Tenglar

4. maí 2011 |

Búnaðarfélögunum í BSV fækkaði úr tólf í átta

Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna og fundarstjórinn Karl Kristjánsson á Kambi í Reykhólasveit. Mynd frá Árna á Vöðlum.
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna og fundarstjórinn Karl Kristjánsson á Kambi í Reykhólasveit. Mynd frá Árna á Vöðlum.
Búnaðarsamband Vestfjarða (BSV) hélt aðalfund sinn í Reykhólaskóla í nýliðnum mánuði. Fundurinn var ágætlega sóttur af fulltrúum níu búnaðarfélaga af tólf sem hafa myndað sambandið til margra ára. Starfssvæði BSV er frá Gilsfjarðarbotni í suðri, vestur um og inn í botn Ísafjarðar í Inn-Djúpi. Í sambandinu eru 208 félagar frá 100 búum. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, kom á fundinn og flutti erindi m.a. um afstöðu gegn inngöngu Íslands í ESB, frumvarp að jarðalögum, sameiningu ráðuneyta og fleira.
 
Einnig ávarpaði fundinn fulltrúi ungra bænda, Jóhanna María Sigmundsdóttir frá Látrum í Djúpi, en hún er nú á Hríshóli í Eyjafirði í starfsnámi frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri.

 

Þriðji gestur fundarins var Sigríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Búnaðarsamtaka Vesturlands, sem BSV hefur verið í samstarfi við undanfarin ár um leiðbeiningaþjónustu (ráðunautaþjónustu). Fulltrúar sem kosnir voru í Fjallskilanefnd 2010 skiluðu fundinum áfangaskýrslu um samræmingu á fjallskilareglum sveitarfélaga á Vestfjörðum.

 

Fundurinn var málefnalegur og vinnusamur, að sögn Árna Brynjólfssonar formanns á Vöðlum í Önundarfirði. Meðal annars var ályktað um dýralæknamál, andstöðu við flutning hreindýra inn á svæðið, óöruggt rafmagn og ófremdarástand við eyðingu á ref og mink.

 

Þá voru staðfestar samþykktir tveggja nýrra búnaðarfélaga sem stofnuð hafa verið við sameiningu eldri félaga. Þau eru Búnaðarfélagið Vörður í Súðavíkurhreppi og Búnaðarfélagið Bjarmi í Ísafjarðarbæ. Þar með hefur búnaðarfélögunum fækkað úr tólf í átta. Í framhaldi af því voru samþykktar breytingar á lögum sambandsins er lúta m.a. að því að halda svipuðum fjölda fulltrúa á aðalfundum BSV eftir sameiningarnar.

 

Sú nýbreytni heppnaðist að halda fundinn þetta snemma árs. Hann hefur verið haldinn um og eftir miðjan júní í áratugi og jafnvel meira en öld, en sambandið var stofnað árið 1907. Segir það mikið um samgöngur milli svæða.

 

Í stjórn BSV eru Árni Brynjólfsson á Vöðlum, formaður, Halldóra Ragnarsdóttir á Brjánslæk, ritari, og Sigmundur H. Sigmundsson á Látrum, gjaldkeri. Búnaðarþingsfulltrúar BSV eru Gústaf Jökull Ólafsson á Miðjanesi, Nanna Jónsdóttir í Rauðsdal og Árni Brynjólfsson á Vöðlum. Árni á einnig sæti í stjórn Bændasamtaka Íslands.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30