Dreifing Bændablaðsins aukin í þéttbýli
Bændablaðið er nú prentað í 19 þúsund eintökum og hyggur á sókn í þéttbýlinu. Það er málgagn Bændasamtaka Íslands og fjallar að stærstum hluta um málefni bænda í landinu. Blaðinu er dreift inn á hvert lögbýli og liggur auk þess frammi í flestum þéttbýliskjörnum landsins. „Þrátt fyrir kreppuhjal og barlóm í þjóðfélaginu heldur Bændablaðið áfram að auka þjónustu sína við lesendur með því að dreifa blaðinu á ellefu nýjum stöðum. Þar er um að ræða verslanir Krónunnar, sem eru átta talsins á höfuðborgarsvæðinu, en auk þess á Akranesi, Reyðarfirði og í Vestmannaeyjum. Þar getur fólk nálgast blaðið í þar til gerðum stöndum sem minna á sveitina eins og hún var", segir í tilkynningu frá blaðinu.
Á síðasta Búnaðarþingi var ákveðið að auka dreifingu blaðsins í þéttbýli og auka þar með skilning þéttbýlisbúans á málefnum landsbyggðarinnar. Á myndinni eru Þröstur Haraldsson ritstjóri Bændablaðsins og Baldur Sveinsson starfsmaður Krónunnar á Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði við mjólkurbrúsastand blaðsins.