Búist við batnandi hag næstu árin
„Gert er ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu hjá Reykhólahreppi og auknum hagnaði næstu fjögur ár“, segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun hreppsins fyrir árin 2014-2017 hefur þegar farið fram í sveitarstjórn og verður síðari umræða um hana 14. desember. Þar verður tekin ákvörðun um framkvæmdir sem skipta verulegu máli um útkomuna og mun þá endanleg niðurstaða liggja fyrir.
Áætlunin gerir ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu næstu árin eða 14,48% og óbreyttum fasteignaskatti. Þó ber að hafa fyrirvara á þessari prósentu, því að á Alþingi er í undirbúningi breyting á leyfilegu hámarksútsvari úr 14,48% í 14,52% vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra og kæmi þá til kasta Jöfnunarsjóðs.
Skatttekjur munu hækka lítillega og nokkur hækkun er á framlögum frá Jöfnunarsjóði milli áranna 2013 og 2014. Áætlunin gerir ráð fyrir hækkun launa um 5% á næsta ári en 4% árin þar á eftir, en veruleg óvissa ríkir um kjarasamninga næsta ár. Gjaldskrár sveitarfélagsins hækka sem nemur breytingu á vísitölu neysluverðs á milli ára.