Tenglar

4. júlí 2015 |

Byggðarhátíðin Reykhóladagar 2015 á næstu grösum

Frá Reykhóladögum fyrir tveimur árum.
Frá Reykhóladögum fyrir tveimur árum.

Dagskrá Reykhóladaga 2015 er alveg að skríða saman. Hátíðin verður eins og áður síðustu helgina í júlí og stendur í fjóra daga, 23.-26. júlí, eða frá fimmtudegi og fram á sunnudag. Heildarmyndin er svipuð frá ári til árs þó að alltaf séu einhverjar breytingar og eitthvað nýtt bætist við. Hér skal drepið á margt af því helsta sem í boði verður á hátíðinni.

 

Fyrsta daginn, fimmtudaginn 23. júlí, verður krakkabíó eftir hádegi en kl. 18 byrjar harmonikuball í íþróttahúsinu. Pöbbkviss verður á Báta- og hlunnindasýningunni kl. 21 en klukkutíma síðar byrjar hljómsveitin gamalkunna Spaðar að spila á sama stað (voru líka á Reykhóladögum í fyrra).

 

Á föstudagsmorgun verða hestar teymdir undir börnum og í hádeginu verður boðið heim í súpu (hér með er óskað eftir fólki og fyrirtækjum sem vilja bjóða í súpu). Þá tekur vatnabolti við, síðan hverfakeppi þar sem allir geta verið með og þar á eftir verður spurningakeppnin sígilda ásamt pítsuhlaðborði. Um kvöldið verður brenna í Bjarkalundi ásamt sprelli af einhverju tagi.

 

Reykhóladagahlaupið verður á laugardagsmorgun. Vegalengdir verða fjórar, 15 km, 8 km og 5 km, og jafnframt 2,5 km skemmtiskokk með börnunum. Að hlaupinu loknu verður aftur boðið í súpu. Eftir hádegi verður hópreið dráttarvéla og landbúnaðarsprell og jafnframt kaffihlaðborð á Báta- og hlunnindasýningunni. Síðdegis verður þriggja tíma karnival í Hvanngarðabrekku með alls konar viðburðum (ábendingar og tillögur vel þegnar). Um kvöldmatarleytið verður grillað þar í brekkunni (með sjálfsögðum fyrirvara um veður). Jóhannes Kristjánsson eftirherma frá Ingjaldssandi skemmtir gestum undir borðhaldinu. Barnaball með hljómsveitinni Sóldögg hefst kl. 21 en síðan byrjar stórdansleikur með sömu hljómsveit kl. 23 og stendur langt fram á nótt.

 

Fyrir hádegi á sunnudag verður léttmessa hjá sr. Elínu Hrund Kristjánsdóttur. Eftir hádegi verður kræklingaveisla, vöffluhlaðborð og undarlegir leikir. Væntanlega verður kassabílarallið á þessum tíma (hjálmar eru skylda).

 

Vegna rallsins verður bílasmiðja á Báta- og hlunnindasýningunni sunnudaginn 12. júlí og mánudaginn 20. júlí. Þar koma þeir krakkar sem vilja með forsvarsmönnum sínum til að smíða kassabíla.

 

Þar eð ekki er enn alveg búið að negla dagskrána niður er hugsanlegt að eitthvað hnikist til frá því sem hér hefur verið sagt.

 

Umsjónarmaður Reykhóladaga 2015 er Jóhanna Ösp Einarsdóttir tómstundafulltrúi í Kaplaskjóli í Fremri-Gufudal og henni til aðstoðar Harpa Eiríksdóttir framkvæmdastjóri Báta- og hlunnindasýningarinnar. Hafið samband við aðra hvora þeirra varðandi súpuboð og ábendingar vegna karnivalsins og hvað eina annað sem ykkur dettur skemmtilegt í hug til að hátíðin verði sem fjölbreyttust og best.

 

Fjölda mynda frá Reykhóladögum 2014 má sjá hér og hér og hér og hér og hér (Ljósmyndir í valmyndinni vinstra megin á síðunni).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31