9. febrúar 2011 |
Ef til vill sláturhús í Reykhólahreppi á ný?
Formaður samtakanna Beint frá býli, Guðmundur Jón Guðmundsson, segir í samtali við mbl.is að sláturkostnaður hafi hækkað það mikið á síðustu tveimur árum, að það sé orðið raunhæfur kostur að koma upp litlum sláturhúsum hér á landi. Færanleg sláturhús (bíll) séu hins vegar ekki fýsilegur kostur vegna lítilla afkasta og mikils stofnkostnaðar. Öll sláturhús á Vestfjarðakjálkanum eru úr sögunni, þar á meðal sláturhúsið í Króksfjarðarnesi. Í staðinn er féð kasað í flutningabíla og sent norður í land til slátrunar.
Samtökin Beint frá býli hafa látið gera skýrslu um sláturkostnað hér á landi. Þar kemur fram, að ekki hafi fengist upplýsingar hjá sláturhúsunum um það hvernig kostnaður við slátrun er myndaður.
Í skýrslunni segir að kostnaður við slátrun sem gefinn er upp á heimasíðum afurðastöðva hafi hækkað um 50% frá árinu 2008 til ársins 2010. Dæmi séu um að verð á kjötsögun hafi hækkað um 100% á tveimur árum.
„Lítil sláturhús virðast eftir þessar hækkanir allar að verða raunhæfur valkostur, ekki síst í ljósi þess að sláturkostnaður sem hlutfall af verðmæti virðist vera óeðlilega hár hér á landi“, segir í skýrslunni.
Björn Finnbogason, fimmtudagur 10 febrar kl: 00:32
Að vera öðruvísi! Það er grunnurinn! :-D