Tenglar

16. febrúar 2013 |

Daníel á Ingunnarstöðum og baráttan við kerfið

Daníel á Ingunnarstöðum. Skjáskot úr myndskeiði í Sjónvarpi mbl.is 23. jan.
Daníel á Ingunnarstöðum. Skjáskot úr myndskeiði í Sjónvarpi mbl.is 23. jan.

Á þriðjudag verða hundrað dagar liðnir frá því að Matvælastofnun svipti Daníel Jónsson bónda á Ingunnarstöðum í Geiradal leyfi til mjólkursölu. Síðan hefur hann hellt mjólkinni niður og nemur verðmæti hennar, miðað við verð til bónda, eitthvað á sjöundu milljón króna. Staða Daníels er ennþá sérstæðari vegna þess að Landsbankinn leysti til sín jörðina síðla árs 2011. Í báðum þessum málum segir hann farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við þá sem þar er við að eiga. Einnig er hann mjög ósáttur við bæði framgöngu og framgönguleysi hjá Bændasamtökunum og Landssambandi kúabænda.

 

Daníel Jónsson hefur búið á Ingunnarstöðum alla sína tíð og hefur átt þar heima allt frá æskuárum.

 

Fyrir nokkrum vikum eða 23. janúar birtist í Morgunblaðinu viðtal við Daníel út af þessu máli. Jafnframt var þá birt á vefnum mbl.is myndskeið frá heimsókn Morgunblaðsmanna að Ingunnarstöðum. Þar rekur Daníel sín sjónarmið en í viðtalinu hér fyrir neðan er hann langtum hvassari. Ástæðuna segir hann þá, að á þeim tíma sem síðan er liðinn hafi nákvæmlega ekkert gerst.

 

Bannið við mjólkursölu frá Ingunnarstöðum hefur staðið frá 12. nóvember. „Ég fékk tilkynningu um lokun með viku fyrirvara. Þar var sagt að allir frestir væru útrunnir. Það er alrangt. Ég hafði frest fram í desember til að lagfæra það sem athugasemdir voru gerðar við. Aðra fresti hafði ég ekki fengið,“ segir Daníel.

 

„Þegar tilkynnt var um afturköllun starfsleyfisins kom fram að ég hefði andmælarétt. Ekkert mark var tekið á andmælum mínum. Í þeim kom fram að ég væri búinn að koma í lag atriðum sem athugasemdir höfðu verið gerðar við. Ekki var einu sinni haft fyrir því að koma og athuga hvort ég væri að segja satt eða hvort ég væri bara að reyna að ljúga mig út úr málinu,“ segir Daníel.

 

Aðspurður hvort hann telji að hér sé um einelti eða valdníðslu af hálfu héraðsdýralæknis og Matvælastofnunar að ræða, líkt og skilja mátti af ummælum hans í fréttum á sínum tíma, segir Daníel:

 

„Já, þetta er bæði einelti og valdníðsla. Ég heyrði nú reyndar haft eftir manni innan ráðuneytisins, að þetta væri ekki valdníðsla heldur ofbeldi.“

 

- Hver heldur þú að sé ástæðan fyrir því?

 

„Það er dálítið sérkennilegt þegar eftirlitsdýralæknir kemur í heimsókn á bæ og byrjar á að segja við bóndann, að hún sé mótfallin því að bændur noti mjaltaþjóna eða róbóta. Þá skilur maður að útkoman getur aldrei orðið jákvæð.“

 

- En það eru nú margir bændur hérlendis með mjaltaþjóna.

 

„Já, þeir eru geysimargir. Þetta er bara hennar prívatskoðun og hún á ekkert að láta hana koma fram.“

 

Og Daníel bætir við: „Ég veit að þessi manneskja, nýi héraðsdýralæknirinn í Vesturumdæmi, hún er með hótanir við aðra bændur um lokun hjá þeim, og líka við mjólkurstöðina í Búðardal.“

 

- Að loka mjólkurstöðinni?

