Búnaðarfélögunum í BSV fækkaði úr tólf í átta
Einnig ávarpaði fundinn fulltrúi ungra bænda, Jóhanna María Sigmundsdóttir frá Látrum í Djúpi, en hún er nú á Hríshóli í Eyjafirði í starfsnámi frá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri.
Þriðji gestur fundarins var Sigríður Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Búnaðarsamtaka Vesturlands, sem BSV hefur verið í samstarfi við undanfarin ár um leiðbeiningaþjónustu (ráðunautaþjónustu). Fulltrúar sem kosnir voru í Fjallskilanefnd 2010 skiluðu fundinum áfangaskýrslu um samræmingu á fjallskilareglum sveitarfélaga á Vestfjörðum.
Fundurinn var málefnalegur og vinnusamur, að sögn Árna Brynjólfssonar formanns á Vöðlum í Önundarfirði. Meðal annars var ályktað um dýralæknamál, andstöðu við flutning hreindýra inn á svæðið, óöruggt rafmagn og ófremdarástand við eyðingu á ref og mink.
Þá voru staðfestar samþykktir tveggja nýrra búnaðarfélaga sem stofnuð hafa verið við sameiningu eldri félaga. Þau eru Búnaðarfélagið Vörður í Súðavíkurhreppi og Búnaðarfélagið Bjarmi í Ísafjarðarbæ. Þar með hefur búnaðarfélögunum fækkað úr tólf í átta. Í framhaldi af því voru samþykktar breytingar á lögum sambandsins er lúta m.a. að því að halda svipuðum fjölda fulltrúa á aðalfundum BSV eftir sameiningarnar.
Sú nýbreytni heppnaðist að halda fundinn þetta snemma árs. Hann hefur verið haldinn um og eftir miðjan júní í áratugi og jafnvel meira en öld, en sambandið var stofnað árið 1907. Segir það mikið um samgöngur milli svæða.
Í stjórn BSV eru Árni Brynjólfsson á Vöðlum, formaður, Halldóra Ragnarsdóttir á Brjánslæk, ritari, og Sigmundur H. Sigmundsson á Látrum, gjaldkeri. Búnaðarþingsfulltrúar BSV eru Gústaf Jökull Ólafsson á Miðjanesi, Nanna Jónsdóttir í Rauðsdal og Árni Brynjólfsson á Vöðlum. Árni á einnig sæti í stjórn Bændasamtaka Íslands.