Tenglar

12. ágúst 2016 |

Einstök blíða og mannfjöldi á Ólafsdalshátíð

Helga Björg og Helga Ingibjörg við uppskerustörf á lífrænu Ólafsdalsgrænmeti.
Helga Björg og Helga Ingibjörg við uppskerustörf á lífrænu Ólafsdalsgrænmeti.
1 af 19

Á Ólafsdalshátíðina um síðustu helgi komu líklega eitthvað um 500 manns í blíðskaparveðri. Rútuferð með Soffíu II kringum Gilsfjörð (farin áður en sjálf dagskráin í Ólafsdal hófst) undir leiðsögn Sveins Ragnarssonar á Svarfhóli í Geiradal vakti mikla lukku. Sama má reyndar segja um dagskrána alla og fyrirlestra Þorsteins Sæmundssonar og sr. Gunnars Kristjánssonar (sjá hér neðar) og kynningu Guðrúnar Tryggvadóttur listakonu. Ómar Ragnarsson mætti á mótorskutlu og var aðeins þrjá tíma úr Reykjavík og eyddi þremur lítrum í ferðina (umhverfisvænn í verki). Lína langsokkur lék við hvern sinn fingur og fór í ýmsa leiki við börnin auk þess að syngja fyrir þau.

 

Einstök blíða var í Ólafsdal og því var ísinn frá Erpsstöðum kærkominn og seldist upp. Líka seldust upp þær birgðir sem Beggi á Gróustöðum (Nesskel í Króksfjarðarnesi) kom með af skelfiski. Hestar Hörpu Eiríksdóttur frá Stað í Reykhólasveit voru í stöðugri notkun í þrjá klukkutíma undir stjórn Nóra á Hofsstöðum í Reykhólasveit (Arnórs Ragnarssonar). Handverksmarkaður gekk vel að venju og gómsætt Ólafsdalsgrænmetið rann út. Þá vöktu dráttarvélar Arnórs Grímssonar í Króksfjarðarnesi mikla athygli og ánægju.

 

„Frábær dagur með góðu fólki í fallegu umhverfi,“ segir Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins. Og bætir við: „Ólafsdalsfélagið vill nota tækifærið til að þakka nágrönnunum í Reykhólasveit fyrir þeirra mikilvæga framlag til hátíðarinnar. Það er gott að eiga þá að.“

 

Ýmsir tóku myndirnar sem hér fylgja. Síðasta myndin er reyndar af frétt í dagblaði, birt hér vegna ferðar Soffíu II fyrir Gilsfjörð. Þar kemur fram, að í fyrsta sinn hafi verið farið á bíl kringum Gilsfjörð mánudaginn 20. ágúst 1934.

 

 

______________________________________

 

 

Sr. Gunnar Kristjánsson:

 

Grasið og ljárinn

 

Hugleiðingar um ættboga Ólafsdalshjóna, Guðlaugar og Torfa.

Flutt á Ólafsdalshátíð 6. ágúst 2016. 

 

Við sem höfum ruglað reytum okkar með einhverjum af þeim sívaxandi fjölda sem telst til afkomenda þeirra Torfa Bjarnasonar og Guðlaugar Zakaríasdóttur eigum það sameiginlegt að hafa kynnst fólki sem er afar stolt af ætterni sínu. Það þekki ég ekki aðeins frá tengdamóður minni sem var sonardóttir þeirra sæmdarhjóna heldur mörgum öðrum í Ólafsdalsætt. Kannski fer mörgum eins og mér að geta ekki annað en undrast það mannval, sem hægt og sígandi kemur í ljós í þessari hógværu og hófstilltu fylkingu við nánari kynni. Þar er fólk búið afburða þekkingu og hæfileikum á sviði verkmenningar, hvort sem um er að ræða hárfín spor nálarinnar eða framkvæmdir á aðra og stærri mælikvarða. Þar eru smiðir á dýra málma og fína steina, þar eru listamenn í fremstu röð: ljóðskáld, tónskáld og hæfileikafólk á ýmsum sviðum. En þar eru líka þeir sem náðu aldrei fluginu í hörðum heimi frekar en Íkarus, hin vængjaða, gríska goðsagnarhetja sem ætlaði að fljúga alla leið til sólarinnar, um þá ferð þarf ekki að fjölyrða.