 

„Já, hún er að hóta mjólkurbússtjóranum að loka hjá honum. Þessi manneskja er bara langt frá því að vera starfi sínu vaxin. Hún ræður ekkert við það.“

 

- Telur þú að það sem hún gerði athugasemdir við hjá þér hafi verið svo mjög frábrugðið því sem er hjá öðrum bændum, að ástæða hafi verið til þessara harkalegu viðbragða gagnvart þér?

 

„Þessi viðbrögð gagnvart mér standast enga skoðun. Ég hef aldrei komið í fjós þar sem allt er nánast hvítskúrað. Ef farið væri í öll fjós, þó ekki væri nema bara á Vesturlandi, þá hygg ég að það fyndust nú ekki mörg sem stæðust þá kröfu að hvergi væri ryk eða óhreinindi.“

 

- Þú hefur væntanlega brugðist strax við banninu?

 

„Ég kærði nánast strax til ráðuneytisins, mig minnir að kæran hafi farið inn 20. nóvember, og bíð enn eftir niðurstöðu þaðan.“

 

Og enn er Daníel að hella mjólkinni niður. Hann segir að það séu milli 750 og 800 lítrar á dag, þannig að á þessum 97 dögum hafa eitthvað í kringum 75 þúsund lítrar af mjólk farið niður í ræsið á Ingunnarstöðum. Andvirði hennar miðað við greiðslur til bænda, skv. því sem Daníel segir, er samtals nokkuð á sjöundu milljón króna fyrir utan virðisaukaskatt eða yfir 60 þúsund krónur á dag.

 

„Mjólkin frá mér var alltaf í lagi. Sölubannið var sett á mig samkvæmt tilvísun í ákveðna lagagrein, þar sem segir að loka megi ef rökstuddur grunur er um að matvæli séu heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Ekki út af einhverjum óhreinindum á mjaltaþjóni eða tanki. Þetta er einfaldlega rangtúlkun á lagaákvæðinu. Það virðist helst sem þetta lið átti sig ekki á því að bændur eru læsir.“

 

Það flækir málin enn, að Ingunnarstaðir eru komnir í hendur Landsbankans, sem leysti jörðina til sín í nóvember 2011. Í byrjun þess árs eða fyrir rúmum tveimur árum var Daníel lýstur gjaldþrota. Hann kveðst hafa farið illa út úr fjárfestingum á árunum rétt fyrir hrun. „Ég ákvað að kaupa mjaltaþjón og gera endurbætur á fjósinu og Landsbankinn veitti mér lán til þessara fjárfestinga og framkvæmda.“

 

Aðspurður um aðdragandann að gjaldþrotinu segir Daníel:

 

„Skeljungur óskaði eftir því að ég yrði settur í þrot. Ég hafði keypt af þeim áburð og ekki staðið í skilum. Á þeim tíma var ég í greiðsluþjónustu hjá Landsbankanum, en hann passaði sig á því að borga bara sjálfum sér. Öll innkoma fór í að borga af lánum en þeir borguðu hvorki kjarnfóður né áburð eða neitt sem þurfti til búrekstrarins. Ég hætti í greiðsluþjónustunni og fór að reyna að semja við Skeljung en það gekk ekki neitt. Alveg sama hvaða tilboð ég kom með, þeir höfnuðu öllu. Ég var auðvitað ekki að reyna að gera einhvern samning sem ég vissi að ég gæti ekki staðið við. Þetta endar svo með því að þeir óska eftir gjaldþroti.“

 

Daníel segir að skiptastjórinn sem skipaður var yfir þrotabúið hafi ekki komið vestur fyrr en fimmtán mánuðum eftir að úrskurðurinn um gjaldþrot var kveðinn upp. „Lögum samkvæmt á hann að vera kominn innan hálfs mánaðar. Á þeim tíma var hann samt búinn að láta bankann hafa jörðina.“

 

- Ertu þá búandi núna á Ingunnarstöðum með einhverjum hætti í umboði bankans?

 

(Daníel hlær). „Ég er bara hér í umboði bústofnsins, held ég.“

 

- Þú átt þá bústofninn þó að bankinn teljist eiga jörðina?

