Efnilegur handboltamaður frá Reykhólum
Gestur Ólafur Ingvarsson frá Reykhólum er farinn að spila í meistaraflokki Aftureldingar í Mosfellsbæ í handbolta þó að hann sé aðeins sautján ára og verði ekki átján ára fyrr en eftir nærri hálft ár, en handboltalið Aftureldingar hefur sjaldan verið sterkara en einmitt núna. Liðið er á toppi 1. deildar, hefur unnið alla þrettán leiki sína í deildinni til þessa og stefnir með sama áframhaldi hraðbyri upp í úrvalsdeild á næsta leiktímabili. Einnig er liðið komið í undanúrslit í bikarkeppninni eftir sigur á ÍBV sem er í næstefsta sæti úrvalsdeildar.
Foreldrar Gests eru Sólrún Ósk Gestsdóttir og Ingvar Samúelsson matráður í mötuneyti Reykhólahrepps. Pilturinn ungi hefur iðkað handbolta frá ellefu ára aldri eða frá því að hann fluttist í Mosfellsbæinn til móður sinnar. Hann spilar í stöðu hægri hornamanns og hefur verið iðinn í markaskoruninni í yngri flokkunum hjá Aftureldingu, hefur skorað allt upp í fjórtán mörk í leik. Hann stundar nám við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.
Svo sérkennilega vill til, að Gestur hefur stundað íþróttir með Umf. Aftureldingu allt frá barnsaldri þó að þar sé alls ekki um sama félagið að ræða. Umf. Afturelding í Mosfellssveit (nú Mosfellsbæ) var stofnað árið 1909 en Umf. Afturelding í Reykhólasveit árið 1924. Núna spannar félagið allan Reykhólahrepp í núverandi mynd eða alla Austur-Barðastrandarsýslu en fyrrum voru fleiri ungmennafélög á því svæði meðan hrepparnir voru miklu fleiri og sýslan fjölbyggðari en á síðari árum.
Eyvindur, fimmtudagur 13 febrar kl: 07:42
Flottur strákurinn og skotfastur með eindæmum.