Búvörusamningar komnir á lokastig
„Ég met stöðuna þannig eftir þennan fund að okkur sé óhætt að halda áfram og klára málið,“ segir Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda. Hann og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, kynntu stöðuna í samningaviðræðum um nýjan búvörusamning á fundi Félags kúabænda á Suðurlandi á Hellu í fyrradag. Sigurður tekur fram að gagnrýni hafi komið fram á samningsdrögin en aðallega þó verið spurt. Bændur hafi verið komnir til að leita sér upplýsinga.
Þetta kemur fram í frétt Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag. Þar segir einnig m.a.:
Samningsgerð er langt komin, en þó ekki að fullu lokið, samkvæmt yfirliti formanns Bændasamtakanna. Gerður verður rammasamningur fyrir landbúnaðinn í heild, sem kemur í stað núverandi búnaðarlagasamnings. Þá verða gerðir undirsamningar um starfsskilyrði nautgriparæktar, sauðfjárræktar og garðyrkju, eins og verið hefur. „Við þurfum að fara að ljúka þessu þannig að við höfum endanlega mynd til að kynna,“ segir Sigurður.
Mikil umræða hefur verið síðustu tvo mánuði um efni samninganna. Meginefni þeirra er óbreytt, það er að segja að stuðningi verði breytt úr greiðslumarki í greiðslur út á framleiðslu og að kvótakerfi í mjólk verði lagt niður um miðjan samningstímann sem er til tíu ára og eitt verð greitt fyrir alla mjólk.
Sigurður segir þó að bætt hafi verið við varnöglum til að hægt verði að bregðast við ef framleiðslan fer úr böndum eða markaðir bregðast. Hægt verður að endurskoða samninginn tvisvar ef hann nær ekki markmiðum sínum. Efnt verður til nýs verkefnis um framleiðslujafnvægi í mjólk. Sigurður segir að hægt verði að beita stuðningskerfinu til að draga úr framleiðsluhvötum, ef þurfa þykir, til dæmis til að fækka kúm. Samið verður um rauð strik í nautgripa- og sauðfjárrækt til að hægt verði að grípa til aðgerða ef þróunin verður neikvæð. Ef mjólkurverð lækkar um 15% eða meira fram að fyrri endurskoðun verður ákvörðun um afnám kvótakerfisins endurskoðuð.
„Ég hef fulla trú á því að hægt sé að koma í veg fyrir offramleiðslu mjólkur,“ segir Sigurður. Hann segir að breytingarnar sem gerðar hafi verið frá fyrri drögum séu til þess að auka fólki öryggi á meðan þessar miklu breytingar ganga yfir.
Stefnt er að undirritun búvörusamninga í næstu viku, en ekki er öruggt að það takist. Sauðfjár- og nautgriparæktarsamningarnir fara síðan í almenna atkvæðagreiðslu meðal bænda. Rammasamningurinn verður væntanlega lagður fyrir búnaðarþing til umfjöllunar og afgreiðslu.