Tenglar

24. mars 2016 |

Eftirspurnin kom þegar þarinn bættist við

1 af 2

Eydís Mary Jónsdóttir stendur ásamt móður sinni og móðurbróður að sprotafyrirtækinu Zeto, sem hlaut á dögunum þriðja sætið í keppninni um Gulleggið, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Zeto hyggst setja á markað húðvörur úr þaraþykkni sem verður framleitt sérstaklega hjá Þörungaverksmiðjunni á Reykhólum.

 

Ítarlegt viðtal við Eydísi er í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag undir fyrirsögninni hér að ofan. Þar segir meðal annars:

 

Saga Zeto byrjaði fyrir 11 árum. „Þá komst ég að því að strákurinn minn var með ofnæmi fyrir parabenum, sem eru rotvarnarefni sem finna má í flestum fljótandi húðvörum, hvort sem um er að ræða sápur, krem, sjampó eða sólarvörn. Vegna ofnæmisins varð ég að lesa mjög vandlega innihaldslýsinguna á öllu því sem við notuðum á hann, og fór að fræðast um efni í húðvörum almennt. Komst ég að því að margt af því sem leynist í flöskunum og túbunum á ekkert heima á líkamanum okkar. Ég hóf leitina að góðum vörum með réttum innihaldsefnum en uppgötvaði að framboðið var takmarkað, svo þetta endaði með því að mamma fór að gera krem og sápur fyrir okkur,“ segir Eydís.

 

Fyrir um fimm árum lauk Eydís námi í land- og umhverfisfræði og hóf störf hjá Náttúrustofu Suðvesturlands. Þar fólst vinna hennar meðal annars í kortlagningu vistgerða í fjörunum á svæðinu, og beindist athygli hennar fljótlega að þörungategundunum.

 

„Ég byrjaði að skoða þetta áhugaverða hráefni og prófaði mismunandi þörunga bæði í matargerð og líka í þarabað. Á sama tíma kemst ég að því í jólaboði fjölskyldunar, að Steindór frændi var að þróa þörungaþykkni fyrir matvælaiðnað í samvinnu við Háskólann á Akureyri og fékk hjá honum prufu.“

 

Undraefni í fjörunni

 

Lá beinast við að blanda þaraþykkni út í húðvörurnar sem þegar var verið að framleiða við eldhúsborðið heima. Fram að þessu hafði fjölskyldan haft það fyrir sið að gefa vinum og vandamönnum ættingjum sápur og krem í jólagjöf, og leyfa fjölskylduvinum að prufa vöruna.

 

„Eftir að við skiptum vatni út fyrir þaraþykkni í vörunum byrjuðum við að finna fyrir mikilli eftirspurn eftir þeim. Þeir sem höfðu fengið að reyna áhrifin komu til baka og báðu um meira. Fór svo að þau jólin var ekkert eftir til að gefa í jólagjafir.“

 

Eydís segir þarann merkilegt og vannýtt hráefni. Megi þakka þaranum að forfeður okkar gátu haldið í sér lífinu, enda góð lækning við skyrbjúg, og þarinn nýtanlegur sem eldiviður, salt og fæða fyrir bæði fólk og skepnur.

 

„Við eigum enga landplöntu sem er jafn rík af steinefnum, vítamínum, aminósýrum, andoxunarefnum og fjölda annara lífvirkra efna, sem er vísindalega sannað að eru m.a. græðandi, mýkjandi, bæta efnaskipti, hafa andoxunareiginleika, hjálpa til við uppbyggingu kollagens, hægja á öldrun húðarinnar, koma í veg fyrir myndun öra, verja húðina gegn ljósöldrun bólgueyðandi, hafa vírus-, bakteríu- og sveppahamlandi eiginleika og hægja á vexti krabbameinsfrumna. Þarinn hjálpar þannig til við að byggja upp heilbrigt vistkerfi húðarinnar.“

 

Þaraþykknið sem Zeto notar verður sérframleitt hjá Þörungavinnslunni á Reykhólum og standa yfir samningaviðræður við fleiri samstarfsaðila. Mun PharmActica á Grenivík framleiða kremin og pakka þeim inn, en Sælusápur gera sápulínu Zeto. Fer allt af stað þegar nægileg fjármögnun hefur fengist.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31