 

„Ja, hann er á mínu nafni, því að þrotabúið hefur aldrei yfirtekið neitt hérna nema jörðina og húsakostinn. Ekki bústofn eða vélar.“

 

Daníel segir að það sé líka dálítið sérkennilegt, „að loksins þegar skiptastjórinn kemur, þá semur hann ekki við mig um laun eða neitt. Núna er ég búinn að vera hér kauplaus allan þennan tíma, og snemma á síðasta ári voru meira að segja teknar af mér beingreiðslurnar. Þær fara í bankann, hvernig svo sem það er hægt, því að beingreiðslurnar eiga alltaf að fara til framleiðanda.“

 

- Hvernig sérðu fyrir þér framhaldið, hvort heldur varðandi þessi mál, búskapinn hjá þér á Ingunnarstöðum og þig sjálfan?

 

„Ég er bjartsýnn að eðlisfari. Ég bara trúi því ekki enn að starfsmenn svona stofnana komist upp með það brjóta lög og reglur á þegnunum og það trekk í trekk, án þess að það sé leiðrétt. Ef þetta verður ekki leiðrétt gagnvart mér, þá segi ég bara: Megi aðrir bændur biðja fyrir sér. Það kæmi þá holskefla á eftir.“

 

- Hefur þú fengið einhvern stuðning frá Bændasamtökunum eða Landssambandi kúabænda?

 

„Nei, reyndar þvert á móti. Fyrir tveimur vikum sendi ég beiðni til sviðsstjóra félagssviðs hjá Bændasamtökunum um að hún skoðaði þetta mál. Hún sendi til baka staðfestingu á móttökunni og ætlaði að ganga í þetta þann sama dag. Svo fór mann að lengja eftir að heyra eitthvað af því. Þess vegna var aftur haft samband við hana í tölvupósti í fyrradag og þá var svarið að hún hefði verið að flytja og hefði því ekki getað sinnt þessu. Ekki virðist nú áhuginn mikill þar á bæ að ganga í málin,“ segir Daníel. „Samt er nú farið að örla á honum, því að í gær barst tölvupóstur þar sem boðað var að einhverjir frá Bændasamtökunum myndu koma hingað í næstu viku,“ bætir hann við.

 

„Mér finnst eins og bæði Bændasamtökin og Landssamband kúabænda séu með allt niður um sig í þessu máli. Ég hafði samband við formann Landssambands kúabænda áður en lokað var hjá mér og lét hann fylgjast með gangi mála. Svo kemur hann í sjónvarpið þegar búið er að loka og þetta komið í hámæli í fréttum og segir að hann hafi ekkert vitað um þetta! Mér fannst líka gæta dálítils hroka hjá formanni Bændasamtakanna, að hann skyldi taka skýra afstöðu með MAST án þess að kynna sér málið frá báðum hliðum. Það var haft samband við hann fyrir mig til að biðja hann að hafa samband við mig og reyna að finna einhverja lausn á þessu máli, en hann gerði það ekki.“

 

Því má bæta hér við, að á fundi hreppsnefndar Reykhólahrepps í fyrradag var lagt fram svohljóðandi bréf til hreppsnefndar frá Guðjóni D. Gunnarssyni á Reykhólum, fyrrum bónda í Mýrartungu í Reykhólasveit og fyrrum hreppsnefndarmanni í Reykhólahreppi:

 

Háttvirta sveitarstjórn. Nú er sveitungi okkar beittur ólíðandi ofríki af hálfu opinberrar stofnunar, MAST. Nú skora ég á ykkur að beita öllum tiltækum ráðum, honum til styrktar. Ekki þarf ég að tíunda þann skaða, sem þessi aðför skaðar hreppinn og Daníel er ekki sá eini, sem sér fram á að þurfa að flýja. Nú er ástæða til að hafa hátt. Virðingarfyllst. Guðjón D. Gunnarsson.

 

Sjá einnig:

23. janúar 2013 Hefur hellt niður yfir 50 þúsund lítrum af mjólk

 

- Viðtal og birting: Hlynur Þór Magnússon, ritstjóri og ábyrgðarmaður Reykhólavefjarins.

 

Athugasemdir

Jóna Jónsdóttir, laugardagur 16 febrar kl: 18:39

Það var og. Frá sjónarhorni neytandans OG styrkveitanda (með niðurgreiðslum) er ólíðandi að bóndi skuli halda slíkt viðbjóðs fjós. Ógeðslegri myndir hafa aldrei sést.

