Brot úr sögu verkalýðsfélaga í Flatey og á Reykhólum
Í síðustu viku kom út Vindur í seglum II, annað bindi sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum, eftir Sigurð Pétursson sagnfræðing á Ísafirði. Undirtitill bókarinnar er Strandir og firðir 1931-1970. Hér segir frá verkafólki við sjóinn, samtökum þess og samfélagi á Vestfjörðum. Fjallað er um tólf verkalýðsfélög í jafnmörgum byggðarlögum þar sem verkalýðshreyfingin náði fótfestu og verkafólk og sjómenn fengu í fyrsta sinn tækifæri til að hafa áhrif á kjör sín og afkomu. Sögusviðið nær frá Súgandafirði vestur til Patreksfjarðar, suður í Flatey á Breiðafirði og til Reykhóla og frá Borðeyri og norður um Strandasýslu allt til Djúpavíkur.
Hér verða birt fáein brot úr þessu mikla ritverki, þar sem fjallað er um verkalýðsfélög á Reykhólum og í Flatey, sem nú tilheyrir hinum sameinaða Reykhólahreppi eins og meginhluti Breiðafjarðareyja.
I. Glefsur úr kafla ...
... þar sem sagt er bæði frá Verkamannafélaginu Gretti á Reykhólum, sem lognaðist út af, og Verkalýðsfélaginu Brandi á Reykhólum, sem síðar tók upp nafn gamla félagins (Verkalýðsfélagið Grettir). Enn síðar nefndist það Verkalýðs- og sjómannafélagið Grettir og 2003 sameinaðist það Verkalýðsfélagi Vestfirðinga.
- Verkamannafélagið Grettir var stofnað á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu 15. júlí 1956. Félagið sótti þegar um upptöku í Alþýðusamband Íslands og fékk staðfestingu á inngöngu 28. ágúst sama ár. Stofnendur félagsins voru 21. Fyrstu stjórn skipuðu Sigurður Ólafsson formaður, Kristján S. Magnússon varaformaður, Daníel Arnfinnsson ritari og Ásgeir Sumarliðason gjaldkeri. Nafn félagsins var sótt til fornkappans Grettis Ásmundarsonar, enda lifir saga hans enn á Reykhólum í nafni Grettislaugar og fleiri örnefnum.
- Sigurður Ólafsson fyrsti formaður Grettis og kona hans Ísafold Guðmundsdóttir byggðu sér hús á Reykhólum árið 1951 ásamt öðrum hjónum, Hallfríði Guðmundsdóttur og Þorsteini Þórarinssyni. Var húsið nefnt Smiðja. Þá bjuggu 11 fjölskyldur á Reykhólum. Fjórar fjölskyldur iðnaðarmanna, fjórar bænda og daglaunamanna og þrjár embættismanna. Á Reykhólum sat prestur og læknir og þar var rekið tilraunabú á vegum ríkisins. Framkvæmdir á vegum ríkisins styrktu Reykhóla í sessi sem þéttbýliskjarna sveitarinnar.
[- - -]
- Þegar Verkamannafélagið Grettir var stofnað 1956 hafði myndast lítill byggðarkjarni kringum embætti og tilraunastöð á Reykhólum. En það vantaði enn mikið uppá. Engin höfn var á Reykhólum og engin verslun, utan sölubúð Kaupfélagsins sem stofnsett var 1950. Vöruúrvalið þar þótti ekki mikið og var búðin stundum kölluð Tómthúsið. Það var Kaupfélag Króksfjarðar sem rak búðina á Reykhólum. Starfsstöð félagsins og aðalverslunarstaður héraðsins var í Króksfjarðarnesi.
[- - -]
- Þjóðvegurinn vestan úr Dölum um Gilsfjörð lá um Króksfjarðarnes og náði allt að Kinnarstöðum í Þorskafirði árið 1938. Þar var endastöð, og Dala-Brandur, Guðbrandur Jörundsson frá Vatni í Haukadal, hóf áætlunarferðir frá Reykjavík vestur að Kinnarstöðum. Fjölskyldan á Kinnarstöðum rak greiðasölu og skaut skjólshúsi yfir ferðamenn. Flóabáturinn Konráð stillti ferðum saman við rúturnar sem komu á Kinnarstaði og farþegar komu fótgangandi eða á hestum úr Ísafjarðardjúpi yfir Þorskafjarðarheiði til að ná áætluninni suður.
[- - -]
- Framkvæmdir á Reykhólum, sláturhúsavinna hjá Kaupfélaginu í Króksfjarðarnesi og vegagerð á sumrin var það sem félagar Verkamannafélagsins Grettis gátu helst fengið vinnu við árið 1956. Breytingar í sveitum þýddu að íbúafjöldi í þremur austustu hreppum Barðastrandarsýslu, Gufudalssveit, Reykhólasveit og Geiradalshreppi, stóð í stað í besta falli næsta áratug. Sú þorpsmyndun sem örlaði á í Króksfjarðarnesi stöðvaðist og byggðin á Reykhólum þróaðist hægt. Erfitt reyndist að halda úti litlu verkalýðsfélagi.
