Tenglar

7. júní 2022 | Sveinn Ragnarsson

Eftirminnilegur afmælisdagur

1 af 4

Núna í byrjun mánaðarins, þann 1. átti Baldvin Smárason bóndi á Bakka fertugsafmæli. Vitandi að allt er fertugum fært ákvað hann að verja deginum í að plægja spildu innar í dalnum, töluverðan spöl frá bænum.

Það byrjaði nú ekki sérlega vel, þegar hann var að fara til að dæla olíu á traktorinn kemur hann auga á dauða kind sem hann átti og var dánarorsök ókunn.

 

Þegar Baldvin var um það bil hálfnaður að plægja tekur hann eftir að það rýkur undan vélarhlífinni á traktornum og hann snarast út til að athuga hverju þetta sæti. Þá er farið að loga undir húsinu og eykst hratt. Þegar hann ætlar að hringja í neyðarlínuna áttar hann sig á að síminn er inni í vélinni og eldurinn hafði magnast það mikið að hann ákvað að reyna ekki að ná í símann.

 

Hann hljóp af stað heim og var ekki kominn marga tugi metra þegar húsið á traktornum var orðið alelda.

Þegar slökkviliðið kom var mest allt brunnið sem brunnið gat og gekk greiðlega að slökkva, eldur hafði borist í sinu en nógu mikill raki var í jörðinni svo auðvelt var að ráða við það.

Sem eðlilegt var þótti Baldvin þetta ekki ákjósanlegur endir á afmælisdeginum en bar sig samt vel.

 

Því má svo bæta við þessa sögu að Árný Huld, kona Baldvins, hafði án hans vitundar undirbúið veislu sem haldin var í íþróttasalnum á Reykhólum helgina á eftir og boðið þangað vinum og fjölskyldum.

Þegar átti að plata hann undir einhverju yfirskini út að Reykhólum í veisluna, þá finnst ekki Baldvin.. (þið munið að síminn hans brann í traktornum) en hann hafði þá bara skotist yfir að Brekku, grunlaus um að nokkuð merkilegt stæði til. Hann varð svo bæði hissa og glaður þegar hann hitti veislugestina og líka hissa á að krakkarnir þeirra skyldu geta haldið þessu leyndu.

 

 

Athugasemdir

Simon Petur, fstudagur 10 jn kl: 20:33

Reykmerki hefði semsagt dugað til að lokka hann til veislu.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31