Dansaði aðalhlutverkið á vorsýningu Listdansskólans
Algert draumaverkefni, sagði Ellen Margrét Bæhrenz ballettdansmær frá Miðjanesi í Reykhólasveit, sem fór með aðalhlutverkið í vorsýningu Listdansskóla Íslands í Borgarleikhúsinu í gær. Ellen varð nítján ára í síðasta mánuði og hefur stundað dansinn mestan hluta ævinnar eða frá þriggja ára aldri. Móðir hennar er Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir frá Miðjanesi og amma hennar Halldóra Játvarðardóttir - Lóa á Miðjanesi.
Ellen hefur allt frá fyrstu tíð verið mikið á Miðjanesi við sveitastörf sem henta börnum og unglingum, að snúast kringum kýr og kindur og taka þátt í smalamennskum og dúnleit, svo eitthvað sé nefnt. Hún er líka svo fjárglögg, segir amma hennar.
Vorsýning Listdansskóla Íslands að þessu sinni nefndist Svanavatnið í Svartaskógi og voru tvær sýningar á stóra sviði Borgarleikhússins kl. 17 og kl. 20 í gærkvöldi. Skólinn fagnar um þessar mundir 60 ára afmæli sínu og var meira lagt í vorsýninguna en oft áður og tóku allir nemendur skólans þátt í uppfærslunni á þessu þekkta verki.
Litið var inn á lokaæfingu á ballettinum í fréttum Sjónvarpsins í gær og spjallað bæði við Ellen Margréti og einn af örfáum strákum í Listdansskólanum.
► Hér má sjá og heyra fréttina í Sjónvarpinu í gærkvöldi
Sjá einnig (eftir sigur Ellenar Margrétar í sólóballettkeppni Félags íslenskra listdansara):
► Glæsilegur listdansari úr Reykhólasveit (9. mars 2011)