Tenglar

22. febrúar 2012 |

Dagskráin í Reykhólahreppi 2012 að skríða saman

Unnsteinn Hjálmar Ólafsson (Hjalli á Grund) kemur á Reykhóladaga í fyrra.
Unnsteinn Hjálmar Ólafsson (Hjalli á Grund) kemur á Reykhóladaga í fyrra.

Yfirlit um helstu hátíðir í Reykhólahreppi á þessu ári er smátt og smátt að taka á sig mynd. Hér skulu nokkrum þeirra gerð fyrstu skil. Það eru Barmahlíðardagurinn á sumardaginn fyrsta, útivistarhelgin Gengið um sveit um Jónsmessuna, Bátadagarnir fyrstu helgina í júlí, Reykhóladagarnir síðast í júlí og messudagurinn í Flatey, sem er hluti af Flateyjardögum.

 

Barmahlíðardagurinn hefur um árabil verið haldinn hátíðlegur á Reykhólum á sumardaginn fyrsta. Enda þótt hann hafi í byrjun (og sé enn í dag) kenndur við Dvalarheimilið Barmahlíð hefur dagskráin a.m.k. á síðari árum alls ekki verið einskorðuð við heimilið þó að hluti hennar sé þar. Sumardagurinn fyrsti er alltaf á fimmtudegi og verður að þessu sinni 19. apríl.

 

Dagana 21.-24. júní eða um Jónsmessuna verður útivistarhelgin Gengið um sveit, sem haldin var í fyrsta sinn á síðasta ári. Þar er um að ræða langar og skemmri göngur undir leiðsögn, sem ættu að hæfa öllum aldurshópum, en síðasti dagurinn er sérstakur hjóladagur. Á hverjum morgni verða barnagöngur fyrir yngstu kynslóðina. Ein löng ganga verður á laugardeginum en tveggja til þriggja tíma göngur þrjá fyrstu dagana. Nánari upplýsingar um útivistarhelgina má fá hjá Hörpu ferðamálafulltrúa í tölvupósti.

 

Bátadagarnir verða 7.-8. júlí. Þar hittast trébátar og eigendur þeirra og sigla saman um Breiðafjörð. Skemmtilegir dagar til að kynnast gömlum bátum (og sumum nýsmíðuðum að gömlum hætti) af ýmsum gerðum en ekki síst með breiðfirska laginu. Frekari upplýsingar verða á vef Bátasafns Breiðafjarðar.

 

Reykhóladagarnir árvissu verða 26. -29. júlí. Þeir eru bæjar- og héraðshátíð með margvíslegum viðburðum í fjóra daga (eins og í fyrra) og má þar nefna dráttarvélakeppni, súpusmakk, ratleiki, spurningakeppni og heimsókn hesta, svo að fátt eitt sé nefnt. Nánari upplýsingar má fá hjá Hörpu í tölvupósti auk þess sem hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar.

 

Messa í Flateyjarkirkju verður laugardaginn 4. ágúst sem hluti af Flateyjardögum. Gert er ráð fyrir að farþegabátar fari frá höfninni á Stað á Reykjanesi. Tími gefst til að skoða sig um eftir messuna. Frekari upplýsingar fást hjá Svanhildi Jónsdóttur í Flatey, sem á sæti í sóknarnefnd Flateyjarsóknar.

 

Nánari upplýsingar um þessa viðburði og aðra koma hér á vef Reykhólahrepps eftir því sem þær liggja fyrir.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31