Tenglar

25. mars 2009 |

Einhver skerðing líkleg hjá Lífeyrissjóði Vestfirðinga

Tryggingafræðileg úttekt Lífeyrissjóðs Vestfirðinga miðað við síðustu áramót liggur nú fyrir. Eins og hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum hefur orðið töluverð lækkun á eignum sjóðsins. Þær efnahagslegu hamfarir, sem gengið hafa yfir þjóðfélagið, og raunar um heim allan, hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á stofnanir eins og lífeyrissjóði, segir í tilkynningu frá sjóðnum.

 

Undanfarin ár hafa verið lífeyrissjóðunum mjög hagfelld og lífeyrisréttindi sjóðfélaga verið hækkuð verulega umfram verðbólgu um margra ára skeið, segir einnig í tilkynningunni. Lífeyrissréttindi sjóðfélaga í Lífeyrissjóði Vestfirðinga hafa verið hækkað um 22,4% frá árinu 2002 umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Rétt er að halda því til haga, að lífeyrir fylgir ávallt hækkunum á vísitölu neysluverðs og hefur því hækkað um 18,8 % frá 1. janúar 2008, sem er mun meira en laun á almennum vinnumarkaði.

 

Að öllum líkindum er óhjákvæmilegt að skerða lífeyrisréttindi nú, en ekki liggur fyrir hversu mikil sú skerðing verður. Væntanlega munu lífeyrisgreiðslur ekki lækka niður í það sem þær voru í ársbyrjun 2008.

 

Verkefni stjórnar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga er að ávaxta fé sjóðsins sem best og öruggast. Rétt er að benda á, segir í tilkynningunni, að sjóðurinn hefur dreift áhættu sinni mjög mikið undanfarin ár, en ýmsir fjárfestingarkostir sem þóttu áhættulitlir urðu fyrir skakkaföllum í bankahruninu, en ekki má gleyma þeim hagnaði sem sjóðfélagar hafa þegar haft vegna góðrar ávöxtunar undanfarinna ára.

 

Sömuleiðis er hlutverk stjórnar sjóðsins að gæta aðhalds í öllum kostnaði við rekstur hans. Í þeim efnum er mikil aðgæsla höfð, sem kemur fram í ársreikningum undanfarinna ára á heimasíðu sjóðsins, segir einnig í tilkynningunni frá Lífeyrissjóði Vestfirðinga.

 

Í samtali við Svæðisútvarp Vestfjarða sagði Pétur Sigurðsson stjórnarformaður sjóðsins heppnina ekki hafa verið með í fjárfestingum. Bankabréfin sem menn töldu áhættulaus hafi brugðist og sjóðurinn hafi tapað milljörðum í bankahruninu. Rekstrarkostnaður sé í lágmarki hjá sjóðnum og þannig sé forstjórinn til að mynda ekki á bifreið í eigu sjóðsins. Pétur segir sjóðsfélaga eiga heimtingu á að fá tölur um kostnað og þær verði birtar á heimasíðu sjóðsins.

 

Lífeyrissjóður Vestfirðinga

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Desember 2024 »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31