Einn hátíðargestanna var líka á stofnfundinum
Um áttatíu manns sátu hátíðarmálsverðinn í 70 ára afmælisfagnaði Barðstrendingafélagsins í Reykjavík í fyrrakvöld og síðan bættust nokkrir við á ballið. Veislustjóri var Jóhanna Fríða Dalkvist frá Mýrartungu I. Formaður félagsins, Ólína Kristín Jónsdóttir frá Mýrartungu II, flutti samantekt um sögu og starf félagsins og heiðraði sjö manns fyrir störf í þágu þess (sjá nánar hér neðar). Einn félagi á stofnfundinum fyrir 70 árum var mættur á svæðið, en það er Gyða Eyjólfsdóttir frá Gillastöðum.
Tindatríóið flutti nokkur lög við góðar viðtökur, en bræðurnir tveir í tríóinu eru ættaðir frá Deildará. Sýnt var brot úr kvikmynd Barðstrendingafélagsins, Vestureyjar Breiðafjarðar, sem í vikunni var gefin út í tengslum við 70 ára afmælið. Bæði heimafólk og gestir Báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum ættu að kannast við myndina, því að þar hefur hún rúllað undanfarin ár. Núna hefur Ólafur A. Gíslason úr Skáleyjum talað inn á myndina og lýsir hann því sem þar ber fyrir sjónir.
Dregið var í happdrætti áður en dansinn var stiginn. Fyrir honum lék hljómsveit Marinós Björnssonar við góðar undirtektir.
Skemmtilegur siður frá samkomum Barðstrendingafélagsins var endurvakinn í lok fagnaðarins. Þegar síðasta lagi lauk klukkan tvö komu allir út á gólfið, héldust í hendur og sungu: Hvað er svo glatt sem góðra vina fundur ...
„Ég er stolt af afmælisfagnaðinum og því góða fólki sem þangað mætti. Barðstrendingafélagið væri lítils virði ef ekki væri fyrir fólkið sem starfar í því og mætir á viðburði þess. Það er mikils virði að fá að eiga góðar stundir saman, rifja upp gömul kynni og stofna til nýrra. Ég hvet alla brottflutta úr sýslunni til að skrá sig í félagið og nýta það til samverustunda með gömlum og nýjum vinum,“ segir Ólína Kristín Jónsdóttir, formaður félagsins.
Sjö manns fengu á hátíðinni viðurkenningu fyrir óeigingjörn störf í þágu Barðstrendingafélagsins. Þau eru á mynd nr. 10, talið f.v.: Snorri Jóhannesson frá Bæ á Bæjarnesi, Guðrún Hafliðadóttir frá Hafrafelli, Ásta Jónsdóttir frá Deildará, Sæmundur Guðmundsson frá Kvígindisfirði, Gunnlaugur Már Olsen frá Patreksfirði, Helga Játvarðardóttir frá Miðjanesi og Erla Gísladóttir frá Patreksfirði. Hjá þeim standa síðan formaður og varaformaður félagsins, Ólína Kristín Jónsdóttir og Helgi Sæmundsson.
Jóhann Magnús Hafliðason var í fagnaðinum og tók fjölda mynda. Nokkrar þeirra fylgja þessari frétt en miklu fleiri er að finna undir Ljósmyndir, myndasöfn - Myndasyrpur í valmyndinni vinstra megin á síðunni.
Samantekt Ólínu Kristínar um sögu og starf félagsins birtist hér á vefnum á morgun.