Tenglar

2. apríl 2014 | vefstjori@reykholar.is

Eftirspurn eftir mjólkurkvóta hríðfellur

„Það kemur ekki á óvart að eftirspurnin skuli minnka,“ segir Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda, í samtali við Morgunblaðið í dag. Verð á greiðslumarki lækkaði um 60 krónur á tilboðsmarkaði Matvælastofnunar vegna lítillar eftirspurnar eftir kaupum á kvóta. Stofnunin stendur fyrir tilboðsmarkaði fyrir greiðslumark í mjólk og fara þar fram einu kvótaviðskiptin á milli óskyldra.

 

Frá ársbyrjun 2011 hefur verið mikil umframeftirspurn eftir kvóta á tilboðsmarkaðnum og þeir sem hafa viljað auka framleiðsluna hafa ekki fengið það sem þeir vilja nema bjóða hátt. Á fyrsta uppboðinu, í desember 2010, var útreikningur jafnvægisverðs sem viðskiptin miðast við 280 krónur á lítrann. Það hækkaði við hvert uppboð og var komið í 320 kr. á síðasta ári. Á tilboðsmarkaðnum nú varð alger viðsnúningur því verðið lækkaði um 60 krónur, niður í 260 krónur.

 

Sem skýringu á stöðunni á tilboðsmarkaðnum nú nefnir Sigurður, að greiðslumarkið hafi aukist gríðarlega vegna aukinnar sölu á mjólk. Margir eigi fullt í fangi með að framleiða upp í kvótann. Við það bætist að ákveðið hafi verið að fjölga tilboðsdögum þannig að bændur eigi annað tækifæri í haust til að kaupa. „Menn vilji væntanlega sjá hvernig framleiðslan þróast áður en þeir fara í mikil kvótakaup,“ segir Sigurður.

 

Mjólkursamsalan hefur hvatt bændur til að auka framleiðsluna og kaupir alla mjólk á fullu afurðastöðvaverði, hvort sem hún er innan eða utan kvóta. Á föstudag var því lýst yfir að öll mjólk yrði keypt á fullu verði út næsta ár. Sigurður bendir á að sú yfirlýsing hafi komið eftir að menn hafi verið búnir að skila inn tilboðum á markaðnum.

 

- Kaflar úr Baksviðsgrein Helga Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31