélög) 1. janúar 1998-2012. Ekki er hægt að sækja á sama hátt fólksfjölda á Reykhólum (Byggðakjarnar) 1. janúar nema 1998-2011. Hins vegar er hægt að sækja annars staðar á sama undirvef fólksfjölda á Reykhólum 2011-2012 en ekki kemur fram við hvaða dagsetningu er miðað. A.m.k. núna um miðjan febrúar verður þó að ætla að það sé einnig 1. janúar, en þar stemmir fólksfjöldinn 2011 hins vegar ekki við fyrri skrána heldur kemur þar fram að fólksfjöldi sé 126, karlar 63 og konur 63.