[- - -]
- Fyrstu sjö árin, 1956-1962, voru fimm formenn í félaginu. Sigurður Ólafsson var búsettur á Reykhólum, en flutti þaðan um 1958. Þeir sem tóku við voru búsettir í sveitinni í nágrenni Króksfjarðarness, Kristján S. Magnússon bjó í Hólum og síðar Gautsdal, Birgir Hallgrímsson á Litlu-Brekku í Geiradal og Hákon Árnason á Kambi. Hann var jafnframt vörubílstjóri hjá Kaupfélagi Króksfjarðar. Árið 1962 tók Aðalsteinn Valdimarsson smiður á Reykhólum við formennsku. Þá hafði félögum fækkað úr 24 á upphafsárunum í 15, samkvæmt skýrslum félagsins til Alþýðusambands Íslands. Engar konur voru skráðar í félagið á þessum árum.
- Verkamannafélagið Grettir átti sér skamma sögu. Það var tekið af skrá yfir félög innan ASÍ árið 1966, þar sem þá höfðu ekki borist skýrslur eða skattgreiðslur til sambandsins tvö undangengin ár. Verkalýðshreyfingin vaknaði aftur á Reykhólum um áratug síðar, þegar þar var stofnað Verkalýðsfélagið Brandur. Nokkrum árum síðar tók það upp Grettisnafnið frá eldra félaginu.
II. Glefsur úr kafla ...
... þar sem segir frá Verkalýðsfélagi Flateyjar.
Söl, hrognkelsi, kræklingur,
hvönn, egg, reyr, dúnn, melur,
kál, ber, lundi, kolviður,
kofa, rjúpa, selur.
- Þannig hljóðar vísukorn sem lýsir hlunnindum höfuðbólsins Reykhóla í Austur-Barðastrandarsýslu. Breiðafjörðurinn var kallaður matarbúr landsins, því þar var gnægð matfanga til lands og sjávar og löngum bjuggu þar höfðingjar sem mikið áttu undir sér. Flatey á Breiðafirði liggur vel við siglingum og þar þótti góð höfn. Í hálfa aðra öld, frá um 1800 til 1950, var Flatey miðstöð verslunar og mannlífs í Breiðafjarðareyjum og sveitum í innanverðum Breiðafirði. Þorpið í Flatey var eina þéttbýlið í Austur-Barðastrandarsýslu og verslunarsvæðið náði einnig yfir á Barðaströnd og suður í Dalasýslu. Verkalýðshreyfingin tyllti niður fæti í Flatey árið 1930 og verkamenn og sjómenn fylktu liði undir merki hennar á tímum kreppu, uppbyggingar og niðurlægingar eyjasamfélagsins.
[- - -]
- Verkamenn og sjómenn komu saman í Flatey á Breiðafirði 4. apríl 1930 og stofnuðu verkalýðsfélag. Friðrik Salómonsson var kosinn formaður, Karl Magnússon ritari, Vigfús Stefánsson féhirðir og Magnús Andrésson og Þorvarður Kristjánsson meðstjórnendur. Það var Andrés Straumland sem stóð að undirbúningi félagsins á vegum Verklýðssambands Vesturlands. Stofnfélagar voru 14. Félagið kom strax á samningum við atvinnurekendur með samræmdu kaupgjaldi, en áður greiddu þeir „eftir eigin geðþótta“, einsog sagði í frétt í Skutli.
- Friðrik Salómonsson fyrsti formaður félagsins og kona hans Jónína Hermannsdóttir bjuggu í einu elsta húsi Flateyjar, sem kallað er Félagshúsið. Hermann S. Jónsson skipstjóri, faðir Jónínu, rak þar verslun á efri árum og tók Jónína við rekstrinum eftir hans dag. Friðrik stundaði bóksölu um árabil, samhliða verslun konu sinnar. Friðrik var vélstjóri og stundaði sjó meðfram annarri vinnu. Hann var síðar vitavörður í Flatey. Vigfús Stefánsson var ráðsmaður á búi Guðmundar Bergsteinssonar í Flatey og sagður brautryðjandi jafnaðarstefnunnar í þorpinu. Magnús Andrésson var barnakennari í Flatey og síðar fiskmatsmaður og ullarmatsmaður. Þorvarður var verkamaður og sjómaður og bjó ásamt fjölskyldu í húsinu Bræðraminni.
