Tenglar

5. desember 2014 |

Dekk geta verið til ýmissa hluta nytsamleg

Birna Björt með laukapoka. Já, dekk geta verið til ýmissa hluta nytsamleg.
Birna Björt með laukapoka. Já, dekk geta verið til ýmissa hluta nytsamleg.
1 af 4

Meðfram endilangri Hellisbraut og víðar á Reykhólum blasa nú við aflóga dekk liggjandi á stangli og hefur sumum þótt undarlegt. Miklu undarlegra þótti samt þegar kona sást hlaupandi á undan traktorsgröfu og grípa öðru hverju dekk úr skóflunni og slöngva út fyrir götu með tilþrifum sem minntu á keppendur í Vestfjarðavíkingnum. En á þessu eru skýringar, rétt eins og öllum hlutum.

 

Þannig var, að Dalli og Ingvar fengu Lionsfélaga sína til að ánafna Reykhólahreppi afganginn af haustlaukunum sem klúbburinn seldi til fjáröflunar vegna samfélagsmála. Þar sem laukarnir bárust núna rétt fyrir helgina þegar spáð var kólnandi veðri tók María Maack á skrifstofu hreppsins til sinna ráða (ekki óvön því) og dreif í gang fjölmennan vinnuflokk. Ekki var að sökum að spyrja, allir brugðust vel við og lögðu hönd á plóg (að vísu ekki í bókstaflegri merkingu; laukarnir voru ekki plægðir niður). 

 

Dekkin sótti Óli Einir á gröfu frá Bolla bróður sínum (Brynjólfi Víði) og ók um þorpið á eftir Maríu eins og druslan dró með dekkin í skóflunni, eins og áður segir. Síðan var kerra sem fengin var að láni hjá Bolla notuð til að flytja mold og handskóflur og dugði ekki minna en veglegur Landcruiser til að draga kerruna. Gústaf Jökull hvolfdi nokkrum dráttarvélarskóflum á kerruna úr safnhaug sem staðið hefur um skeið niðri á gámasvæði. Handskóflurnar fengust að láni í Áhaldahúsinu. 

 

Síðan mokuðu krakkarnir á unglingastigi Reykhólaskóla nokkrum skóflum af haugmold í dekkin og aðrir krakkar potuðu laukunum niður.

 

Á myndunum sem hér fylgja eru (í stafrófsröð) Birna Björt, Brynjar Pálmi, Ingimundur Mikael, Jakob, Óli Stefán, Sandra Rún, Steinunn Lilja og Védís Fríða. „En dugmesta stúlkan festist ekki á mynd, það var hún Ásdís Birta,“ segir María Vestfjarðavíkingur, sem sjálf festist ekki heldur á mynd enda ekki við því að búast. 

 

Athugasemdir

Ásdís Jónsdóttir, sunnudagur 07 desember kl: 10:16

þegar við að Handan sem komum flykktumst yfir Þröskulda á spilakvöld hjá ykkur.sáum við dekkin og það fyrsta sem mér datt í hug var að nú væru þið að koma upp æðarvarpi og kollurnar ættu að verpa í dekkjunum.

María Maack, mnudagur 08 desember kl: 16:55

Já ég vona innilega að það setjist æðarkollur í dekkin í vor, þá verða þær væntanlega umkringdar blómgróðri sem nýtur áburðarins og hlýjunar. Gráupplagt og visthæft.. ;-}

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Febrar 2024 »
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29