2. október 2009 |
Búið að opna veginn um Arnkötludal (Tunguheiði)
Nýi vegurinn um Arnkötludal, sem Vegagerðin hefur ákveðið að nefna Tunguheiði, var opnaður fyrir umferð klukkan 16 í dag, eftir því sem fram kemur á vefnum bb.is á Ísafirði, en formleg vígsla fer fram síðar. Á vef Vegagerðarinnar var einnig núna í kvöld sett inn tilkynning þessa efnis. Þetta virðist hafa borið nokkuð brátt að, því að í gær þegar spurst var fyrir hjá Vegagerðinni, í tengslum við færðina á Þorskafjarðarheiði, hvenær nýi vegurinn yrði opnaður, fengust þau svör að það væri ekki vitað. Á stöðugt uppfærðu korti Vegagerðarinnar er vegurinn merktur með hálkublettum en greiðfær að öðru leyti.
Kort um færð og veður á Vestfjarðakjálkanum