Tenglar

27. janúar 2013 | vefstjori@reykholar.is

Eða kunna þeir ekki að skammast sín?

Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn.
Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn.

„Í viðtali sem blaðamaður BB á Ísafirði átti við mig lét ég þess getið, að mér þættu þær hugmyndir sem stundum hafa verið bornar á borð af fólki sem vill láta taka mark á sér, að gera tófuna að einkennisdýri landsfjórðungsins, ekki bera vott um mikla þekkingu á þessum vandræðavargi eða metnað viðkomandi fyrir hönd okkar Vestfirðinga,“ segir Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn í Ísafjarðardjúpi. „Að beiðni Reykhólavefjarins féllst ég á að gera aðeins nánari grein fyrir mínum viðhorfum varðandi þessa fáránlegu hugmynd eða hugdettu.“

 

Síðan segir Indriði:

 

„Tófan er miskunnarlaust skaðræðiskvikindi, það vitum við best sem séð höfum lifandi kindur með snoppuna brudda upp að augum eftir hana, komið að greni í urðarhól, gráu tilsýndar af lambaræflum, talið á annan tug þrastarunga út úr kjaftinum á skotinni grenlæðu eða séð verulegt kríuvarp hreinsað upp á tveim til þremur vornóttum.

 

Mófuglar eru algerlega uppurnir í Hornstrandafriðlandi og síðan allt að Mórillu í Kaldalóni. Á þessu víðáttumikla svæði hefur ríkisvaldið af heimsku sinni og líffræðingameðvirkni kæft raddir vorsins og lyft á stall í staðinn tófugrenji, gaggi og góli.

 

Rjúpan er nánast þurrkuð út af völdum refaplágunnar að norðan. Æðarbændur þurfa að verja vörpin allan sólarhringinn í fimm til sex vikur. Mestu varpjarðir Íslands eru hér um slóðir, svo sem Æðey, Vigur og Mýrar í Dýrafirði og margar, margar fleiri.

 

Er alveg gróið fyrir vitin á þessum einkennisdýrahugmyndasmiðum, eða kunna þeir ekki að skammast sín?

 

Í áðurnefndu viðtali í BB nefndi ég, að ef fólk væri að skyggnast um eftir einkennisdýri fyrir Vestfirðinga væri sauðkindin þar sjálfsögð sem langmesta nytjaskepna fjórðungsins. Hér er hvergi beitarlandaníðsla, hér eru bestu sumarhagar landsins og hér á kjálkanum er mikill fjöldi framúrskarandi fjárbænda, enda koma fjárbændur úr öðrum landshlutum í hundraðatali á hverju hausti að sækja sér hingað kynbótalömb.“

 

► bb.is 26.01.2013 Melrakkinn ekki einkennisdýr Vestfjarða (miklar umræður þar fyrir neðan)

 

Hér væru andmæli og önnur sjónarmið vel þegin.

 

Athugasemdir

Ingi B Jónasson, sunnudagur 27 janar kl: 16:07

góð grein sem ætti að dreifa um alt !

Sveinn Ingi, mnudagur 28 janar kl: 08:29

Hvað skyldi tófan éta þegar hún er búin að drepa og eyða öllu lífi? Panta pizzu? Svona ýkjur eru ekki vænlegar til vitrænnar umræðu.

Guðbrandur Sverrisson, mnudagur 28 janar kl: 23:30

Það er satt ekki er vænlegt til vitrænnar umræðu að verða viðskila við brjóstvitið, en tófan pantar sjálfsagt ekki pizzu þó hún kannski hirði hana ef ekki annað er að hafa, en líklega skilja flestir að tófan reynir að bjarga sér eins og aðrir þegar fæða er ekki lengur til þar sem hún var uppalin hún einfaldlega færir sig um set og það hafa þær ávalt gert þær hanga ekki á útbrunnu óðali til að drepast úr sulti
og kannski er það þess vegna sem þorvaldur G skaut á annað hundrað tófur síðasta vetur í strandabyggð og nágrenni og hann var ekki einn um að veiða tófur á því svæði og varla hafa allar alist upp þar þá hafa grenin verið nokkuð þétt, því einhver gren voru nú unnin þar

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31