Tenglar

19. desember 2013 | vefstjori@reykholar.is

Búllurnar í Harlem og næturklúbbarnir heima

Heinrich Konrad Rasmus - betur þekktur sem Henni Rasmus.
Heinrich Konrad Rasmus - betur þekktur sem Henni Rasmus.
1 af 5

Hendrik Konrad Rasmus (Henni Rasmus) var landsþekktur tónlistarmaður á sinni tíð, spilaði í hljómsveitum og samdi og útsetti lög. Hann átti fjögur af tíu efstu lögunum í fyrstu danslagakeppninni sem fram fór á Íslandi árið 1939. Tvö þeirra hafa lifað góðu lífi allt til þessa dags, lögin Viltu með mér vaka í nótt og Anna Maja. Flestum lagasmíðum sínum fleygði hann í pappírskörfuna en sumum tókst fjölskyldu hans að bjarga þaðan. Henni Rasmus átti djúpar rætur á Reykhólum og sama var um seinni konu hans, Hrefnu Þórarinsdóttur.

 

Nokkur af lögum Henna voru gefin út á nótnaheftum fyrir 1940 og önnur varðveittust í fórum Hrefnu konu hans, þar sem börn þeirra fundu lögin eftir að hún lést í fyrravor.

 

Núna í haust kom út hljómdiskur sem ber nafnið Viltu með mér vaka, þar sem hljómsveitin Músakk flytur ellefu af lögum Henna, flest þeirra lög sem aldrei hafa komið fyrir almenningseyru fyrr. Þó eru þar líka dægurlögin gömlu, smellirnir Viltu með mér vaka í nótt og Anna Maja, sem reyndust ekki vera neinar dægurflugur. Auk þess er á diskinum upptaka frá 1947 þar sem kvartett Guðmundar Norðdahl flytur lagið Running Wild þar sem Henni spilar á píanóið. Þetta er eina upptakan sem til er með honum sjálfum. Lögin tólf á diskinum eru af ólíku tagi, allt frá tangó upp í swing, þannig að hver ætti að finna eitthvað við sitt hæfi. Útgáfutónleikar voru haldnir í Salnum í Kópavogi í haust. Diskurinn fæst í flestum plötubúðum og líka beint frá býli, eins og kallað er.

 

Hljómsveitina Músakk skipa Anna Gréta Sigurðardóttir sem leikur á píanó, Birgir Steinn Theódórsson sem leikur á kontrabassa, Óskar Kjartansson sem leikur á trommur og Regína Lilja Magnúsdóttir söngkona. Þess má geta að Regína er mágkona Hrefnu Hugosdóttur, sonardóttur Henna Rasmus.

 

Lítið eitt um fjölskylduna

 

Hendrik Konrad Rasmus var upphaflega skírður Sigurður Gunnar Sigurðsson en nafni hans breytt við ættleiðingu að móður hans látinni. Hann var sonur Ólafíu Bjarnadóttur frá Reykhólum, dóttur Bjarna Þórðarsonar stórbónda hér á seinni hluta 19. aldar og Þóreyjar Pálsdóttur konu hans. Eiginmaður Ólafíu og faðir Henna hét Sigurður Þorsteinsson, ættaður frá Borgarfirði eystra.

 

Seinni kona Henna var Hrefna Þórarinsdóttir frá Reykhólum, dóttir hjónanna Þórarins G. Árnasonar og Steinunnar Hjálmarsdóttur. Seinni maður Steinunnar var Tómas Sigurgeirsson og bjuggu þau á Reykhólum til æviloka.

 

Börn Henna Rasmus eru fjögur. Elst er Margrét Heinreksdóttir lögfræðingur (fyrrum blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar fréttamaður á RÚV, útvarpi og sjónvarpi), sem hann átti með fyrri eiginkonu sinni, Ástríði Önnu Guðmundsdóttur. Börn hans og Hrefnu Þórarinsdóttur eru kennararnir Hugo, Tómas og Steinunn Rasmus, sem naumast þarf að kynna fyrir Reykhólabúum.

