1. apríl 2016 |
Dagur helgaður einhverfum börnum
Blár apríl hefst í dag, en það er stuðningsátak til að vekja athygli á einhverfu barna. Fólk er hvatt til að klæðast bláu og sýna þannig stuðning í verki. Styrktarfélag barna með einhverfu stendur fyrir Bláum apríl.
Ragnhildur Ágústsdóttir, formaður félagsins, hvetur til að taka þátt í deginum, mæta í bláu hvar sem er og taka myndir og setja inn á samfélagsmiðla og merkja þær með myllumerkinu #blárapríl.
Hægt er að styrkja málefnið um 1000 kr. með því að hringja í símanúmerið 902-1010. Allt styrktarfé rennur óskert til málefnisins, en í ár er safnað fyrir gerð á uppbyggilegu og jákvæðu fræðsluefni um einhverfu sérstaklega ætlað börnum.