Dægurlagið hraðfleyga sem fæddist á Reykhólum
Um jólin 1951 var haldin barnaskemmtun á Reykhólum og Sigfús Halldórsson var fenginn til að leika jólasvein. „Þá varð ég heldur betur var við að Litla flugan var auðlærð,“ sagði Sigfús í viðtali í Vikunni. „Ég var ekki búinn að syngja hana nema einu sinni þegar allir krakkarnir sungu hana með mér.“ Sigfús hefur sagt að lagið hafi verið sungið „fram og aftur og út á hlið, liggur mér við að segja, og ég vænti þess, að hún hafi svipt einhverjum skammdegisdrunga á brott.“
Þetta kemur fram í nýútkomnu hefti tímaritsins Þjóðmála, þar sem Jónas Ragnarsson skrifar um Litlu fluguna sem Sigfús Halldórsson tónskáld samdi á Reykhólum við ljóð Sigurðar Elíassonar tilraunastjóra. Liðnir eru sex áratugir frá því að Sigfús samdi lagið á nokkrum mínútum.Varla hefur nokkurt dægurlag flogið hraðar um landið en Litla flugan á sínum tíma.
Orðið dægurlag eða dægurfluga er vissulega ekki réttnefni á Litlu flugunni þó svo að einhverjir kunni í upphafi að hafa talið þetta prýðilegt lag sem nyti vinsælda um tíma en hyrfi síðan í gleymsku. Svo fór ekki. Þetta litla einfalda lag, þessi einfalda söngfluga um litla flugu, er fyrir löngu orðin íslensk klassík.
Litla flugan er ekki eina lag Sigfúsar Halldórssonar sem á tengsl við Reykhóla. Jónas nefnir hér fyrir neðan í samantekt sinni tvö önnur, lagið Í grænum mó og sálmalagið Ljósanna faðir líkna þú.
Þess skal getið varðandi Jónas Ragnarsson, að hann er væntanlega einna kunnastur fyrir ritið Daga Íslands, sem fyrst kom út árið 1994 og víða er vitnað í, t.d. í Morgunblaðinu á hverjum degi.
Samantektin um Litlu fluguna birtist hér á vef Reykhólahrepps með leyfi höfundar hennar og útgefanda Þjóðmála. Heimildaskrá er sleppt hér.
__________________________________________________
Jónas Ragnarsson
Litla flugan
Var fyrst flutt opinberlega fyrir sextíu árum
„Þessi örstutti og leikandi létti lagstúfur er sannkallaður þjóðardýrgripur,“ sagði Svavar Gests í útvarpsþætti um Litlu fluguna eftir Sigfús Halldórsson, en hún var fyrst flutt opinberlega snemma árs 1952.
Samið á nokkrum mínútum
Sigfús Halldórsson vakti verulega athygli sem lagahöfundur þegar hann gerði lögin Dagný, 1939, og Tondeleyó, 1947. Ljóðin munu bæði vera eftir Tómas Guðmundsson þó að hið fyrrnefnda hafi aldrei birst í ljóðabókum hans.
Veturinn 1951 til 1952 dvaldi Sigfús í nokkrar vikur hjá vinum sínum séra Þórarni Þór og Ingibjörgu Þór á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu. Sigfús var þá 31 árs, og dvaldi vestra til að jafna sig eftir veikindi.
„Þarna var lítið hægt að hafa fyrir stafni, en svo gerði ég uppgötvun sem mér þótti harla skemmtileg og góð,“ sagði Sigfús í viðtali við Vísi áratug síðar. „Ég varð þess áskynja að á staðnum var til píanó, eign Sigurðar Elíassonar tilraunastjóra.“ Sigurður hafði komið vestur nokkrum árum áður og var 37 ára.
Að sögn Sigfúsar fékk hann oft að nota píanóið en einnig ræddu þeir Sigurður um heima og geima. Einu sinni fóru þeir að ræða um það hvernig hægt væri að sigrast á leiða á afskekktum stöðum sem verða að búa við lélegar samgöngur að vetrarlagi. Sigurður sagði Sigfúsi þá frá því að einu sinni að sumri til hefði hann verið daufur í dálkinn og hefði þá farið upp í fjall fyrir ofan Reykhóla og ort þar ljóð. Þegar hann hafði lokið því hafði honum létt mikið.
