Tenglar

18. febrúar 2015 |

Búðin á Reykhólum: Nýtt fólk úr Ytri-Njarðvík

Nýja Reykhólafólkið: Ása og Reynir Þór.
Nýja Reykhólafólkið: Ása og Reynir Þór.

Eins og greint var frá hér á vefnum núna í morgun er að rætast úr verslunarleysinu á Reykhólum. Þau Reynir Þór Róbertsson og Ása Fossdal, búsett í Ytri-Njarðvík (sem eftir sameiningu sveitarfélaga tilheyrir Reykjanesbæ eins og fleiri af gömlu sveitarfélögunum þar syðra), stefna að því að opna verslun á Reykhólum á nýjan leik um mánaðamótin mars-apríl. Reynir Þór og Ása eru vel kunnug rekstri verslana og bærilega reynd á þeim vettvangi.

 

„Ég hef verið verslunarstjóri í húsgagnaverslun hérna í Keflavík allt frá tvítugu, eða í tuttugu og tvö ár. Ása rak sína eigin snyrtivöruverslun og förðunarskóla í fimm ár og síðan aðstoðaði hún mig sem verslunarstjóri í níu ár,“ segir Reynir Þór.

 

Aðspurður hvort þau eigi einhver tengsl við héraðið hér vestra segir Reynir Þór svo ekki vera. „Nei, engin tengsl, við komum á Reykhóla í fyrsta skipti núna fyrir stuttu til að skoða málin. Okkur leist vel á þetta og okkur langar að prófa eitthvað nýtt.“

 

Börn þeirra eru fjögur, tvær dætur og tveir synir. Yngri strákurinn er fjórtán ára og sá eldri sextán ára, og síðan eiga þau tvær uppkomnar dætur. Synirnir koma ekki strax vestur en gætu komið í sumar. „Að minnsta kosti klára þeir skólann hérna heima,“ segir Reynir Þór.

 

Í ljósi sífelldra húsnæðisvandræða á Reykhólum er Reynir Þór spurður hvar þau ætli að búa. Hann segir að þau séu búin að fá húsnæði á leigu að Hólatröð 1, eystra parhúsinu í eigu Reykhólahrepps við götuna nýju rétt neðan við Reykhólaskóla.

 

Og þá er að spyrja: Hvernig leggst þetta í ykkur?

 

„Þetta leggst vel í okkur, við erum mjög spennt og hlökkum til að takast á við þetta nýja verkefni. Við viljum endilega sjá og heyra hvað fólkið vill hafa í búðinni á Reykhólum og munum reyna að verða við því,“ segir Reynir Þór Róbertsson.

 

Sjá einnig:

Verslun á Reykhólum í sjónmáli

 

Athugasemdir

Björk Stefánsdóttir, fimmtudagur 19 febrar kl: 11:33

Velkomin, við tökum glöð á móti ykkur :-)

Örvar, fimmtudagur 19 febrar kl: 13:40

Þið gætuð ekki fengið betra fólk. Þetta eru svo miklar eðal manneskjur. Til lukku Reykhólar.

Hallfríður Valdimarsdóttir, fimmtudagur 19 febrar kl: 14:22

Verið velkomin gaman að fá nýtt fólk í þorpið :-)

Jón Halldór 9 ára, fimmtudagur 19 febrar kl: 17:21

Hæ hæ, velkomin til Reykhóla. Mér þætti vænt um að það yrðu seld fótboltaspjöld í búðinni :)

Reynir og Ása, fimmtudagur 19 febrar kl: 17:40

Ósk þín er móttekin Jón Halldór við sjáum hvað við getum gert ;)

Áslaug B. Guttormsdóttir, fimmtudagur 19 febrar kl: 20:27

Verið velkomin til okkar í Reykhólahreppinn. Við gleðjumst mjög yfir að fá nýja aðila til að reka verslun fyrir okkur hér á Reykhólum. Sjáumst!

Jón Halldór 9 àra, laugardagur 21 febrar kl: 11:06

Kærar þakkir :)

Sigrún Kjartans, mivikudagur 25 febrar kl: 20:00

Yndislegt fólk sem þið fáið til ykkar Reykhólahreppur :) HEPPIN ÞIÐ ;) Þeirra verður saknað úr Reykjanesbæ en verður gaman að heimsækja ykkur í sumar :)

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Aprl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30