Tenglar

27. maí 2010 |

Egill, Karl og Rebekka skorast undan endurkjöri

Egill Sigurgeirsson, Karl Kristjánsson og Rebekka Eiríksdóttir, sem öll eiga sæti í fráfarandi hreppsnefnd Reykhólahrepps, gefa ekki kost á sér á ný við kosningarnar á laugardag eins og réttur þeirra er við óbundnar kosningar. Þetta kemur fram í auglýsingu frá kjörstjórn í Reykhólahreppi. Fimm manns eru kosnir í hreppsnefnd og fimm til vara. Áhersla er á það lögð að nöfn séu greinilega skrifuð á atkvæðaseðilinn en atkvæði skal ekki metið ógilt þó að sleppt sé fornafni eða eftirnafni, ef greinilegt er, eftir sem áður, við hvern er átt. Í auglýsingu kjörstjórnar eru kjósendur jafnframt minntir á, að gott er að hafa ákveðið sig fyrirfram og koma jafnvel með tilbúinn nafnalista með sér á kjörstað, þar sem slíkt flýtir fyrir kosningu.

 

Eins og áður kom fram eru kosningar í Reykhólahreppi eru óbundnar (ekki listakosning) og kosning þannig ekki bundin við framboð. Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrirfram skorast undan því.

 

Kjördeild fyrir Reykhólahrepp verður í Bjarkalundi. Kjörfundur hefst kl. 9 og stendur til kl. 18. Kjörstjórn gerir ráð fyrir að talning atkvæða fari fram strax og kjörfundi lýkur og gengið hefur verið  frá gögnum til talningar.

  
Sjá hér auglýsingu kjörstjórnar í Reykhólahreppi í heild, en hún er birt í dálkinum Tilkynningar hér neðst til hægri á vefnum.

 

Athugasemdir

Kjósandi í Reykhólahreppi, fimmtudagur 27 ma kl: 14:57

Er skylda að skrifa fimm nöfn á kjörseðilinn? Eða er nóg að skrifa jafnvel bara eitt eða tvö?

Lagagreinar um kosningarnarnar, fimmtudagur 27 ma kl: 20:55

Úr því að enginn hefur hingað til svarað þessu skal hér vitnað í Lög um kosningar til sveitarstjórna nr. 5, 6. mars 1998. Tekið skal fram, að svarandi hefur ekkert umboð til svara á þessum vettvangi heldur klippir hér einungis út greinar úr gildandi lögum.

18. gr. Þeim sem er kjörgengur, heill og hraustur og yngri en 65 ára er skylt að taka kjöri í sveitarstjórn. Ekki verður nafn manns þó sett á framboðslista án skriflegs samþykkis hans.

Þeim sem setið hefur í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur er ekki skylt að taka kjöri fyrr en liðinn er jafnlangur tími og hann átti þar samfellt sæti síðast, enda tilkynni hann yfirkjörstjórn fyrir lok framboðsfrests að hann skorist undan endurkjöri.

19. gr. Fulltrúar í sveitarstjórnum skulu kjörnir í leynilegum almennum kosningum sem geta verið með tvennu móti:

a. Bundnar hlutfallskosningar þar sem kosning er bundin við framboð á listum og fulltrúar á hverjum lista ná kjöri í hlutfalli við það atkvæðamagn sem listinn fær.
b. Óbundnar kosningar þar sem kosning er ekki bundin við framboð en allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því.

38. gr. Ef um óbundnar kosningar er að ræða skal kjörseðill vera tvískiptur. Efri hluti kjörseðils skal ætlaður fyrir nöfn og heimilisföng aðalmanna en neðri hluti hans fyrir nöfn og heimilisföng varamanna. Á neðri hluta kjörseðils skal vera töluröð miðuð við fjölda þeirra sem kjósa á.

59. gr. Atkvæðagreiðsla við óbundnar kosningar fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar í kjörklefa á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.

Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal hann rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.

Lagagreinar, frh., fimmtudagur 27 ma kl: 21:06

Af þessu verður naumast annað ráðið en í Reykhólahreppi, þar sem fimm skipa hreppsnefnd, skuli á kjörseðil skrifa tíu fullgild nöfn, þ.e. fimm aðalmanna og fimm varamanna, samtals tíu. Að öðrum kosti, a.m.k. þangað önnur túlkun kemur fram, má ætla að kjörseðill sé ógildur. Orðið „skal“ í lögum verður varla misskilið.

Hlynur Þór Magnússon, fstudagur 28 ma kl: 13:59

Jafnvel aðeins eitt nafn nægir. Sjá nánar svar frá skrifstofustjóra í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu í nýrri frétt hér á vefnum.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31