 

Í mínum augum á yfirskriftin Grasið og ljárinn vel við þegar fjallað er um þennan litríka ættboga. Ástæðan er sú að hvort tveggja, grasið og ljárinn, gætu í mínum huga jafnvel verið eins konar yfirskrift þessarar fjölskyldu ef mér leyfist að nálgast málið ekki á vísindalegan hátt heldur öllu heldur tilfinningalegan.

 

I.

 

Ljárinn var í margra augum eins konar tákn hugsjónarbyltingarinnar sem varð hér í Ólafsdal skömmu eftir miðja nítjándu öld. Það þarf engan að undra því að ljárinn var lengi eitt nytsamasta tæki þjóðarinnar. Bændaþjóðfélagið lifði við einfaldan lífsstíl og fábreytta tækni, þar var það mannslíkaminn sem bar þyngstu byrðarnar ásamt þarfasta þjóninum, hestinum. Og til að afla vetrarforðans stóð eitt lítið verkfæri uppúr: ljárinn, sem Jónas Hallgrímsson orti um í Sláttuvísum sjö árum eftir fæðingu Torfa Bjarnasonar.

 

Fellur vel á velli

verkið karli sterkum,

syngur enn á engi

eggjuð spík og rýkur

grasið grænt á mosa,

grundin þýtur undir,

blómin bíða dóminn,

bítur ljár í skára.

 

En ljárinn sem beit í skárann hjá Jónasi var ekki torfaljárinn því að hann kom síðar fram í dagsljósið og var mikil framför í verkmenningu þjóðarinnar.

 

Þessi einfalda athöfn, slátturinn, var kjarni málsins í bændasamfélaginu, og á þeim vettvangi gerði hugsjónarmaðurinn Torfi í Ólafsdal eina merkustu byltinguna svo að heyöflun varð í senn auðveldari og skilaði betri árangri en áður hafði verið.

 

Ég held að eitt af því sem einkenni Ólafsdalsættbogann sé einmitt verkhyggnin. Eins og áður sagði er hér ekki nein tölfræði að baki heldur tilfinning. Hér er sem sagt ætt, sem er sér meðvituð um að eiga fjöldann allan af verk- og tæknimenntuðu fólki, sem margt hefur lagt sitt til í verkmenningu þjóðarinnar og er stolt af Torfa og Guðlaugu sem stóðu hvort öðru jafnfætis á þeim vettvangi, hvort á sínu sviði.

 

II.

 

Önnur aðkoma að grasinu, sem var svo mikilvæg undirstaða íslenska bændasamfélagsins, birtist öld síðar, hjá einu af höfuðskáldum þjóðarinnar á tuttugustu öld, í ljóðinu Vor eftir Snorra Hjartarson. Þar er slegið á aðra og mildari strengi en í Sláttuvísum. Snorri yrkir þar ekki um grasið sem fellur vel á velli eins og hjá Jónasi. Hann er á annarri og mildari bylgjulengd eins og við heyrum í þessu ódauðlega ljóði:

 

Blessað veri grasið

sem grær kringum húsin

bóndans og les mér

ljóð hans

þrá og sigur

hins þögula manns.

 

Blessað veri grasið

sem grær yfir leiðin,

felur hina dánu

friði og von.

 

Blessað veri grasið

sem blíðkar reiði sandsins

grasið

sem græðir jarðar mein

 

Blessað veri grasið

blessað vor landsins.

 

Hér slær Snorri Hjartarson, dóttursonur Torfa og Guðlaugar, annan streng en afinn, hér er ekkert slegið og ekkert bitið, ekkert sem samsvarar „bítur ljár í skára“ hjá Jónasi, hér er allt á viðkvæmu nótunum og hárfínu strengjunum, hér situr dulhyggja ljóðsins i öndvegi.