 

Uppvöxturinn, Þýskalandsdvölin og heimkoman

 

Henni fæddist 6. maí árið 1911 og hlaut nafnið Sigurður Gunnar Sigurðsson. Hann missti ungur móður sína, en móðursystir hans, Margrét Theodóra Bjarnadóttir skólastjóri, og maður hennar, Johan Chr. G. Rasmus, vefari og framkvæmdastjóri frá Neumünster í Þýskalandi, ættleiddu drenginn. Hann hlaut þá nafnið Heinrich (síðar breytt að dönskum hætti í Hendrik) Konrad Rasmus en var alla tíð kallaður Henni Rasmus og var þjóðkunnur undir því nafni. Heimili þeirra Margrétar og Johans Rasmus var mikið menningarheimili þar sem jafnframt var hugsað mikið um þá sem minni máttar voru og áttu erfitt uppdráttar í lífinu.

 

Á ungum aldri stundaði Henni píanónám hjá frú Önnu Pjeturss (sem kölluð er fyrsti íslenski kvenpíanistinn) og lék opinberlega á hennar vegum þrettán ára gamall. Tvítugur að aldri fór hann til Þýskalands, heimalands kjörföður síns, til náms í því sem núna mundi væntanlega kallast raftæknifræði. Þar dvaldist hann í fjögur ár og þar kynntist hann djassinum, sem fangaði svo hug hans, að hann hætti námi og fór að spila með djasshljómsveitum í Berlín.

 

Eftir heimkomuna frá Þýskalandi byrjaði Henni strax að spila djass og danstónlist. Þegar árið 1935 stofnaði hann ásamt nokkrum vinum sínum djassbandið The Blue Boys sem lék m.a. í Iðnó, Ingólfscafé og KR-húsinu, á Röðli við Laugaveg og á sumrin á landsbyggðinni, m.a. á Hótel Akureyri og Hótel Hvanneyri á Siglufirði. The Blue Boys störfuðu til 1938 og virðast hafa verið býsna vinsælir. Það má m.a. sjá af umsögnum í dagblöðunum í Reykjavík, þar sem þeir voru mikið auglýstir. Á þessum tveimur árum má sjá þar hátt á fjórða hundrað auglýsinga um leik þeirra.

 

Íslenska þjóðmenningin orðin spillt

 

Bókin Letters from Iceland eftir bresku ljóðskáldin W.H. Auden og Louis MacNeice, sem báðir urðu síðar heimsfrægir, kom fyrst út árið 1937. Þeir ferðuðust um landið sumarið áður og segja frá þeirri reisu og koma víða við. Meðal annars kemur hljómsveitin The Blue Boys Band við sögu, þar sem djassmúsík hennar er tekin sem dæmi um slæm áhrif frá umheiminum á hina „hreinu“ íslensku þjóðmenningu. Í frásögn sinni af heimsókn þeirra félaga til Akureyrar segir Auden m.a.:

  • Bládrengjasveitin (The Blue Boys Band) var hávær og spilaði alveg látlaust - gerði ekki svo mikið sem sekúndu hlé á leik sínum. Svitinn bogaði af andlitum þeirra.

Margrét dóttir Henna segir að þetta sé að nokkru leyti staðfesting á því sem móðuramma hennar sagði um vinnuálagið á þessum ungu mönnum. Þeir hafi byrjað að vinna klukkan sjö á kvöldin með því að spila dinnermúsik fram til klukkan ellefu en þá tók dansinn við fram undir morgun. Hluti launanna hafi verið úttekt á áfengi sem hélt þeim gangandi.

 

Djassbúllurnar í Harlem og fjölbreyttur ferill

 

Í síldinni á Siglufirði fyrir 1940 spilaði Henni í tvö sumur en hélt sig annars að mestu við Suðurland. Árin 1941-1942 starfaði hann í Hafnarfirði, þar sem hann stofnaði kabarett ásamt öðrum tónlistarmönnum. Jafnframt fór hann út í húsamálun ásamt öðrum þjóðkunnum hljómlistarmanni, Jónatan Ólafssyni (bróður Sigurðar Ólafssonar söngvara).

