Tenglar

10. desember 2012 |

Brúðkaup og stórafmæli í gleðiborginni Las Vegas

Kúrekar í Villta vestrinu: Eva Sandra og Vilhjálmur, Victor Bentsson, Sigrún Rósa, Rósant Grétarsson, Brynjar Ingi Hannesson, Lóa á Miðjanesi, Alexander Björnsson, Bjartur Ísak Rósantsson og Bent Hansson.
Kúrekar í Villta vestrinu: Eva Sandra og Vilhjálmur, Victor Bentsson, Sigrún Rósa, Rósant Grétarsson, Brynjar Ingi Hannesson, Lóa á Miðjanesi, Alexander Björnsson, Bjartur Ísak Rósantsson og Bent Hansson.
1 af 5

Halldóra Játvarðardóttir (Lóa á Miðjanesi) átti stórafmæli 2. október og hélt upp á þann viðburð á ekki ómerkari stað en Las Vegas í eyðimerkurríkinu Nevada í Bandaríkjunum. Afmælið var samt ekki helsta ástæða ferðarinnar til gleðiborgarinnar frægu heldur brúðkaup, þó að brúðhjónin séu ekki búsett í Las Vegas heldur norður í Eyjafirði. Þarna voru gefin saman þau Eva Sandra Bentsdóttir og Vilhjálmur Rósantsson, dóttursonur Lóu.

 

„Við fórum tíu saman,“ segir Lóa. „Auk mín voru í ferðinni Sigrún Rósa dóttir mín og hennar fyrrverandi og tveir synir (brúðguminn og litli bróðir hans), brúðurin, faðir hennar og litli bróðir og síðan tveir vinir brúðhjónanna.“

 

Hópurinn fór flugleiðis alla leið til Seattle nyrst á vesturströnd Bandaríkjanna, átta tíma flug, og þaðan á sama máta suður til Las Vegas (sjá kort á mynd nr. 5). Þar var dvalist í tvær vikur og síðan farið sömu leið til baka.

 

Aðspurð hvort hún hafi ekki farið í spilavíti í sjálfri Las Vegas kveður Lóa svo vera: „Ég prófaði aðeins!“

 

Annars kveðst hún ekki hafa farið mikið þessar tvær vikur. „Mér fannst nú best að vera úti í sólinni. Hitinn var um og yfir þrjátíu stig og alltaf sólskin. En þetta var mjög gaman. Á afmælisdaginn var reyndar ekki gert neitt sérstakt nema hvað við fórum út að borða um kvöldið. Brúðkaupið var þremur dögum seinna. Það var nóg að gera við undirbúninginn.“

 

Meðal þeirra staða sem Lóa heimsótti þó var fiskasafn þar sem sjá mátti gríðarmikið af „alls konar kvikindum“.

 

Ein af myndunum sem hér fylgja þar sem mannskapurinn er með kúrekahatta var tekin fyrir utan kúrekabúð. „Þar var okkur tekið með kostum og kynjum rétt eins og við værum þjóðhöfðingjar og þegar við vorum búin að versla var okkur fylgt út á bílastæði.“

 

Sá sem þessar línur skrifar hugsar með sér, að kannski hafi búðarfólkið vitað að hér var á ferð gamalreyndur kúreki alla leið vestan úr Reykhólasveit, þó að kúrekarnir í Villta vestrinu hafi nú víst yfirleitt verið karlkyns.

 

Á annarri mynd má sjá, að brúðkaupslímósínan var hreint ekki af styttri gerðinni.

 

Las Vegas er iðulega nefnd höfuðborg afþreyingar í heiminum. Reyndar er sú nafngift líka notuð um Los Angeles (Englaborgina), ekki svo allfjarri Las Vegas úti við ströndina með Hollywood og allt það. Hins vegar er Las Vegas rómaðri fyrir tvennt: Brúðkaup og spilavíti.

 

Athugasemdir

Björk Stefánsdóttir, mivikudagur 12 desember kl: 15:10

Lóa alltaf jafn flott og vá mæðgurnar ekkert smá líkar

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31