 

Snorra er hugleikið lífgefandi hlutverk grassins. Það er að sönnu lífgjafi. En í öðrum skilningi en öld fyrr, nú grær [það] kringum húsin / bóndans og les mér / ljóð hans / þrá og sigur ... Ennfremur grær [það] yfir leiðin, / felur hina dánu / friði og von. Og síðast en ekki síst ... blíðkar [það] reiði sandsins / og græðir jarðar mein. Grasið er farið að minna á sólina, það umvefur allt blessun líkt og lífgefandi návist hins upphafna og óskiljanlega.

 

Grasið er orðið að tákni þeirrar blessunar sem hvílir yfir manninum og störfum hans, einkum starfi bóndans, það umvefur allt sem lifir með lífgefandi blessun sinni – einnig þá sem látnir eru og hvíla í moldinni. Leiði Einars Jónssonar og Þórdísar Guðmundsdóttur, afa og ömmu Guðlaugar í kirkjugarðinum á Felli, hér handan Steinadalsheiðar, og rústirnar af torfbæ systranna Þórdísar og Guðrúnar Guðmundsdætra í Seljum í Helgafellssveit, sem voru móðurömmur Ólafsdalshjóna beggja, koma í hugann. Þar bærast stráin í andvaranum á fögrum sumardegi, eins og núna, yfir minningu forfeðra og -mæðra.

 

Ljóð Snorra vísar ekki til vísinda- og tæknimanna heldur til næmra listamanna meðal afkomenda Torfa og Guðlaugar.

 

III.

 

Nú kynnu menn að segja að þetta með vísindi og tækni annars vegar og bókmenntir og listir hins vegar næði nú ekki að spanna allt svið mannsins og auk þess spannaði Ólafsdalsfjölskyldan ein miklu víðara svið, því að þar væri fólk úr öllum starfsgreinum til sjávar og sveita og kannski fæstir af þeim bændur, þar væru ferðafrömuðir, fjármálamenn og flugmenn, húsbændur, húsfreyjur og hjúkrunarfólk, leikhússfólk, læknar og lögfræðingar og þannig mætti lengi telja. En skoðum málið betur.

 

Í fornum fræðum Grikkja og Rómverja er gerður greinarmunur á tvenns konar lífsstíl og hver treystir sér til að deila við hina fornu spekinga? Sama á við um bókmenntir og listir allra tíma, þar er einnig til staðar leynt og ljóst greinarmunur á tveimur manngerðum. Annars vegar er sú sem Rómverjarnir nefndu á sínu máli, latínu, homo faber sem merkir hinn smíðandi maður, handverks- eða tæknimaðurinn. Þar er vísað til þess að maðurinn geti breytt umhverfi sínu og lífsskilyrðum með margvíslegum, hugvitssamlegum aðgerðum, með tækjum og tólum sem hann smíðar, einnig með framkvæmdum, t.d. með breytingum, jafnvel byltingum á umhverfinu. Í frægri skáldsögu eftir Max Frisch með heitinu Homo Faber, sem fyrst kom út árið 1957 og þrem áratugum síðar á íslensku er þessi manngerð, sem nútíminn hefur skrifað svo hátt, á dagskrá. Raunar er þar grimmileg árás á tæknihyggju nútímans, - vel að merkja: ekki á tæknina heldur á ákveðna manntegund sem aðalpersóna sögunnar, Faber að nafni, á að persónugera.

 

En hins vegar er svo í þessum klassísku fræðum talað um homo ludens, sem við getum nefnt hinn leikandi mann, þar er vísað til andstæðunnar, m.a. til skáldsins, tónlistarmannsins og dulhyggjulistamannsins. Hugmyndina um hinn leikandi mann má rekja langt aftur í tímann. Þekkt er setning um þessa manngerð eignuð Friedrich Schiller sem sagði: „Maðurinn leikur sér aðeins þegar hann er maður í fullri merkingu þess orðs – og hann er aðeins maður þegar hann leikur sér.“

 

Þessar tvær andstæðu manngerðir homo faber og homo ludens, einkenna heimspekilega mannfræði gegnum tíðina, tilraunir manna til að skilgreina tvær meginaðferðir mannsins á öllum tímum til að komast af í þessum heimi.