„Ég spurði hann svo, hvort ég mætti ekki eiga vísurnar til að reyna að setja saman lag utan um þær og hann kvað það velkomið,“ sagði Sigfús. „Og lagið kom eiginlega á stundinni.“
Um jólin 1951 var haldin barnaskemmtun á Reykhólum og Sigfús var fenginn til að leika jólasvein. „Þá varð ég heldur betur var við að Litla flugan var auðlærð,“ sagði Sigfús í viðtali í Vikunni. „Ég var ekki búinn að syngja hana nema einu sinni þegar allir krakkarnir sungu hana með mér.“ Sigfús hefur sagt að lagið hafi verið sungið „fram og aftur og út á hlið, liggur mér við að segja, og ég vænti þess, að hún hafi svipt einhverjum skammdegisdrunga á brott.“
Önnur útgáfa af sögunni um ljóðið
Sigurður Elíasson segir í ævisögu sinni að þegar hann var að jafna sig eftir berkla og mislinga hafi hann farið að „hnoða saman vísum og hripa þær á blað“. Sumu henti hann en eitt ljóðið, Fiðrildisflökt, geymdi hann, braut saman blaðið og lagði það inn í bók sem hann var að lesa.
Daginn eftir datt blaðið úr bókinni. Á því munu hafa verið þrjár vísur, sú þriðja svohljóðandi: „Lækur tifar létt um máða steina, / lítil fjóla grær við skriðufót. / Bláskel liggur brotin milli hleina, / í bæjarkampi er mosavaxið grjót.“
Hann strikaði út síðustu línuna og setti í staðinn: „Í bænum hvílir íturvaxin snót.“ Sigurður segir að framhaldið hafi komið af sjálfu sér: „Ef ég væri orðinn lítil fluga / ég inn um gluggann þreytti flugið mitt. / Og þó ég ei til annars mætti duga / ég eflaust gæti kitlað nefið þitt.“ Blaðið varð eftir inni í bókinni, sem hann setti upp í hillu á skrifstofu sinni. Síðan sagðist Sigurður hafa gleymt þessu.
Sigurður segir að Sigfús hafi oft litið inn hjá þeim hjónum. Eitt sinn greip Sigfús bók úr hillunni, einmitt þá sem ljóðið var í. Hann spurði hver væri höfundurinn. Sigurður sagði honum það en bað Sigfús að rétta sér blaðið, hann ætlaði að henda því. Sigfús sagði þá að sig langaði að gera lag við síðustu tvær vísurnar. Sigurður sagði að hann mætti fá vísurnar ef hann semdi lag á tíu mínútum. Þeir fóru inn í setustofuna og að píanóinu. „Sigfús byrjaði næstum strax að semja eftir textanum og ég tók tímann,“ segir Sigurður í ævisögunni. „Eftir átta mínútur var lagið fullskapað.“
Allir að raula lagið
En hvernig varð nafnið til? Þegar Sigfús fór aftur til Reykjavíkur flaug hann með Birni Pálssyni. „Á leiðinni var hann að sýna mér hvernig hann gæti látið flugvélina velta sitt á hvað, hve lipur þessi litla rella hans væri, og þá laust því niður í huga minn að lagið ætti bara að heita Litla flugan,“ sagði tónskáldið í samtali við Vísi.
Eftir að Sigfús kom aftur til höfuðborgarinnar hitti hann Pétur Pétursson útvarpsþul á förnum vegi. Pétur bauð honum í skemmtiþátt sinn Sitt af hverju tagi. Þar spilaði Sigfús og söng lagið í fyrsta sinn fyrir alþjóð. Þátturinn var á dagskrá Útvarpsins miðvikudaginn 20. febrúar 1952, milli kl. 21 og 22 um kvöldið. Meðan Sigfús var að spila lagið fór rafmagnið af Reykjavík.
„Þegar nokkrar mínútur voru eftir af þættinum kom rafmagnið aftur á og fannst Pétri það eiga vel við að ljúka þættinum með því að biðja mig um að leika lagið,“ sagði Sigfús. Og hann lék lagið aftur. Það tók aðeins eina mínútu og tuttugu sekúndur í flutningi. Sigfús sagði síðar í útvarpsviðtali: „Mig rak í rogastans daginn eftir að hún var flutt í útvarp, þá heyrði ég þetta blístrað út um allt, unga og aldna.“
Nokkrum dögum síðar var lagið „raulað víða á skemmtistöðum bæjarins,“ eins og Mánudagsblaðið orðaði það. Og ungu kynslóðinni fannst það „agalega smart“. Velvakandi Morgunblaðsins sagði: „Í hverri götu suðar hún Litla flugan hans Sigfúsar Halldórssonar, þessi, sem hann kom með að vestan í vetur. Strákarnir blístra lagið undir berum himni, húsmæðurnar raula það við eldhúsborðið, og barnfóstran syngur hvítvoðunginn í svefn.“ Vísir sagði að Litla flugan væri „eitt þessara laga sem læðast alveg óafvitandi inn um hlustir manns, gerir manni glatt í geði og áður en varir er maður tekinn að raula það.“
Textinn var birtur í Tímanum 13. mars og tveimur dögum síðar voru nóturnar komnar í sölu í bókaverslunum.