Engan langar í mjólk frá slíku fjósi. Ekki skal heldur halda því fram að dýrum líði vel í slíkum viðbjóð. Frekan en ég vænti þess að bóndinn vilji vaða eigin saur upp að hnjám. En hvað veit maður - kannski finnst honum það allt í lagi eins og honum fannst og finnst fjósið hann bara fínt og huggulegt.

Jón Jónsson, laugardagur 16 febrar kl: 18:46

Líklegt má telja að „Jóna Jónsdóttir“ sé að rugla hér með myndir frá Brúarreykjum í Borgarfirði sem birtust í fjölmiðlum á sínum tíma. Vill hún ekki tiltaka hvar þær myndir hafa birst sem hún er að tala um?

Guðjón D. Gunnarsson, laugardagur 16 febrar kl: 19:31

Afskiptaleysi samtaka bænda er sorglegt, en hversu algengt er það ekki í sögunni, að menn þora ekki að koma félögum sínum til hjálpar. Óttast að verða næstir.
Þessi myndataka er sér kafli: Myndir teknar í óleyfi, sendar í fjölmiðla, en enginn veit hvar eða hvenær þær voru teknar.

Hjörtur Trausason, laugardagur 16 febrar kl: 21:12

Það sem mér þykir lýsa ómældri fáfræði og ónærgætni hjá þér "Jóna Jónsdóttir" er að slengja svona athugasemdum fram án þess að kynna þér þessi mál til hlítar. Hefur þú í eigin persónu gengið um þetta umrædda fjós, vegna þess að það hef ég gert og það alloft, og þessi stóru lýsingarorð hjá þér um viðbjóðslegt og ógeðslegt fjós á hér engan vegin við og hryllir mér við því að vita af því að það sé fullt fullt af fólki eins og þú "Jóna Jónsdóttir" sem er svo óforskammað að láta eitthvað eins og þetta útúr sér algjörlega óhugsað (eða ég vona svo innilega að þetta hafi verið óhugsað hjá þér) því ég vil helst halda í þá barnatrú mína að allt fólk sé gott í grunnin . Ég hef grun um að þér hafi sennilega ekki dottið í hug að við, fjölskyldan hans Daníels á Ingunnarstöðum, myndum reka augun í þessa athugsemd hjá þér og ég leyfi mér að tala fyrir hönd allra barna hans og tengdabarna að okkur sárnar svona ljótt og ósanngjarnt umtal.

þórður, sunnudagur 17 febrar kl: 06:02

matvælaframleiðsla er eins og flugsamgöngur . Bæði fara fram eftir reglum . Sá sem ekki getur farið að reglum er ekki vel fallinn til starfa við framleiðslu matvæla.
LAngar sögur af fólki sem sífellt er fórnarlömb, sýna að sumir geta ekki farið eftir settum reglum. SAgan að ofan er þannig að í hana verða ritaðir fleiri kaflar. ÞAð eru ekki mannrettindi að framleiða matvæli, og það eru ekki mannréttindi að vera undanþegin greiðslu lána, Þetta er sorgleg saga , og enn sorglegra ef samtök og sveitarfélög virða ekki leikreglur. Landbúnaður á ÍSland er ekki vel skipulagður og afar óhagstæður skattgreiðendum. Þeir munu gera vaxandi kröfur um að framleiðslan lúti trúverðugu eftirliti , eftirlitið er ekki að fara það á eingöngu eftir að vaxa

Eyvindur, sunnudagur 17 febrar kl: 10:53

Kæra Jóna! Við sem notum þennan vef okkur til fróðleiks og skemmtunnar viljum ekki lesa svona lagað hér, vinsamlega notaðu aðrar lausnir til þess ef þú sérð þig knúin.

Björk Stefánsdóttir, sunnudagur 17 febrar kl: 11:42

Sammála þér Hjörtur,gæta skal orða sinna, ég myndi ekki vilja lesa svona um mig og fjölskyldu og vini, orð á netinu meiða líka. Vonandi fer þetta allt vel og málin fari að leysast.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31