11. febrúar 2010 |
Dagurinn helgaður símanúmerinu 112
112-dagurinn er í dag, 11. febrúar, og ýmislegt er gert til að vekja athygli á honum. Skyndihjálp og slysavarnir eru kynntar í grunnskólum. Þá er móttaka í tilefni dagsins í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í Reykjavík þar sem veittar verða viðurkenningar fyrir skyndihjálp og Skyndihjálparmaður ársins 2009 útnefndur. Einnig verða verðlaun veitt í Eldvarnagetrauninni. Mikilvægt er að almenningur kynni sér skyndihjálp og geti veitt fyrstu hjálp við slys, veikindi eða áföll, því viðbragðsaðilar koma sjaldnast fyrstir á vettvang slíkra atburða. Þegar hringt er í neyðarnúmerið 112 svarar sérþjálfað starfsfólk, sem afgreiðir erindið beint eða flytur það til lögreglu, slökkviliðs, sjúkraflutninga eða annarra sem málið varðar.
Þetta kemur fram á vef Almannavarna.
Neyðarnúmerið 112 er það sama hér á landi og í Evrópulöndum yfirleitt. 112-dagurinn er haldinn um alla Evrópu í dag. Hann er nú haldinn í sjötta sinn á Íslandi en í annað sinn í öðrum Evrópulöndum.
Sjá einnig:
09.02.2010 Breyting á símsvörun heilsugæslulækna