Tenglar

16. október 2008 |

Dagskrá í minningu Herdísar og Ólínu Andrésdætra

Herdís, María og Ólína Andrésdætur.
Herdís, María og Ólína Andrésdætur.

Í tilefni 75 ára afmælis Sambands breiðfirskra kvenna og þess að 150 ár voru í sumar liðin frá fæðingu skáldkvennanna Herdísar og Ólínu Andrésdætra frá Flatey á Breiðafirði verður kynning á lífshlaupi þeirra og ljóðum að Skriðulandi í Saurbæ kl. 16 á sunnudaginn, 19. október. Á dagskránni verður upplestur, flutningur ljóða og söngur. Kaffi og meðlæti verða í boði á vægu verði og allir eru velkomnir. Þær Herdís og Ólína voru „af hinni merku breiðfirsku skáldaætt, sem sjera Matthías gerði frægasta", eins og sr. Jón Auðuns dómkirkjuprestur komst að orði á sínum tíma.

 

Oftast er þeirra tvíburasystranna Herdísar og Ólínu getið beggja í senn. Saman gáfu þær út Ljóðmæli, fyrst árið 1924 þegar þær voru liðlega hálfsjötugar og aftur 1930 þegar þær voru komnar á áttræðisaldur. Heildarsafn ljóða þeirra kom út í litlu upplagi árið 1976 og var endurútgefið 1980 og 1982. Væntanlega hefur það ekki hvarflað að þeim mjög lengi fram eftir aldri að ljóð þeirra yrðu gefin út.

 

Þess má geta varðandi ættatengsl, að þær systurnar og Theodora Thoroddsen skáldkona voru náfrænkur. Listamaðurinn Muggur (Guðmundur Thorsteinsson) frá Bíldudal var frændi þeirra (systursonur Theodoru). Þær voru einnig náfrænkur þjóðskáldsins séra Matthíasar Jochumssonar frá Skógum í Þorskafirði og Björns Jónssonar ritstjóra Ísafoldar og bókmenntaþýðanda úr Djúpadal í Gufudalssveit, sem var annar ráðherra Íslands í upphafi heimastjórnar, næstur á eftir Hannesi Hafstein, og faðir Sveins Björnssonar fyrsta forseta Íslands.

 

Á myndinni eru þær Herdís og Ólína Andrésdætur og María systir þeirra í miðjunni. María varð einn elsti Íslendingur fyrr og síðar, 106 ára. (Mynd úr Ljóðmælum).


Sjá einnig:
 

Nánar um Herdísi og Ólínu

 

Samband breiðfirskra kvenna 75 ára

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31