 

Við getum sagt að annar þeirra sé maðurinn sem smíðaði ljáinn, plóginn og rokkinn en hins vegar sé dulhyggjuskáldið sem yrkir um táknræna tilvist grassins og blessun þess á allt annan hátt en sá sem horfir á beina nytsemd þess við að fæða búfénaðinn á löngum vetrum og breyta þannig aðstæðum að manninum verði kleift að lifa af langa vetur í þessu landi, meira að segja frostavetur langa og harða, þannig vetur þekkti Torfi í Ólafsdal.

 

Fyrir hálfri öld kom út bókin Maður í einni vídd (1967) eftir Herbert Marcuse þar sem hann hefur áhyggjur af því að vestræn menning sé að verða – eða sé jafnvel þá þegar orðin – fórnarlamb þeirrar skynsemi, sem á rætur sínar að rekja til homo faber, allt lúti athafnamanninum og framkvæmdasjónarmiðum. En annað, hvaðeina sem lýtur að öðrum gildum mannlífsins, eigi í vök að verjast og framtíðin sé ekki björt í því efni. Bókin hafði gríðarleg áhrif og var einn hvatinn að 68-byltingunni. En í þessu efni hefur Ólafsdalsættin engu að kvíða. Hvers vegna?

 

IV.

 

Ég er ekki ættfræðingur en ég hef sterkt hugboð um að Ólafsdalsættin, sem runnin er frá þeim Guðlaugu og Torfa, sé mörgum ættum fremur samofin í einkar ríkum mæli úr þessum tveim grundvallarmanngerðum, homo faber og homo ludens, hinum iðjandi manni og hinum leikandi manni. Sameiginlega – ekki aðeins annar – hafa þeir gert okkur kleift að lifa af í þessu landi og ekki aðeins lifa af heldur lifa þar innihaldsríku og gefandi lífi í mannúðlegu samfélagi.

 

Þegar vel er að gáð voru þau Torfi og Guðlaug skilgetin afkvæmi síðari hluta nítjándu aldar, sem var tímabil hugsjónamannanna, áður en menningin klofnaði í tvö svið eins og síðar varð, þetta var tímabil Fjölnismanna og rómantísku stefnunnar sem enn lifir góðu lífi í bókmenntum og listum. Þar voru homo faber og homo ludens jafngildir og einnig í augum Ólafsdalshjóna. Í Sögu Torfa Bjarnasonar segir að stórvirki Torfa hafi verið fern. Hann er þar talinn fjögurra manna maki sem sinnti hlutverki bóndans og húsbóndans, hlutverki samvinnuleiðtogans, kennslufrömuðarins og skólastjórans og síðast en ekki síst hlutverki verkfæraframleiðandans, þar voru ljáirnir og fjöldinn allur af verkfærum og tækjum sem dreifðust víða. Hann var sannarlega homo faber.

 

Enn hann var einnig homo ludens, maður hugjónarinnar, og þeirrar lítillátu og samfélagsmiðuðu mannúðar sem heillaði nemendur hans og samstarfsfólk og gaf þeim vegarnesti til lífstíðar heim í sínar sveitir. Það kemur víða fram í sögu hans, ekki hvað síst í hlutverki hans sem skólastjóra. Hann var því maðurinn sem stóð í báða fætur, þar sem hugsjónamaðurinn og framkvæmdamaðurinn bjuggu saman í sátt og samlyndi. Hvaðeina sem smíðað var og hvaðeina sem framkvæmt var laut mannúðinni, samfélagshugsjóninni, betra mannlífi í byggðum landsins og betri byggð í fögru og gjöfulu landi. Í huga Ólafsdalshjóna var ekkert án hins: hugsjón og framkvæmdir, þar var samræmi á milli, hvort laut hinu eins og í hugum hugsjónamanna allra tíma.

 

Hugsjónamaðurinn smíðar það sem gerir líf mannsins farsælt og hann er jafnframt homo ludens, sem leikur sér og veit að hann „er aðeins maður þegar hann leikur sér“. Hugsjónarmaðurinn er með öðrum orðum maðurinn sem sameinar hinn iðjandi mann og hinn leikandi mann. Það ætti síður en svo að draga úr réttmætu stolti þessa hófstillta og hógværa ættboga.

 

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Ma 2024 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31