Það þótti nokkrum tíðindum sæta þegar lagið heyrðist í útvarpsþætti Benedikts Gröndal, Óskastundinni, 23. mars, flutt af „kvartett“ en Björn R. Einarsson söng samt allar raddirnar. Björn hafði leikið sér að því að syngja lagið inn á lakkplötu hjá Radíó- og raftækjastofunni við Óðinsgötu, við undirleik Magnúsar Péturssonar.
Sigfús var spurður að því í viðtali í Útvarpstíðindum hvort ekki væri skrýtið að heyra lag eftir sjálfan sig hvar sem maður kæmi. Hann sagði: „O, jú. En ég er farinn að venjast þessu. Og manni þykir vænt um að heyra það að maður hefur gert eitthvað fyrir aðra.“ Aðspurður hvort hann væri ekki orðinn ríkur af tónsmíðunum svaraði hann því neitandi, sagðist hafa gefið lög sín út sjálfur. „Þau eru minna keypt en þau eru sungin.“
Mánuði eftir frumflutning Litlu flugunnar söng Ævar Kvaran leikari sjö lög Sigfúsar í Útvarpið, við undirleik tónskáldsins.
Á plötu í desember
Sumarið 1952 hélt Sigfús, ásamt Höskuldi Skagfjörð leikara og Soffíu Karlsdóttur söngkonu, í ferð um landið. Hópurinn nefndist Litla flugan. Haldnar voru söngskemmtanir á um fimmtíu stöðum á landinu við hinar bestu undirtektir. Á suma þessara staða höfðu ekki áður komið leikflokkar. Þegar hópurinn kom til Akureyrar var sagt um Sigfús í Degi: „Mun marga fýsa að sjá þennan óvenjulega fjölhæfa og skemmtilega listamann.“
Litla flugan kom ekki út á plötu fyrr en í desember 1952, í flutningi Sigfúsar. Svavar Gests hefur sagt að lagið hafi verið á fyrstu plötunni sem fyrsta íslenska hljómplötufyrirtækið, Íslenskir tónar, setti á markað.
Lagið var gefið út á plötu í Noregi haustið 1953 undir nafninu Vesleflua. Jens Book-Jenssen, sem nefndur hefur verið Bing Crosby Noregs, þýddi textann og söng lagið. Um svipað leyti samdi Sigurd Madslund danskan texta og gaf lagið út á nótum. Sigurd var af íslenskum ættum, systursonur Sigurgeirs Sigurðssonar biskups.
Haft hefur verið eftir Sigfúsi að lagið hafi borist fljótlega til hinna norrænu landanna, nema Finnlands, orðið mjög vinsælt og mikið leikið.
„Litla flugan er eina lagið á Íslandi sem getur kallast „hit“,“ sagði Sigfús í viðtali í Vikunni. „Það gerist ekki oft, jafnvel ekki hjá stórþjóðum.“
Á úrslitakvöldi í keppninni um Landslagið 1989 voru Sigfúsi veitt heiðursverðlaun, skrautfjöður úr gulli með lítilli flugu á.
Sigfús tengdur Reykhólum
Fleiri lög Sigfúsar en Litla flugan tengjast Reykhólasveitinni. Lagið Í grænum mó var frumflutt í Bjarkalundi árið 1964, í brúðkaupsveislu dóttur Þórarins Þór, og sálmalagið Ljósanna faðir líkna þú flutti Sigfús í fyrsta sinn í Reykhólakirkju.
Í húsinu á Reykhólum, þar sem Sigurður Elíasson bjó, er núna rekið Gistiheimilið Álftaland. Þar sem Sigfús samdi Litlu fluguna er nú setustofa fyrir gestina.
- Jónas Ragnarsson. Þjóðmál, tímarit um stjórnmál og menningu, 8. árgangur, 4. hefti, vetur 2012.
Sjá einnig:
► 14.04.2009 Hvernig Litla flugan varð til ...
► 16.04.2009 Flugan sem Sigfús kom með að vestan (upplýsingar frá Jónasi Ragnarssyni)
► 31.05.2011 Gistiheimilið Álftaland: Gott verður betra