27. maí 2010 |
Egill, Karl og Rebekka skorast undan endurkjöri
Egill Sigurgeirsson, Karl Kristjánsson og Rebekka Eiríksdóttir, sem öll eiga sæti í fráfarandi hreppsnefnd Reykhólahrepps, gefa ekki kost á sér á ný við kosningarnar á laugardag eins og réttur þeirra er við óbundnar kosningar. Þetta kemur fram í auglýsingu frá kjörstjórn í Reykhólahreppi. Fimm manns eru kosnir í hreppsnefnd og fimm til vara. Áhersla er á það lögð að nöfn séu greinilega skrifuð á atkvæðaseðilinn en atkvæði skal ekki metið ógilt þó að sleppt sé fornafni eða eftirnafni, ef greinilegt er, eftir sem áður, við hvern er átt. Í auglýsingu kjörstjórnar eru kjósendur jafnframt minntir á, að gott er að hafa ákveðið sig fyrirfram og koma jafnvel með tilbúinn nafnalista með sér á kjörstað, þar sem slíkt flýtir fyrir kosningu.
Eins og áður kom fram eru kosningar í Reykhólahreppi eru óbundnar (ekki listakosning) og kosning þannig ekki bundin við framboð. Allir kjósendur eru í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrirfram skorast undan því.
Kjördeild fyrir Reykhólahrepp verður í Bjarkalundi. Kjörfundur hefst kl. 9 og stendur til kl. 18. Kjörstjórn gerir ráð fyrir að talning atkvæða fari fram strax og kjörfundi lýkur og gengið hefur verið frá gögnum til talningar.
Sjá hér auglýsingu kjörstjórnar í Reykhólahreppi í heild, en hún er birt í dálkinum Tilkynningar hér neðst til hægri á vefnum.
Kjósandi í Reykhólahreppi, fimmtudagur 27 ma kl: 14:57
Er skylda að skrifa fimm nöfn á kjörseðilinn? Eða er nóg að skrifa jafnvel bara eitt eða tvö?