Tenglar

23. júní 2016 |

EM: Af Jóni Daða og Emil Hallfreðssyni

Jón Daði fagnar markinu gegn Austurríki í gær. Clive Mason / Getty Images.
Jón Daði fagnar markinu gegn Austurríki í gær. Clive Mason / Getty Images.
1 af 2

Jón Daði Böðvarsson skoraði fyrra mark íslenska landsliðsins í sigrinum á Austurríkismönnum á Stade de France, þjóðarleikvangi Frakka í París í gær, snyrtilegt mark í þröngri stöðu – ef einhver skyldi nú ekki vita það! Áður hefur hér á Reykhólavefnum verið greint frá rótum Jóns Daða í Reykhólasveitinni og fjallað ítarlega um hann, en sjaldan er góð vísa of oft kveðin.

 

Móðir hans er Ingibjörg Erna Sveinsdóttir frá Miðhúsum skammt frá Reykhólum, dóttir Ólínu Jónsdóttur og Sveins heitins Guðmundssonar bónda og kennara. Faðir hans er Böðvar Bjarki Þorsteinsson, sonur Ástu Sigurðardóttur rithöfundar og ljóðskáldsins Þorsteins frá Hamri.

 

Jón Daði stimplaði sig með glæsibrag inn í A-landslið Íslands í fótbolta þegar 3-0 sigur vannst á Tyrkjum haustið 2014 og skoraði auk þess fyrsta markið. Það var fyrsti „alvöru“ landsleikur þessa unga manns.

 

Hann var ekki mikið með í æfingaleikjum landsliðsins fyrir mótið í Frakklandi, þar sem þeir Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson voru að prófa stóran hóp leikmanna, en hefur verið fastamaður í byrjunarliðinu í leikjunum á EM. Jón Daði er mjög vinnusamur leikmaður, hefur mikla yfirferð um allan völl og hefur verið líkt við Duracell-kanínuna frægu sem alltaf heldur áfram.

 

Jón Daði varð 24 ára fyrir mánuði. Hann er hávaxinn (1,90) og léttbyggður. Hann hefur verið í atvinnumennsku ytra í þrjú ár, fyrstu tvö tímabilin hjá Víkingi í Stavangri í Noregi en núna hjá Kaiserslautern í Þýskalandi.

 

Hann var sagður skapstór leikmaður á ungum aldri og bannaði móður sinni lengi vel að mæta á völlinn. „Hann bað mig vinsamlegast að vera ekkert á vellinum því ég gargaði svo hátt að honum fannst ég vera honum til skammar, það var ekki fyrr en hann varð eldri að ég mátti mæta á völlinn,“ sagði Ingibjörg Erna móðir hans.

 

Hver er þessi Jón Daði sem kom eins og þruma? (Reykhólavefurinn 14. sept. 2014).

 

Jón Daði bannaði móður sinni að mæta á völlinn (Reykhólavefurinn 13. apríl 2016).

 

Annar leikmaður með rætur í héraðinu og talsvert eldri og reyndari hefur ekki verið í byrjunarliðinu á EM en kom inn á fyrir Aron Einar Gunnarsson fyrirliða í seinni hálfleik í jafnteflisleiknum við Ungverja. Það er örvfætti miðjumaðurinn Emil Hallfreðsson (1,86 á hæð, 32 ára eftir nokkra daga). Hann hefur verið í atvinnumennsku erlendis í rúman áratug, síðustu fimm árin á Ítalíu, fyrst hjá Verona í annarri deild en núna hjá Udinese í efstu deild. Udine á Norður-Ítalíu er smábær eins og Kaiserslautern þar sem Jón Daði spilar. Í hvorum bæ eru íbúarnir rétt um hundrað þúsund eða nokkru færri en í Reykjavík, stærsta bænum á Íslandi.

 

Afi Emils og alnafni var Emil Hallfreðsson (1916-2000), sem fæddur var og uppalinn á Bakka í Geiradal. Árið 1962 stofnaði hann nýbýlið Stekkjarholt út úr Bakka og bjó þar uns hann fluttist suður. Um Emil Hallfreðsson yngra hefur líka verið fjallað ítarlega hér á Reykhólavefnum.

 

Emil Hallfreðsson eldri var bóndi í Geiradal (Reykhólavefurinn 18. sept. 2014).

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Nvember 2024 »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30