Tenglar

7. ágúst 2011 |

Búnaðarblaðið Freyja hefur göngu sína

Fyrsta tölublað Búnaðarblaðsins Freyju er komið út. Blaðið er fyrst og fremst veftímarit (www.sjarminn.is) þar sem lesendur geta nálgast það án endurgjalds. Jafnframt er því dreift með tölvupósti til skráðra viðtakenda. Prentað eintak stendur einnig til boða gegn greiðslu fyrir prentun og dreifingu. Nafn sitt hlaut blaðið til heiðurs Búnaðarritinu Frey sem kom út í rúm 100 ár og þar til fyrir nokkrum árum. Að útgáfunni standa Axel Kárason, Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir, sem öll hafa numið landbúnaðarfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Jafnframt sjá þau um ritstjórn blaðsins.

 

Að baki ritstjórn er ritnefnd sem í sitja Gunnar Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Bændasamtökunum, Bjarni Guðmundsson, Landbúnaðarsafni Íslands, Emma Eyþórsdóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands, Magnús B. Jónsson, nautgriparæktarráðunautur hjá Bændasamtökunum, og Eiríkur Loftsson, ráðunautur hjá Leiðbeiningamiðstöðinni í Skagafirði.

 

Í Freyju verður miðlað hagnýtu fræðsluefni tengdu landbúnaði. Ætlunin er að Freyja komi út fjórum sinnum á ári og verður efni hvers blaðs nokkuð tengt árstíðum hverju sinni. Ýmsir fastaliðir verða í blaðinu þar sem sögunni verða gerð skil, sem og að skyggnst verður út fyrir landsteinana. Meginuppistaða hvers blaðs verður þó ætíð fræðsluefni þar sem fræðimönnum og ráðgjöfum á sviði landbúnaðar gefst kostur á að miðla fróðleik til lesenda.

 

„Í þessu fyrsta tölublaði Freyju kennir ýmissa grasa. Loðdýr, nautgripir og sauðfé eru þær skepnur sem fá hvað mest plássið í þetta skipti, auk þess sem gefin eru góð ráð við garðrækt og farið yfir mikilvægi þess að varðveita þekkingu. Sérstaka athygli viljum við vekja á fyrstu pistlunum frá Daða Má Kristóferssyni og Ingvari Björnssyni og hvetja lesendur til að grípa boltann sem þar er kastað á loft og blanda sér inn í þessa þörfu umræðu á uppbyggilegan hátt“, segir í tilkynningu frá ritstjórn.

 

„Að því sögðu er rétt að hvetja lesendur einnig til þess að koma áliti sínu á Freyju á framfæri við ritstjórn og nefna hvað sé vel gert og hvað mætti betur fara. Meistari Megas sagði eitt sinn að lög hans væru öll saman lifandi og gætu breyst í tímans rás. Hið sama á við um Freyju og því munum við vinna af sama dugnaði við þróun og breytingar Freyju (vonandi til hins betra) og hefur einkennt upphaf þessarar útgáfu“, segir þar einnig.

 

Þeir sem vilja prentað eintak geta skráð sig með því að hafa samband við Axel (860 2935), Eyjólf (862 0384) eða Gunnfríði (898 4897).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30