Egill Helgason: Flatey er magískur staður
Við dvöldum nokkra daga í Flatey á Breiðafirði. Það var sumarblíða – óvíða eru sumarnæturnar fegurri en í Breiðafjarðareyjum. Þetta er eyja sem er full af sögum og menningu. Þarna er gamla þorpið með sínum húsum sem hafa verið fallega uppgerð. Hinum megin á eyjunni stendur yfir viðgerð á frystihúsinu, þar er starfrækt hin afar menningarlega Bryggjubúð.
Þannig hefst frásagnarkorn sem Egill Helgason (Silfur Egils) skrifaði á vefsíðuna sína í gær um Flatey á Breiðafirði, eitt af djásnum Reykhólahrepps, undir fyrirsögninni Sumardagar í Flatey. Niðurlagsorð Egils eru þessi:
Flatey er magískur staður. Að sumu leyti er hann eins og íslenska útgáfan af grísku eyjunni Folegandros þar sem ég dvel oft. Á báðum stöðum ríkir einkennilegt tímaleysi. Eyjalífið heillar.