Tenglar

9. maí 2016 |

Efnismikið ársrit Breiðfirðingafélagsins komið út

Breiðfirðingur, ársrit Breiðfirðingafélagsins, kom út í gær og var kynntur til leiks í mannfagnaði í Breiðfirðingabúð. Þetta er 64. árgangur Breiðfirðings, en annar árgangurinn undir ritstjórn Svavars Gestssonar eftir að ritið var vakið af blundi. Í fyrra var orðið Nýr haft fyrir framan heitið en núna þarf þess ekki lengur. Hefti þetta er hin veglegasta bók, á þriðja hundrað síður með fjölda mynda. Í inngangsorðum gerir Svavar skilmerkilega grein fyrir efni ritsins og fara þau hér á eftir.

 

Mættur á svæðið

Hér birtist Breiðfirðingur á ný með margvíslegu skemmtilegu og fróðlegu efni.

 

Vesturbyggð

Fyrsti hluti ritsins og sá fyrirferðarmesti fjallar um Vesturbyggð. Það er Kristín Einarsdóttir kennari frá Seftjörn á Barðaströnd sem á heiðurinn af því að hafa safnað þessu efni saman. Þarna eru tvær myndarlegar greinar eftir þá bræður Úlfar og Ólaf Thoroddsen. Þá eru í þessum hluta fróðlegar greinar eftir Sigurjón Bjarnason og Elvu Björgu Einarsdóttur. Þá er einkar athyglisverð samantekt eftir Björgu Þórðardóttur, sem er elsti höfundur ritsins. Kaflinn um Vesturbyggð hefst að sjálfsögðu með viðtali við bæjarstjórann Ásthildi Sturludóttur, þar sem margt kemur fram um vanda byggðarlaga í dreifbýli.

 

Reykhólasveit – Austur-Barðastrandarsýsla

Næsti kafli ritsins er úr Reykhólasveit eða Austur-Barðastrandarsýslu. Þar er merk grein fremst eftir Kjartan Ólafsson ritstjóra þar sem hann skrifar um Kitta á Seli. Í greininni kemur fram að frumkveikjan að hugmyndinni um Bjart í Sumarhúsum varð einmitt til þegar Halldór Guðjónsson frá Laxnesi gisti á Seli kornungur maður. Kjartan Ólafsson hefur skrifað saman fleira um Vestfirði en flestir aðrir menn. Með grein þessari er mynd af Kitta og þakka ég Ingu Láru Baldvinsdóttur fyrir að lána okkur myndina. Þá er í þessum hluta fjallað um Þörungaverksmiðjuna á Reykhólum og þessum þætti fylgja nokkrar myndir frá Reykhólum sem ljósmyndari Breiðfirðings, Haukur Már Haraldsson, tók er við vorum á ferð vestra síðastliðið haust. Bergsveinn Birgisson er einn athyglisverðasti rithöfundur síðari ára í þessu landi. Í haust kom út saga Geirmundar heljarskinns. Í Breiðfirðingi nú birtist samantekt Bergsveins þar sem hann rýnir í heimildir um Geirmund. Þetta er mögnuð grein og færir Breiðfirðingur Bergsveini sérstakar þakkir fyrir þessi skrif.

 

Dalabyggð

Næsti kafli er um Dalina. Þar er aðalhlutinn úr myndatökuferð okkar Hauks Más vestur í Dali síðastliðið haust. Þá skrifar Tómas R. Einarsson tónlistarmaður grein um pabba sinn Einar Kristjánsson, sem var lengi ritstjóri Breiðfirðings, skólastjóri á Laugum í Sælingsdal og var sannarlega einn af fremstu félagsmálaleiðtogum Dalamanna.

 

Snæfellsnes

Í kaflanum um Snæfellsnes er grein Þórs Magnússonar fyrrv. þjóðminjavarðar og C.W. Eckersbergs dýralæknis og guðfræðings, Merk altaristafla. Greinin er um eitt fremsta stolt byggðanna á Snæfellsnesi, sem er altaristaflan í kirkjunni að Bjarnarhöfn. Þá er í þessum hluta grein um Skúla Alexandersson sem lést á síðasta ári, en Óskar Guðmundsson höfundur greinarinnar skrifaði skemmtilega bók um Skúla sem kom út fyrir jólin. Skúli skrifaði reyndar í Breiðfirðing fyrir nokkrum árum grein um Lárus Skúlason og Skúli var alltaf góður vinur Breiðfirðings. Loks er í þessum hluta ritsins mögnuð skólaminning úr skólanum að Skildi ofan við Stykkishólm.

 

3009 eyjar og 1275 sker

Í ritinu í fyrra var saga Breiðafjarðar hinn fræðilegi hluti ritsins. Að þessu sinni er það náttúra Breiðafjarðar. Við söfnun efnis nutum við velvildar og stuðnings forstjóra Náttúrufræðistofnunar, Jóns Gunnars Ottóssonar. Þarna er grein eftir Trausta Baldursson um Alþjóðasamninga um náttúruvernd og Breiðafjörð. Svo er fjallað um fuglalíf í merkri grein eftir Ævar Petersen. Það sem mun þó ekki síst vekja athygli er viðtal við Þorvald Björnsson sem hefur talið eyjar og sker á Breiðafirði og hefur skráð líf í þeim, nöfn þeirra og nytjar. Þessi þáttur ritsins á eftir að vekja mikla athygli.

 

__________________

 

 

Fyrsta heftið af Nýjum Breiðfirðingi kom út fyrir ári og skiptist í fjóra hluta.

  • Í fyrsta hlutanum er almenn samantekt um sveitarfélögin átta kringum Breiðafjörð. Ef til vill hafa einhverjir hnotið þar um Tálknafjarðarhrepp, sem liggur ekki að Breiðafirði. Ástæðan er sú, að Vesturbyggð umlykur Tálknafjörð og teygir sig norður fyrir hann.
  • Annar hlutinn er sagnfræðihluti ritsins og skrifa þar átta sagnfræðingar um Breiðafjörðinn. Það tengist verkefni sem unnið var við Háskóla Íslands um sögu Breiðafjarðar undir stjórn Sverris Jakobssonar prófessors, sem á ættir að rekja meðal annars í Breiðafjarðareyjar.
  • Í þriðja hlutanum er fjallað um Stykkishólm, en hverju hefti er valið eitt kjarnabyggðarlag. Eins og áður sagði verða Vesturbyggð gerð skil með sama hætti í því hefti sem er unnið að núna.
  • Fjórði og síðasti hluti samanstendur af alls kyns efni víðs vegar af svæðinu. Meðal annars er þar fjallað um ástarbréf sem skáldið Steinn Steinarr skrifaði árið 1931 (Þórhildur, ég elska þig). 

Þetta fyrsta hefti af Nýjum Breiðfirðingi hlaut einstaklega góðar viðtökur og prenta þurfti annað upplag.

 

 

Núna er þegar byrjað að leggja drög að efni þriðja heftis, sem kemur út að ári. Allar ábendingar frá lesendum eru vel þegnar. Best er að senda ábendingar í netföngin bf@bf.is og gestsson.svavar@gmail.com, merkt Breiðfirðingur. Ábendingar má líka senda í pósti á Svavar Gestsson, Mávahlíð 30, 105 Reykjavík.

 

Athugasemdir

Ástþór, mnudagur 09 ma kl: 12:04

Hvar er hægt að kaupa þetta?

hþm, mnudagur 09 ma kl: 17:54

Hafðu samband við Breiðfirðingafélagið eða Svavar (netföngin neðst í textanum).

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31