 

Á stríðsárunum var hann líka í siglingum og fór þá margar ferðir með skipum Eimskipafélagsins í skipalestum til Bandaríkjanna þegar kafbátahernaður Þjóðverja stóð sem hæst á Norður-Atlantshafi. Þá komst hann á djassbúllur í Harlem og sagði svo frá, að á sumum þeirra hefði hann verið eini hvíti maðurinn. Hann dáði alltaf þeldökka djassleikara og einkum varð honum tíðrætt um Oskar Peterson og Duke Ellington, sem honum fannst mest til koma.

 

Eftir stríðið lék Henni á Hótel Borg með hljómsveit Þóris Jónssonar. Jafnframt því annaðist hann undirleik við Ballettskóla Sigríðar Ármann í mörg ár.

 

Ein upptaka er til með píanóleik Henna frá 1947 á plötu sem Tage Ammendrup gaf út. Þar spilar hann með hljómsveit Guðmundar Norðdahl. Þessi upptaka er á nýja diskinum eins og áður sagði.

 

Að sögn Guðmundar Norðdahl spiluðu þeir mikið saman á þessum árum, m.a. á Hótel Borg, í Oddfellowhúsinu og Iðnó, Aðalstræti12 og Listamannaskálanum, á Keflavíkurflugvelli og víða á Suðurlandi og á ýmsum næturklúbbum, sem voru tískufyrirbrigði á þessum árum.

 

Á árunum 1952 til1958 bjuggu bæði Guðmundur Norðdahl og Henni í Keflavík og spiluðu þá ásamt fleirum á skemmtistaðnum Ungó, sem Guðmundur rak um tíma, og á Keflavíkurflugvelli. Eftir 1958 hætti Henni Rasmus nánast að spila og vann eftir það skrifstofustörf hjá bandaríska hernum.

 

Meira af nafnaskiptum

 

Í Helgarpóstinum haustið 1982 er ítarlegt viðtal við Margréti dóttur Henna, þar sem meðal annars er fjallað um það þegar hún skipti um nafn. Eins og áður kom fram hlaut faðir hennar fyrst nafnið Sigurður Gunnar Sigurðsson en síðar nafnið Heinrich Konrad Rasmus. Margrét bar nafnið Margrét J. (Jóhanna) Rasmus til ársins 1957 en tók þá upp nafnið Margrét R. (Rasmus) Bjarnason. Þetta nafn bar hún þegar undirritaður kynntist henni sem vinnufélaga á Morgunblaðinu á seinni hluta sjöunda áratugar liðinnar aldar.

 

Í inngangi að viðtalinu í Helgarpóstinum segir:

  • Í útlöndum kippir sér enginn upp við það þótt kona skipti um nafn. En á Íslandi er það fáheyrður atburður. Því hafa margir íslenskir sjónvarpsáhorfendur, ekki síst þeir sem fylgjast vel með erlendum fréttum, sjálfsagt brotið heilann yfir því, hvers vegna Margrét R. Bjarnason, sem kom til liðs við þá Ögmund Jónasson og Boga Ágústsson í erlendum fréttum sjónvarpsins í sumar, er skyndilega nefnd Margrét Heinreksdóttir.

 

Fram kemur í viðtalinu að Margrét var jafnan skráð Rasmus þar til að hún gifti sig árið 1957.

