Tenglar

12. maí 2011 |

Eigið fé OV nærri fimm milljarðar króna

Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. (OV) í árslok 2010 voru 5.637 millj. kr. og heildarskuldir 742 millj. kr. Eigið fé nam því 4.895 millj. kr. sem er 86,8% af heildarfjármagni. Á árinu 2010 var afkoma OV heldur lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagnaður af venjubundnum rekstri fyrir skatta nam 240,4 millj. kr. en þegar tekið er tillit til breytinga á tekjuskattsprósentu og bókfærðs tekjuskatts 2009 er hagnaður ársins 208,3 millj. kr. Þetta kemur fram í ársskýrslu OV sem lögð var fram á aðalfundi fyrirtækisins á mánudag.

 

Orkubú Vestfjarða tók til starfa árið 1978 og var lengi sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og sveitarfélaganna í Vestfjarðakjördæmi. Fyrir tæpum áratug var það komið að fullu í eigu ríkisins. Þorpið á Reykhólum hefur þá sérstöðu meðal vestfirskra byggða, að þar er heitt vatn úr jörðu notað til húshitunar en ekki raforka.

 

Á aðalfundinum voru eftirtalin kjörin í stjórn OV: Viðar Helgason, Reykjavík, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Tálknafirði, Kolbrún Sverrisdóttir, Ísafirði, Viktoría Rán Ólafsdóttir, Hólmavík, og Árni Brynjólfsson, Önundarfirði. Nýkjörin stjórn skipti síðan með sér verkum. Viðar Helgason var kjörinn formaður stjórnar, Kolbrún Sverrisdóttir varaformaður og Viktoría Rán Ólafsdóttir ritari.

 

 

Hér fara á eftir inngangsorð Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra í ársskýrslunni:

 

Orkubú Vestfjarða aflar sér raforku á samkeppnismarkaði og dreifir henni um eitt erfiðasta dreifisvæði landsins. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður er raforkuverð á Vestfjörðum, að meðtöldum flutnings- og dreifingarkostnaði, eitt hið lægsta í landinu. Engu að síður er orkukostnaður heimila og fyrirtækja hærri á Vestfjörðum en víðast annars staðar á landinu, þrátt fyrir lágt rafmagnsverð, og er ástæðan sú að Vestfirðingar hafa ekki aðgang að ódýrari orkugjöfum en rafmagni til húshitunar. Það er mikilvægt að þessi búsetumismunun verði jöfnuð og meira fé renni til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði þar sem ekki er að finna ódýra orkugjafa til húshitunar.

 

Það er talsvert kostnaðarsamara að dreifa raforkunni í dreifbýli heldur en þéttbýli og greiða íbúar í dreifbýli töluvert hærra verð fyrir dreifingu raforkunnar þrátt fyrir niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Það er réttlætismál að þessar niðurgreiðslur verði auknar þannig að raforkuverð verði það sama í þéttbýli og dreifbýli.

 

Árið 2010 varð hagnaður af venjubundnum rekstri Orkubús Vestfjarða sjötta árið í röð. Framleiðsla vatnsaflsvirkjana Orkubúsins var með minna móti sökum þurrka og í flutningskerfum Orkubúsins urðu ekki nein meiri háttar rekstraráföll.

 

Á árinu 2009 voru teknar ákvarðanir um virkjunarframkvæmdir og endurnýjun í Mjólkárvirkjun á árunum 2010 og 2011. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði um 1.000 Mkr. og stefnir Orkubúið að því að fjármagna þær með fé frá rekstri, á næstu þremur árum, þannig að ekki þurfi að taka langtímalán þeirra vegna. Þetta hefur gengið eftir og var ný 1,2 MW virkjun, Mjólká III, tekin í notkun í lok síðasta árs.

