Búðinni á Reykhólum lokað um áramótin
Lokatilraunir að selja rekstur verslunarinnar Hólakaupa á Reykhólum hafa runnið út í sandinn og verður henni því lokað núna um áramótin. „Tveir aðilar sýndu þessu áhuga nú á haustmánuðum, en af mismunandi ástæðum var hætt við kaupin. Við sjáum okkur ekki fært að reka þetta áfram, því að „vinnukonan“ okkar er að fara að halda áfram í skóla og ég er á fullu að undirbúa nýja fyrirtækið. Ólafía getur ekki annast þetta ein þrátt fyrir góðan vilja,“ segir Eyvindur Magnússon kaupmaður.
„Okkur þykir miður að þurfa að loka, en álagið á fjölskylduna, sem fylgt hefur rekstri búðarinnar, er alveg nóg fyrir. Engir hér af nærsvæðinu sýndu þessu áhuga og það finnst mér umhugsunarefni. Kannski hafa menn bara nóg að gera, eða þá hitt, að fólk vill hafa sitt frí. Búðin hefur alltaf verið rekin með hagnaði í okkar umsjá og það verður vont fyrir samfélagið hér ef hún leggst af,“ segir hann.
Eyvindur segir að frá og með morgundeginum verði 20% afsláttur af öllum vörum búðarinnar, nema lottómiðum, símakortum, bensínkortum og tóbaki, ef keypt er fyrir 10.000 krónur eða meira í einu. Hann segir að ekki verði lengur „lánað á miða“ en að sjálfsögðu geti þeir sem eru í reikningi verslað þannig áfram.
Þau Ólafía Sigurvinsdóttir og Eyvindur Svanur Magnússon hafa rekið verslunina Hólakaup frá vorinu 2010.
Sjá einnig:
► Eyvi og Ólafía í Hólakaupum stofna rútufyrirtæki
► Nýir eigendur Hólakaupa á Reykhólum
Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, sunnudagur 30 nvember kl: 16:38
Það kemur alltaf maður í manns stað og ég hef enga trú á öðru en að verslun verði opnuð að nýju á Reykhólum.
Það er reyndar umhugsunarefni að þegar ég bjó á Reykhólum 2002-2006 var bæði opin verslun á Reykhólum og í Nesi.