Dóra frá Hafrafelli: Æðardúnn, silki, satín
Sitthvað fallegt, hlýtt, gott og gagnlegt hefur bæst við í vörulínunni hjá Dóru frá Hafrafelli (Dórótheu Sigvaldadóttur frá Hafrafelli í Reykhólasveit) frá því að sagt var frá byrjuninni með heilsuskjólunum hennar hér á vefnum í fyrravor. Eitt er sameiginlegt með fíniríunum sem Dóra hannar og býr til: Allt er þetta fyllt með ekta íslenskum æðardún. Af því nýja má nefna kerrupoka, morgunslopp, húfur, tvær sortir af lúffum, eyrnaskjól og barnasett sem samanstendur af húfu, trefli, vettlingum og sokkum.
Aðspurð um heilsuskjólin segir Dóra að framleiðslan á þeim hafi gengið ótrúlega vel. Hún hefur farið hingað og þangað og verið með kynningar á framleiðslunni sinni og verið vel tekið, segir hún.
Dóra gekkst undir skurðaðgerð á heila fyrir tæpum tveimur árum. Í frétt hér á Reykhólavefnum 9. mars í fyrra segir svo:
Á spítalanum tveimur dögum eftir aðgerðina fékk hún hugmyndina að heilsuskjólunum og hefur unnið við þau síðan og fengið einkaleyfi - „svo að þessu verði ekki stolið af mér“, segir hún. „Ég veit ekki til að svona sé framleitt nokkurs staðar í heiminum.“
Því má bæta við, að Dóra hefur fengið einkaleyfi á öllum sínum vörum enda eru þær allar sama eðlis.
Kerrupokinn sem nefndur var hefur a.m.k. þrenns konar notagildi. Auk þess að notast sem kerrupoki er hentugt að hafa hann í bílstól enda eru á honum göt fyrir bílbeltin. Líka er hægt að nota hann sem sæng og sem barnateppi á gólfið. Honum fylgja mismunandi ver eftir því hvernig hann er notaður hverju sinni. Skoðið myndirnar sem hér fylgja.
Barnasettið er úr satíni og fyllt með æðardún eins og allt hitt, morgunsloppurinn úr silki og bómull og húfurnar úr satíni og bómull.
Þessar vörur hennar Dóru frá Hafrafelli fást ekki í búðum, en eins og áður segir hefur hún farið og kynnt þær á ýmsum stöðum. Að öðru leyti má fá nánari upplýsingar og panta gegnum Facebook-síðuna Icelandic Eiderdown Design eða hringja í Dóru í síma 893 2928.
Þess má geta, að fréttin 9. mars í fyrra (tengillinn hér fyrir neðan) er sú mest lesna á Reykhólavefnum frá upphafi enda deildist hún víða. Marta systir Dóru er módelið á myndunum sem þar fylgja. Kannski mætti alveg deila þessari frétt eitthvað líka!
► 09.03.2012 Dún-heilsuskjól: Fékk hugmyndina eftir heilaskurð
ingibjörg Smáradóttir, fimmtudagur 01 gst kl: 12:50
Mjög fallegar vörur hjá Dóru. En módelið er eitt það fallegasta módel sem ég hef séð.