  • Þá tók ég upp eftirnafn mannsins míns. Ég hafði þá þegar skrifað mig Bjarnason, þegar við vorum saman á ferðalagi, nýtrúlofuð, og gerði ráð fyrir að þurfa að gera það aftur þegar hann færi í framhaldsnám, sem vænst var. Auk þess tíðkaðist þetta þá enn, ef konan hafði ættarnafn, meðal annars í fjölskyldu hans; móðir hans hafði borið eftirnöfn tveggja eiginmanna, auk eftirnafns föður síns.
  • Mér var síst eftirsjá að Rasmusnafninu, fannst það ankannalegt að sitja uppi með þýskt ættarnafn manns, sem ég hafði aldrei þekkt og var mér alls óskyldur. Í þá tíð voru kvenréttinda- eða jafnréttishugmyndir mér fjarri. Mér fannst sjálfsagt að bera nafn eiginmannsins og yfirleitt að lifa lífinu fyrir hann fyrst og fremst. Það breyttist svo að sjálfsögðu með aukinni reynslu og þekkingu á stöðu konunnar í hjúskap og í atvinnulífinu, og mér fannst óhugsandi að halda áfram að bera nafn hans eftir að við vorum skilin að lögum nú í haust, enda þótt margir hvettu mig til þess.
  • Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að kenna mig frekar við föður minn en móður, ekki vegna þess að ég vildi gera þannig upp á milli þeirra, heldur hugsaði ég aðeins um að taka upp eftirnafn, sem færi þokkalega með fornafninu - og þar sem ég vildi fá íslenskt nafn valdi ég þessa gömlu mynd. Heinrekur er gamla norræna útgáfan af nafninu Henry eða Heinrich, er til dæmis í Heimskringlu, Sturlungu og Riddarasögum notað sem þýðing á öllum útgáfum nafnsins, allt frá Englandi suður til Miklagarðs.

 

Vel gefinn og skemmtilegur heimsborgari og snyrtimenni hið mesta

 

Henni Rasmus andaðist 4. ágúst 1991, áttræður að aldri. Kristín Ingibjörg Tómasdóttir mágkona hans segir meðal annars í minningargrein:

  • Henni var gleðimaður mikill, heimsborgarabragur var á honum, vel gefinn, skemmtilegur og snyrtimenni hið mesta, ósvikinn framsóknarmaður og fylgdist vel bæði með þjóðmálum og heimsmálum. Það skiptust á skin og skúrir í lífi Henna, hann var ákaflega gestrisinn maður og rausnarlegur og sást þá ekki alltaf fyrir í gerðum sínum, hestamaður góður á yngri árum. Fljótur að taka ákvarðanir og framkvæma þær, hverjar sem afleiðingarnar urðu. Árið 1949 vann Henni við húsamálun á Reykhólum, þar kynntist hann systur minni, Sigurlaugu Hrefnu Þórarinsdóttur. Þau gengu í hjónaband 12. september 1950.

 

Hrefna Þórarinsdóttir frá Reykhólum reyndist manni sínum ómetanleg stoð og stytta og var mikils metin af fjölskyldu sinni. Í samtali undirritaðs við Margréti, dóttur Henna af fyrra hjónabandi, kom fram sterk hlýja í hennar garð, þeim varð vel til vina. Margrét hafði ekki mikið haft af föður sínum að segja eftir skilnað foreldra hennar en þeim Hrefnu varð strax vel til vina og þar með mynduðust sterk tengsl milli fjölskyldna þeirra.

 

Hér fylgja að lokum ljóðin við tvö af lögunum á nýja diskinum, dægurlögum Henna Rasmus sem reyndust ekki vera neinar dægurflugur heldur lifa góðu lífi enn í dag.

 

 

Viltu með mér vaka í nótt

(Valborg Bentsdóttir)

 

Viltu með mér vaka í nótt

vaka meðan húmið rótt

leggst um lönd og sæ

og lifnar fjör í bæ

viltu með mér vaka í nótt

vina mín kær

vonglaða mær

einni ann ég þér

ást þína veittu mér

aðeins þessa einu nótt.

 

 

Anna Maja

(Tómas Guðmundsson)

 

Anna Maja, Anna Maja.

Allir syngja og dansa og dansa í kringum þig.

Anna Maja, Anna Maja.

Ætlarðu ekki líka að koma og elska mig?

