Tenglar

4. desember 2012 |

Bygging saltvinnslu á Reykhólum hafin

Garðar Stefánsson og Søren Rosenkilde. Reykhólar í baksýn.
Garðar Stefánsson og Søren Rosenkilde. Reykhólar í baksýn.
1 af 5

Vinna við grunn saltvinnsluhúss við Reykhólahöfn hófst í morgun. Forkólfar hinnar væntanlegu saltvinnslu, þeir Garðar Stefánsson og Daninn Søren Rosenkilde, voru sjálfir við járnabindingar fyrir sökklana en smiðir og fleiri voru í öðrum verkum. Heitt vatn verður notað til að eima saltið úr sjó á opnum stálpönnum eins og víðar er gert. „Hönnunin hjá okkur er hins vegar alveg ný,“ segja þeir. „Markmið okkar er skýrt: Að búa til besta salt í heimi. Okkur langar til að byggja upp fyrirtæki sem allir geti verið stoltir af hér á Reykhólum.“

 

Það var núna í október sem þeir byrjuðu af fullum krafti að undirbúa þetta verkefni hér vestra. „Þetta hefur gengið ótrúlega fljótt,“ segir Garðar.

 

Stefnt er að því að húsið verði tilbúið og saltvinnslan hefjist sem allra fyrst á nýja árinu og ekki síðar en í vor, þó að tíðarfar ráði þar auðvitað einhverju. Þeir félagar segja að markaðsmálin séu í fullum gangi og stefnt sé bæði á innanlandsmarkað og erlenda markaði.

 

Framleiðslan verður öll á Reykhólum, allt frá saltvinnslunni sjálfri til pakkaðrar vöru. „Við ætlum að byrja að ráða tvo starfsmenn og fjölga þeim síðan upp í fjóra, reiknum alla vega með tveimur til fjórum. Ef mjög vel gengur yrði þeim síðan fjölgað frekar. Við viljum nýta mannauðinn hérna sem allra mest.“

 

Húsið við Reykhólahöfn verður 540 fermetrar með límtrésramma og timburveggjum á steyptum grunni. Søren segir að það sé hannað sérstaklega með það í huga að gestir geti fylgst með hvernig saltvinnslan fer fram og verða stórir gluggar í þeim tilgangi. „Gestir og gangandi eiga þannig að geta séð það stórmerkilega ferli sem á sér stað.“

 

Vinnuheiti félagsins sem að þessari framkvæmd stendur er SG 2012 ehf. Vinnslan hefur hins vegar ekki enn hlotið framtíðarnafn eða vörumerki.

 

Garðar var einn af frumkvöðlum og stofnendum saltvinnslu í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp (Saltverk Reykjaness) fyrir nokkrum misserum. Þó að hann eigi enn hlut í því fyrirtæki er hann hættur afskiptum af því. „Okkur greindi á um leiðir,“ segir hann.

 

„Þetta á rætur að rekja til meistararitgerðar minnar við Árósaháskóla um sjávarsaltvinnslu á Íslandi með nýtingu jarðhita,“ segir Garðar. „Við Søren kynntumst þegar við vorum saman við nám í Árósum og vorum oft að skiptast á hugmyndum. Allt frá því að hann kynntist þessu verkefni mínu í skólanum hefur hann verið mjög spenntur fyrir því og vildi endilega taka þátt í þessu með mér.“

 

Nýting jarðhita í þessum tilgangi er að sögn þeirra Garðars og Sørens einskorðuð við Ísland enda mun annars staðar óvíða að finna heitt vatn úr jörðu rétt við sjó. Reyndar eru um 240 ár síðan byrjað var að eima salt úr sjó við jarðhita hérlendis.

 

Með skipun Landsnefndarinnar fyrri svokölluðu sem starfaði 1770-71 hófu dönsk stjórnvöld átak til eflingar íslenskum þjóðarhag. Meðal hugmynda sem þá komu fram voru tillögur um saltverk, eins og það var kallað, bæði í Reykjanesi við Djúp og á Reykhólum, og nýtingu jarðhitans í þeim tilgangi. Af þessu varð að vísu ekki á Reykhólum en saltvinnsla hófst fljótlega í Reykjanesi með tilstyrk Dana og stóð í tvo áratugi eða þar um bil.

 

Kostirnir sem menn sáu á þeim tíma í þessum efnum við bæði Reykjanes og Reykhóla var gnægð af heitu vatni rétt við sjó. Jarðhitinn er að vísu miklu meiri á Reykhólum en í Reykjanesi og hvergi eins ríkulegur annars staðar á Vestfjarðakjálkanum.

 

„Það skemmtilega er, að hér er núna um dansk-íslenskt samstarf að ræða rétt eins og áformuð saltvinnsla á Reykhólum forðum,“ segir Garðar. „Markmið okkar var og er að koma þessum 240 ára gamla dansk-íslenska draumi um saltvinnslu á Reykhólum í framkvæmd.“

 

Hús saltvinnslunnar rís á leigulóð í eigu Reykhólahrepps, sem hlotið hefur nafnið Hafnarslóð. Þetta er lóðin þar sem áformað var að reisa bækistöð Bátasafns Breiðafjarðar, en efniviðurinn sem kominn var á staðinn var í síðustu viku fluttur út á Miðjanes eins og hér var greint frá.

 

Á myndunum eru þeir Garðar og Søren á vinnusvæðinu í morgungrámanum, auk þess sem glöggt má sjá afstöðu lóðarinnar til Reykhólahafnar og Þörungaverksmiðjunnar.

 

Athugasemdir

Einar Örn Thorlacius fyrrv.sveitarstjóri Reykhólahrepps, mivikudagur 05 desember kl: 08:20

Þetta hljómar nú spennandi! Og gaman að fá samanburðinn við Reykjanes við Djúp. Ísfirðingar og aðrir þar norður frá eru svo uppteknir af þessu Reykjanesi sínu. Reykjanesið við Breiðafjörð (sem Reykhólar standa á) er hins vegar 100 sinnum stærra og með miklu meiri jarðhita.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Jl 2024 »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31