- Andrés Jóhannesson Straumland var fæddur í Skáleyjum 1895. Hann tók sér ættarnafnið Straumland árið 1924, þegar hann flutti til Kanada og bjó þar í þrjú ár. Hann var í framboði til Alþingis fyrir Alþýðuflokkinn í Barðastrandarsýslu árið 1923 og aftur 1927, skráður til heimilis í Skáleyjum. Árið 1930 var hann erindreki Verklýðssambands Vesturlands, sem stýrt var frá Ísafirði. Hélt hann erindi á fundum verkalýðsfélaga á Vestfjörðum auk þess að hjálpa til við stofnun félagsins á heimaslóðum sínum í Flatey. Andrés var eldheitur kommúnisti og eftir sumarstarf í síldinni á Siglufirði 1930 hélt hann til Moskvu ásamt þremur félögum sínum. Hann var við nám um veturinn í Lenínskólanum, alþjóðlegum byltingarskóla kommúnista. Árið eftir kom hann heim til Íslands, starfaði fyrir nýstofnaðan Kommúnistaflokk Íslands og var í framboði fyrir flokkinn í Barðastrandarsýslu árið 1933. Andrés Straumland stóð að stofnun SÍBS, Sambands íslenskra berklasjúklinga, árið 1938 og var fyrsti forseti þess.
[- - -]
- Um 1950 virtist Kaupfélag Flateyjar standa í blóma. Á næstu árum urðu miklar breytingar á verslunarháttum í sýslunni vegna bættra samgangna á landi. Bílvegur um austursýsluna færði verslun bænda til Króksfjarðarness og Barðstrendingar fluttu viðskipti sín til Patreksfjarðar eftir að vegur var lagður yfir Kleifaheiði árið 1950. Við þetta bættust töp vegna gjaldþrots Sigurfara og frystihússins. SÍS tók yfir eignir Kaupfélagsins vorið 1954 og fékk reksturinn fyrst í hendur Kaupfélagi Patreksfjarðar. Tveim árum síðar tók kaupfélagið í Stykkishólmi við versluninni í Flatey.
[- - -]
- Nú var fátt um fína drætti í Flatey. Kristján Pétur Andrésson formaður Verkalýðsfélagsins dvaldi í Stykkishólmi haustið 1955, þar sem enga vinnu var að fá á heimaslóð. Kristján skrifar Alþýðusambandinu og segir stjórnendur kaupfélagsins svíkja kjarasamninga um leið og skrifað sé undir. Árið eftir tók Friðrik Salómonsson aftur við formennsku í Verkalýðsfélaginu. Frystihúsið stóð autt og hann skrifar: „Starfsemi félagsins hefur að mestu legið niðri, á árinu, vegna mannfæðar, því að héðan fara allir burt, sem farið geta, í atvinnuleit, en hér hefur ekki verið um neina atvinnu að ræða síðastliðið ár. Í því efni er mikil þörf úrbóta, ef héraðið á ekki að fara í eyði.“
[- - -]
- Friðrik Salómonsson fyrsti formaður Verkalýðsfélags Flateyjar var jafnframt sá síðasti. Hann skilaði samviskusamlega árlegri skýrslu félagsins til Alþýðusambandsins til ársins 1962. Þá voru 11 karlar í félaginu. Verkalýðsfélag Flateyjar var tekið af skrá starfandi félaga í ASÍ árið 1962.
Í kynningu bókarinnar segir:
- Barátta verkafólks fyrir bættum kjörum á fyrri hluta 20. aldar gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Hér koma við sögu átök við atvinnurekendur, innri deilur í verkalýðshreyfingunni og pólitískar væringar. Um leið er lýst þróun atvinnuhátta og samfélags í byggðum Vestfjarða á 20. öld.
- Útgefandi er Alþýðusamband Vestfjarða. Fyrsta bindi verksins kom út árið 2011 og fjallaði um tímablilið 1890-1930. Vindur í seglum II er 540 blaðsíður, prýdd ríflega 200 ljósmyndum. Bókin fæst í bókaverslunum á Reykjavíkursvæðinu og víðar. Hún fæst jafnframt á skrifstofu Verkalýðsfélags Vestfirðinga á Ísafirði og á Patreksfirði. Líka fæst hún í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Einfaldast fyrir þá sem ekki eiga leið er að panta bókina hjá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga í síma 456 5190 eða senda tölvupóst.
- Ef bækurnar eru keyptar á skrifstofum félagsins er verð á nýju bókinni kr. 5.900. Verð á fyrsta bindi er kr. 4.000. Ef báðar bækurnar eru keyptar saman býðst sérstakt jólatilboð, kr. 8.900.
Í formála höfundar segir:
- Á tímabilinu 1931-1970 sótti verkalýðshreyfingin fram til áhrifa á öllum sviðum þjóðlífisins og varð um miðja öldina stærsta og áhrifamesta fjöldahreyfing á landinu. Félagsleg réttindi náðust fram, áhrif á kaup og kjör voru viðurkennd og afskipti og þátttaka verkalýðsfélaga af atvinnulífi og samfélagsmálum þóttu sjálfsögð. Hlutverk verkalýðsfélaganna í gangverki samfélagsins var staðreynd. Þetta mikilvæga hlutverk einstakra verkalýðsfélaga og hreyfingar vinnandi fólks náðist ekki fram viðstöðulaust. Það kostaði baráttu og þrek.