Tenglar

5. júlí 2015 |

Einstök blíða á Bátadögum 2015 - urmull mynda

Þetta er auðvitað Jói í Skáleyjum. Myndir: Goddur.
Þetta er auðvitað Jói í Skáleyjum. Myndir: Goddur.
1 af 12

Bæði fólk og bátar hrepptu eins gott veður og hugsast getur í hópsiglingunni á Bátadögum á Breiðafirði í gær, glaðasólskin og hægviðri eins og sjá má á myndunum sem hér fylgja. Lagt var upp frá Staðarhöfn á Reykjanesi um klukkan tíu í gærmorgun og voru fjögur nes heimsótt: Skálmarnes, Svínanes og Bæjarnes í Múlasveit og Skálanes í Gufudalssveit.

 

Hátt í þrjátíu manns nutu blíðunnar á sjö bátum, sem voru súðbyrtu trébátarnir Baldur, Bjargfýlingur, Gustur, Kári, Ólafur og Sindri, og síðan einn öllu hraðskreiðari slöngubátur sem fékk að fylgja með. Hann var nafnlaus en ótækt þótti annað en hann bæri heiti eins og hinir og var hann af skiljanlegum ástæðum nefndur Maddi.

 

Jói í Skáleyjum og Bergljót Aðalsteinsdóttir frá Svínanesi sáu um að fræða fólkið þegar komið var við á nesjunum.

 

Komið var til baka í Staðarhöfn um sexleytið í gærkvöldi. Eftir það var kveikt upp í grillinu. Þá bættist í hópinn, því að yfir fjörutíu manns komu með eitthvað gott á glæðurnar. Veislan var haldin á Báta- og hlunnindasýningunni á Reykhólum.

 

Báturinn Sindri, sem nefndur var, hafði verið í hvíld síðustu árin. Núna á Bátadögum fékk Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum Sindra til eignar og varðveislu, en eigandi hans fram að þessu var Guðmundur Theódórsson frá Laugalandi við Þorskafjörð, sem var meðal þeirra sem fóru í siglinguna. Sá merki bátur Vinfastur fór hins vegar hvergi heldur ákvað hann að verja helginni í rólegheitum á Grundartjörninni rétt ofan við Reykhóla.

 

Bátadagar á Breiðafirði voru núna haldnir áttunda árið í röð. Fyrir þeim standa Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum og Báta- og hlunnindasýningin á Reykhólum.

 

Myndirnar sem hér fylgja tók Goddur (Guðmundur Oddur Magnússon prófessor við Listaháskóla Íslands). Miklu fleiri myndir sem hann tók er að finna undir Ljósmyndir, myndasöfn - myndasyrpur í valmyndinni vinstra megin. Þar eru þær í réttri tímaröð allt frá brottför til heimkomu og frá veislunni á eftir.

 

Sjá varðandi Vinfast, sem hafði það náðugt á Grundartjörninni meðan aðrir ösluðu seltuna:

► 08.06.2008  Lentu í sjónum í reynslusiglingunni

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31