Tenglar

10. apríl 2018 | Sveinn Ragnarsson

Dalli fær „Rós í hnappagatið“

Stund milli stríða hjá Dalla í pökkuninni á Glæði
Stund milli stríða hjá Dalla í pökkuninni á Glæði

Rós í hnappagatið er heiti á dálki í tímaritinu Sumarhúsið og garðurinn, en í nýjasta tölublaði þess er eftirfarandi grein, þar sem fjallað er um Glæði frá Reykhólum. Greinin er aðeins stytt og myndum sleppt.

 

 Texti: Auður I. Ottesen.

Rós í hnappagatið fær Guðjón D. Gunnarsson (Dalli) á Reykhólum fyrir frumkvæði, þrautseigju og elju við framleiðslu á lífræna þangvökvanum sem nefnist Glæðir. Þangið í áburðarvökvann fær Dalli úr Breiðafirði en þar eru strærstu þangbreiður landsins. Hann sýður þangið heimavið og selur í verslanir um land allt.

 

Áður en Dalli setti lífræna gróðuráburðinn Glæði á almennan markað 2001 hafði hugmyndin að vökvanum verið að brjótast um í honum í rúman áratug. Þróun, tilraunir og rannsóknir vann hann í samvinnu við fagmenn í garðyrkju þangað til rétta blandan náðist. Við hjá Sumarhúsinu og garðinum hittum Dalla á Reykhólum í bílskúrnum þar sem hann sýður þangið í vatni í gamaldags suðupotti.

 

Framleiðir milli fimm og sex tonn á ári

Er Glæðir fór í sölu fékk hann strax góðar móttökur í blómaverslunum. „Salan var ekki mikil fyrstu árin en síðustu ár hefur hún verið nokkuð stöðug, milli fimm og sex tonn á ári. Hún tók verulegan kipp þegar Bónus hóf að selja áburðarvökvann,“ segir Dalli er hann er spurður um hvernig hafi gengið að markaðssetja Glæði. „Stærsti hluti sölunnar er í eins lítra umbúðum og nokkuð selst í fimm lítra brúsum. Garðyrkjuverktakar og fáein sveitarfélög eru dugleg að kaupa tuttugu lítra brúsa sem ég býð líka upp á. Ég hef heyrt að þeir noti vökvann á trjágróður og grasfleti. Vökvinn hefur verið efnagreindur og greiningin sýnir að hann er afar snefilefnaríkur og kröftugur,“ segir hann og að lógóið hafi góður maður hannað fyrir hann. „Ég fékk það prentað á umbúðir og á merkimiða, ásamt innihaldslýsingu og notkunarleiðbeiningum.“

 

Góð reynsla af Glæði

Ritstjóri Sumarhússins og garðsins tók ástfóstri við Glæði sem áburð árið 1998, þegar Dalli var enn að þróa hann. Hann kom færandi hendi með 20 lítra dunk til prufu og færði ritstjóranum sem þá var ræktunarstjóri hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá. Á Mógilsá voru skógar- og trjáplöntur vökvaðar með áburðarvökvanum með þeim árangri að þær urðu frískari og stæltari. Síðar hefur vökvinn gagnast ritstjóranum vel við ræktun kryddjurta og sem áburðargjafi fyrir inniblóm sem vökvuð eru með daufri lausn allt árið um kring. Varla verður vart lauffalls á pottaplöntunum yfir veturinn og má þakka Glæði það. Glæðir eykur jafnframt heilbrigði og viðnám planta gegn alls kyns sjúkdómum og skordýrum. Áburðurinn er sérstaklega gagnlegur gegn lús. Ef úðað er með hreinum Glæði á lúsug blöð  þá steindrepst lúsin. Athyglisvert er að Glæðir hefur líka verið prófaður til að slá á útbreiðslu ryðsvepps og er þá vökvanum úðað á sýkt blöðin.

 

 

Um Glæði

Þangið í Glæði er sótt í fjörur við Breiðafjörð. Mestu þangbreiður landsins eru við fjörðinn.

Glæðir er lífrænn áburður sem samanstendur af klóþangi úr Breiðafirði, íslensku vatni og kalísóda. Þangið hefur löngum verið þekkt fyrir heilnæma eiginleika sína, í því er fjöldi snefilefna sem nýtist gróðri. Gott er að vökva garðplönturnar og úða yfir laufin til að gera þær ólystugar fyrir skordýrin. Glæðir er góður í matjurtarækt þegar skortur er sýnilegur á snefilefnum.

  

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2023 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30