 

Á árinu 2010 var 647 Mkr. varið til fjárfestinga, þar af voru tengigjöld og vinna greidd af öðrum 44,6 Mkr. Byggð var við 1,2 MW virkjun. Grafinn var 12 kV jarðstrengur milli aðveitustöðva á Ísafirði og í Bolungarvík. Þessi framkvæmd var hluti samstarfsverkefnis milli Orkubús Vestfjarða, Landsnets, Vegagerðar og Ísafjarðarbæjar. Með þessu opnast möguleiki á 12 kV tengingu milli þessara byggðarkjarna. Í sama skurð fór einnig 66 kV jarðstrengur sem leysir af hólmi gamla loftlínu sem liggur frá Ísafirði, fram Hnífsdal til Bolungarvíkur.

 

Hafist var handa við endurnýjun og þrífösun Barðastrandarlínu með plægingu þriggja fasa jarðstrengs frá Sandodda í Patreksfirði að botni Skápadals. Haldið var áfram endurbótum á Bíldudalslínu vegna fyrirhugaðrar spennuhækkunar. Nýr sæstrengur var lagður yfir Steingrímsfjörð. Ný háspennutenging til Þingeyrar var tekin í notkun. Tvær nýjar spennistöðvar voru teknar í notkun í Óshlíðargöngum og nýr spennir var tekinn í notkun í spennistöð Kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal.

 

Af öðrum framkvæmdum má nefna endurbætur á dreifikerfi raforku í þéttbýli og dreifbýli, stækkun dreifikerfis hitaveitu og endurbyggingu ýmissa aðveitulína. Samið var um kaup á 7 MW vélasamstæðu sem kemur í stað 5,7 MW vélar í Mjólká, jafnframt því sem unnið var að hönnun virkjunarinnar.

 

Allar fjárfestingar voru kostaðar af eigin fé fyrirtækisins eða greiddar af þeim sem þeirra óskuðu.

 

Heildarorkuöflun fyrirtækisins minnkaði um 5% frá fyrra ári og nam alls 236,6 GWh. Eigin orkuvinnsla var 87,1 GWh eða 36,8%, og orkukaup af Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Sængurfossvirkjun, Dalsorku, Tunguvirkjun, Hvestuveitu og Funa voru 149,5 GWh eða 63,2% af heildarorkuöfluninni.

 

Orkusala minnkaði um 5,7 % frá fyrra ári og nam alls 212,7 GWh. Til hitunar voru seldar 140,5 GWh sem eru um 66% af heildarorkusölu fyrirtækisins. Á alla orkusölu, nema húshitun, var lagður 24,5% virðisaukaskattur. Á húshitun var lagður 7% virðisaukaskattur. Af virðisaukaskatti á húshitun voru 63% endurgreidd á veitusvæði Orkubúsins. Álagður skattur á húshitun var því 2,59% nettó.

 

Verðskrár Orkubús Vestfjarða voru hækkaðar 1. janúar, verðskrá fyrir flutning og dreifingu raforku hækkaði um 10% og verðskrá fyrir hitaveitur hækkaði um 8% og verðskrá raforkusölu hækkaði um 6%. Þann 1. ágúst hækkaði verðskrá raforkusölu um 3% og enn um 5,3% 1. október.

 

Á árinu 2010 varð afkoma Orkubús Vestfjarða heldur lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstraráætlun ársins gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði að upphæð 300,5 Mkr. en samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður af venjubundnum rekstri fyrir skatta, sem nam um 240,4 Mkr., en þegar tekið er tillit til breytinga á tekjuskattsprósentu og bókfærðs tekjuskatts 2009 er hagnaður ársins um 208,3 Mkr. Afskriftir námu alls 222,3 Mkr. Eignir Orkubús Vestfjarða ohf. í árslok 2010 voru alls 5.637 Mkr. og heildarskuldir alls 742 Mkr. Eigið fé nam því alls 4.895 Mkr. sem er um 86,8% af heildarfjármagni.

 

Öllu starfsfólki Orkubús Vestfjarða eru þökkuð þeirra góðu störf.

 

- Kristján Haraldsson, orkubússtjóri.

 

 

Ársskýrslu Orkubús Vestfjarða ohf. í heild fyrir árið 2010 má finna hér (pdf).

 

Vefur Orkubús Vestfjarða ohf.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31