Dagleiðir í hring á hjóli á Vestfjarðakjálkanum
Út var að koma hjá Vestfirska forlaginu handbók um hjólreiðaleiðir á Vestfjörðum og kemur hún hjólreiðafólki í góðar þarfir þegar sumrar. Þar eru meðal annars lýsingar á nokkrum leiðum sem liggja um Reykhólahrepp. Handbókin heitir Hjólabókin og undirtitill er Dagleiðir í hring á hjóli. Höfundur er Ómar Smári Kristinsson á Ísafirði. Í riti þessu, sem er nýlunda hérlendis, er að finna ítarlegar upplýsingar um fjórtán freistandi dagleiðir í hring á hjóli.
Rúmlega 200 ljósmyndir eru í bókinni, 6 teikningar, 15 töflur og gröf og 20 kort. Birtir eru GPS-punktar á völdum stöðum. Allar leiðirnar eru teiknaðar með litaskala sem útskýrir hve brattinn er mikill. Auk fróðleiksmola sem fylgja hverjum kafla eru tillögur að nærliggjandi leiðum. Aftast er ítarleg örnefnaskrá.
Kaflarnir (hringirnir) eru þessir:
- Svalvogahringurinn
- Vestfirsku Alparnir
- Dýrafjörður
- Önundarfjörður
- Ísafjörður - Bolungarvík
- Mjóifjörður í Djúpi
- Innstu firðir Djúps
- Langidalur og Lágidalur
- Kringum Vatnsdal
- Þingmannaheiði
- Árneshreppur
- Kaldrananeshreppur
- Tröllatunguheiði, Steinadalsheiði
- Gilsfjörður
Hjólabókin fæst í Hólakaupum á Reykhólum eins og aðrar bækur Vestfirska forlagsins.