Dælunum í Nesi lokað nánast fyrirvaralaust
Eldsneytisdælum N1 í Króksfjarðarnesi verður lokað á mánudaginn. Tímasetningin á þessari nánast fyrirvaralausu lokun hefur vakið megna óánægju, einkum hjá þeim sem eru með rekstur í kaupfélagshúsinu gamla yfir sumartímann. Tankarnir í Nesi eru komnir á aldur og þyrfti annað hvort að skipta um þá ef þarna ætti að vera eldsneytissala til frambúðar, eða grípa til annarra aðgerða og fá frekari undanþágu til notkunar þeirra fram á haustið.
Tankarnir eru rétt við kaupfélagshúsið en þar verða Handverksfélagið Assa, nytjamarkaður, kaffihús, Arnarsetur Íslands og upplýsingaþjónusta fyrir ferðafólk starfandi í sumar eins og undanfarin ár. Búið er að skipuleggja starfið og ráða starfsfólk.
Vegna þessarar starfsemi í Nesi hefur verið skorað á N1 að fresta lokuninni fram á haustið. „N1 hefur ekki getað komið með nein rök fyrir því að það liggi svona mikið á að loka þessu og hafa kennt bæði Heilbrigðiseftirliti og Olíudreifingu um að það verði að loka þessu strax, en hvorugur þessara aðila vill kannast við það“, segir einn þeirra sem að áskoruninni standa í samtali við vefinn.
„N1 hefur líka kennt því um að þarna hafi verið stolið talsverðu af eldsneyti. Nesverslun sem er umboðsaðili fyrir N1 í Króksfjarðarnesi hefur boðist til að setja upp og sjá um eftirlitsmyndavélar við dælurnar, en það hefur ekki fengið neinar undirtektir hjá N1. Gera má ráð fyrir að búið sé að prenta flesta ferðabæklinga fyrir sumarið og þá eru þessar dælur merktar þar inn, sem kemur til með að valda ferðafólki vandræðum. N1 hefur ekki heldur haft fyrir því að auglýsa lokunina til almennra notenda í héraðinu, svo sem á vef Reykhólahrepps,“ segir viðmælandi vefjarins. Og bætir við:
„Ingunn Sveinsdóttir sem fer með þessi mál hjá N1 virðist reyndar hvorki vita hvar Króksfjarðarnes er, hvaða starfsemi er þar né hvar næstu eldsneytisafgreiðslur eru, heldur segir einungis að þetta sé ákvörðun sem ekki verði haggað.“
Harpa Eiríksdóttir, fstudagur 14 mars kl: 17:47
Þetta er mjög slæmt fyrir starfssemina sem er í Króksfjarðarnesi og að starfsmenn hennar þurfa að horfa fram á að afsaka og á redda ferðamönnum sem hafa komið þangað í þeirri trú að fá bensín eða olíu og hafa ekki nóg á bílnum til að fara lengra. Þetta er til skammar hjá N1 - og það að vita ekki einu sinni hvar er verið að loka segir að starfsmaður er ekki að sinna vinnunni sinni.