Tenglar

25. mars 2015 |

Eistnaflug hlaut Menningarverðlaun DV

Verðlaunahafar við afhendinguna í gær. Ljósm. DV / Sigtryggur Ari.
Verðlaunahafar við afhendinguna í gær. Ljósm. DV / Sigtryggur Ari.
1 af 2

Tónlistarhátíðin Eistnaflug sem haldin er í Neskaupstað ár hvert hlaut í gær Menningarverðlaun DV í flokki tónlistar, en að hátíðinni stendur fyrirtæki með því viðeigandi heiti Millifótakonfekt ehf. Eistnaflug hefur fyrir löngu unnið sér sess sem ein áhugaverðasta tónlistarhátíðin hérlendis og á hverju sumri síðasta áratuginn hafa rokkhundar og metalhausar fjölmennt á Neskaupstað. - En hvers vegna er verið að skrifa um þetta frétt á Reykhólavefinn?

 

Upphafsmaður og helsti skipuleggjandi hátíðarinnar alla tíð er tengdasonur Reykhóla og Reykhólasveitar, Stefán Magnússon íþróttakennari og tónlistarmaður. Hrefna Hugosdóttir kona hans, sem er í aðra ættina frá Miðjanesi í Reykhólasveit og hina frá Reykhólum, hefur jafnframt átt sinn ríka þátt í þeirri miklu vinnu sem þarna liggur að baki ár hvert og raunar árið um kring. Á síðasta ári, þegar hátíðin hélt upp á tíu ára afmæli, komu fram á Eistnaflugi á fimmta tug hljómsveita sem spiluðu fjölbreytta tónlist, þó að mikil áhersla sé á mjög þungt rokk.

 

Eistnaflug 2012 vann Menningarverðlaun Austurlands og síðan var hátíðin tilnefnd til Eyrarrósarinnar 2013. Að þessu sinni voru Menningarverðlaun DV afhent í 36. skipti, en þau voru veitt fyrir framúrskarandi árangur á listasviðinu á árinu 2014. Verðlaunin voru veitt í níu flokkum: Bókmenntum, fræðum, byggingarlist, danslist, hönnun, kvikmyndalist, leiklist, myndlist og tónlist. Þar að auki var tilkynnt um sigurvegara úr netkosningu dv.is, sem hlaut lesendaverðlaun DV, og forseti Íslands afhenti árleg heiðursverðlaun, en þau hlaut Guðrún Helgadóttir barnabókahöfundur. Formaður dómnefndar í tónlistarflokknum var Gunnar Lárus Hjálmarsson, líklega öllu betur þekktur sem dr. Gunni.

 

Sjá nánar: Þau hljóta Menningarverðlaun DV fyrir árið 2014

 

Athugasemdir

Áslaug Berta Guttormsdóttir, mivikudagur 25 mars kl: 20:54

Ég vil óska Stebba og Hrefnu til hamingju með verðlaunin. Eisnaflug er frábært framtak í alla staði. Það þarf mikla orku til að skipuleggja svona hátíð árum saman. Eflaust líka á stundum erfitt og lýjandi.
Það er gaman frá því að segja að á myndinni þekkti ég annan verðlaunahafa, Guðrúnu Kristinsdóttur prófessor, en hún er leiðbeinandinn minn í meistaranáminu. Hún hlaut verðlaun í flokki fræða fyrir bókina "Ofbeldi á heimili - Með augum barna", en sú bók byggir á niðurstöðum viðamikillar rannsóknar sem verður að líta á sem einstaka í sinni röð á Íslandi. Óska ég Guðrúnu einnig til hamingju.

Skrifaðu athugasemd:


Atburðadagatal

« Janar 2025 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31