5. febrúar 2011 |
Dagur leikskólans: Náttföt og tuskudýr á Hólabæ
Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur á Leikskólanum Hólabæ á Reykhólum í fyrradag. Að þessu sinni var efnt til náttfatadags og allir máttu koma með tuskudýr með sér. „Fengum ávaxtasafa, kex og poppkorn og svo héldum við dúndurball“, segir Björg Karlsdóttir leikskólastjóri. Hún sendi vefnum jafnframt fjölda mynda sem finna má undir Ljósmyndir > Myndasyrpur í valmyndinni hér vinstra megin.
Hinn formlegi Dagur leikskólans er 6. febrúar, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Núna er hann haldinn hátíðlegur fjórða árið í röð, en þegar sjötta febrúar ber upp á helgi er fagnaðurinn færður til.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfið út á við. „Leikskólakennarar eru sammála um að dagurinn sé í alla staði skemmtileg tilbreyting og ákjósanleg leið til halda á lofti góðu starfi leikskólanna“, segir á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins.