Dúnskjólin hennar Dóru fara víða
Dún-heilsuskjólin hennar Dóru frá Hafrafelli í Reykhólasveit (Dóru á Skriðulandi) hafa fengið mjög góðar viðtökur. Fréttin um þau sem hér birtist fyrir tveimur mánuðum er sú mest lesna á vef Reykhólahrepps frá upphafi. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur Dóra bætt ýmsum tilbrigðum við sama þemað, þannig að úr er orðin heil vörulína. „Já, ég geri þetta allt saman sjálf,“ segir hún, „hanna, sníð og sauma að öllu leyti.“ Heimasíða er í vændum en hægt er að skoða vörunar og panta á Facebook-síðunni Icelandic Eiderdown Design. Og svo má auðvitað hafa samband við Dóru í síma 893 2928.
Dóra hefur farið um allt Vesturland og kynnt dúnskjólin sín, svo sem á Akranesi, í Borgarnesi, Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi, fyrir utan Reykhóla og Skriðuland. Nú þegar er frágengið að í sumar verða vörurnar hennar til sölu í Landnámssetrinu í Borgarnesi, Átthagastofu í Ólafsvík, Æðarsetrinu í Stykkishólmi og á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum.
Hér fylgja nokkrar myndir af dúnskjólum Dóru. Miklu fleiri er að finna á Facebook-síðunni.
► 9. mars 2012 Dún-heilsuskjól: Fékk hugmyndina eftir heilaskurð