Anna Maja, Anna Maja.

Ég skal alltaf bíða og bíða eftir þér.

Unnir þú mér, unni ég þér.

Einan átt þú mig,

eina á ég þig

mín yndislega Anna Maja.

Anna Maja.

 

 

- Samantekt eftir ýmsum heimildum: Hlynur Þór Magnússon.

 

Athugasemdir

Hrefna Hugosdóttir, fimmtudagur 19 desember kl: 17:20

Elsku Hlynur minn

Takk fyrir fagmannlega og fallega uppsetta samantekt á honum afa mínum og ömmu.
Ég var svo heppin að fá að vera vinkona hans í nokkur ár en hann var einn sá skemmtilegasti í bransanum. Heilsulítill og lúinn stóð hann á haus fyrir barnabörnin sín. Ég náði líka að hlusta á hann spila á píanóið þar var hann á heimavelli.
Ég eins og önnur börn upplifði mótlæti t.d ef kennari skammaði mann að ástæðulausu, eða of strangir foreldar gerða manni lífið leitt heima fyrir þá var einn sem stóð með manni. Getið hver, auðvitað afi.
Það sem hann pabbi minn er búin að gera með því að grafa upp lögin hans, setja saman hljómsveit, halda tónleika og gefa út disk er óborganlegt fyrir aðstandendur. Það er svo gaman að dusta rikið af minningum sem kveikja á góðum tilfinningum.

Ef einhver las þetta minni ég alla á sem eru ömmur eða afar að taka hann til fyrirmyndar. Ég er svo heppin að hafa átt ömmu og afa sem gáfu mér frábæra mynd af því hvernig maður er góður afi og amma.

Björk Stefánsdóttir, fimmtudagur 19 desember kl: 17:54

Tek undir þetta með Hrefnu, frábær grein hjá þér Hlynur. Ég er einmitt svo glöð að hafa fengið að kynnast afa okkar, frábær maður og vildi allt fyrir okkur börnin gera. Þetta frábæra framtak hjá frænda mínu Hugó er alveg yndislegt, að halda uppi minningu Henna afa og Ebbu ömmu.
Takk enn og atur Hlynur fyrir flott skrif.

Grétar Snær Hjartarson, laugardagur 21 desember kl: 16:15

Þakka mjög góða samantekt um Henna Rasmus sem ég hef alltaf borið mikla virðingu sem tónlistarmanni og tónskáldi. Henna kynntist ég nokkuð vel enda var hann giftur Hrefnu frænku minni. Hrefna sagði mér að Henni hefði kastað fyrir róða þó nokkru af lögum sínum þar sem honum líkaði ekki textarnir sem samdir höfðu verið við þau. Lítil leiðrétting í lokin. Kristín Ingibjörg mágkona Hrefnu, sem á sínum tíma skrifaði minningargrein um Henna, var Þórarinsdóttir heldur var hún dóttir Tómasar Sigurgeirssonar, seinna manns Steinunnar föursystur minnar. Og annað í blá lokin. Hvar er hægt að kaupa þennan hljómdisk sem minnst er á?

Hlynur Þór Magnússon, sunnudagur 22 desember kl: 00:06

Búinn að leiðrétta þennan asnaskap hjá mér, Grétar Snær, auðvitað vissi ég betur! Ég kalla svona lagað skriflegt mismæli. - Diskurinn fæst m.a. „beint frá býli“ - hjá Hugo Rasmus.

Einar Rafn Guðbrandsson, mnudagur 13 janar kl: 18:21

Hvað með lagið góða Kenndu mér að kyssa rétt? Er það ekki eftir Henna?

Hugo Rasmus, rijudagur 14 janar kl: 16:26

Sæll Einar Rafn Guðbrandsson.
Kenndu mér að kyssa rétt er ekki eftir Henna.
En á nýja diskinum er lagið Að elska að kyssa eftir Henna og texti eftir Tómas Guðmundsson. Þetta lag hefur ekki verið flutt áður.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30