Tenglar

4. apríl 2011 |

„Dætur og synir héraðsins“ á vef Reykhólahrepps

Séra Matthías Jochumsson. Teikning: Olav Rusti 1911.
Séra Matthías Jochumsson. Teikning: Olav Rusti 1911.
Opnaður hefur verið nýr undirvefur á vef Reykhólahrepps - Dætur og synir héraðsins - í valmyndinni vinstra megin. Þar ætti eiginlega að taka fram, eins og iðulega er gert, að vefurinn sé í smíðum. Réttara væri þó að segja að hann verði stöðugt í smíðum - vonandi.

 

Tveir kostir birtast þegar þarna er smellt, annars vegar Æviatriði nýlátinna, hins vegar Úr ýmsum áttum. Eins og tekið er fram í inngangsorðum að liðnum Úr ýmsum áttum er yfirskriftin Dætur og synir héraðsins ekki rétt í öllum tilvikum. Þannig geta Grettir Ásmundarson og fóstbræðurnir Þorgeir og Þormóður ekki talist í þeim hópi þótt frásögnin af frægri veturvist þeirra saman á Reykhólum sé tekin þarna með.

 

Ennþá er heldur fátæklegt um að litast á síðunni Úr ýmsum áttum en vera kann að sá garður verði smátt og smátt fjölskrúðugri þegar efni tínist þar inn. En - jafnframt er þá hætt við nokkrum kynjaskakka. Miklu meiri heimildir eru til um karla en konur á fyrri tíð. Piltar gengu menntaveginn, urðu hitt og þetta og urðu merkir, eins og sagt er. Systur þeirra giftust, fæddu börn, elduðu mat og þvoðu af körlunum. Íslandssagan er að miklu leyti karlasaga. Við þessu er lítið að gera.

 

Gaman er að hafa hér í hópnum frændurna Matthías Jochumsson frá Skógum í Þorskafirði og Björn Jónsson frá Djúpadal í Gufudalssveit. Þeir voru harðir keppinautar þegar þeir voru eigendur og ritstjórar langöflugustu blaða landsins og skrifuðu þau að miklu leyti sjálfir - Björn með Ísafold, Matthías með Þjóðólf. Jafnframt unnu þeir báðir stórvirki við þýðingar erlendra bókmennta á íslenska tungu og voru taldir einhverjir bestu íslenskumenn landsins. Björn var annar Íslandsráðherrann næst á eftir Hannesi Hafstein. Sonur hans var Sveinn Björnsson, fyrsti forseti Íslands.

 

Athugasemdir

Björg Karlsdóttir, mnudagur 04 aprl kl: 22:38

Mikið er þetta skemmtileg og fróðleg lesning. Takk fyrir.
Ég hlakka til að lesa það efni sem enn er óbirt. Mætti ég benda á Þóru í Skógum sem ól upp Matthías og alla hina og sonarson hennar Júkka sem bjó að Hnausabúðum á sumrin. Svo var það líka kona sem átti upptökin að skógrækt í Barmahlíð. Man ekki í augnablikinu hvað hún hét.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Oktber 2024 »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31